Eystrasaltslönd í brennidepli: Byggjum brýr með barnastarfi

Nú í vor býður Norræna húsið til baltneskrar barnamenningarhátíðar í tilefni Barnamenningarhátíðar í Reykjavík. Fjölbreytt dagskrá hefur verið skipulögð í samstarfi við litháísku og lettnesku skólana í Reykjavík og skapandi einstaklinga frá Eystrasaltsríkjunum, búsettum á Íslandi. Hluti viðburðanna er ætlaður einstaklingum sem hafa baltnesk tungumál og eistnesku að móðurmáli en aðrir eru opnir almenningi og hafa það að markmiði að miðla baltneskri menningu og hefðum. Með þessari áherslu viljum við annars vegar sýna að Norræna húsið er opinn og aðgengilegur samkomustaður sem býður alla velkomna og hins vegar vinna gegn staðalímyndum og tilhneigingu til einhliða umfjöllunar í fjölmiðlum og athugasemdakerfum sem snýr að fólki með erlendan bakgrunn.

Íslenskir fjölmiðlar virðast ekki varpa ljósi á fjölbreytileika samfélagsins í sama mæli og fjölmiðlar í öðrum norrænum ríkjum gera en rannsóknir sýna að sú ímynd sem dregin er upp af fólki með erlendan bakgrunn hér á landi er oft lituð af neikvæðni. Sem dæmi má nefna að erlend þjóðerni eru gjarnan tilgreint þegar um er að ræða afbrotahegðun jafnvel þótt það tengist innihaldi fréttarinnar ekki með beinum hætti. Að undanförnu hefur umræðan um kórónuveirusmit og hver það er sem kemur með smit inn í landið skapað spennuþrungnar umræður innan samfélagsins. Svo hatrömm varð umræðan að sóttvarnarlæknir sá sig knúinn til að grípa í taumana og ítreka þá staðreynd að það væri veiran sjálf sem væri hinn eiginlegi óvinur.

Þegar litið er til þess að 18% þjóðarinnar hafa bakgrunn í öðru landi en Íslandi er þetta augljóslega mikið vandamál. Fjölmiðlar, ríki og samtök verða að taka ábyrgð og sporna við þessari þróun.

Norræna ráðherranefndin hefur frá því á tíunda áratugnum átt í nánu samstarfi við Eistland, Lettland og Litháen og höfum við í Norræna húsinu með afgerandi hætti ákveðið að auka menningarsamstarf við fólk af baltneskum uppruna. Meðal íbúa landsins er töluverður fjöldi fólks með baltneskan bakgrunn. Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem byggja á fæðingarlandi má áætla að á Íslandi búi um 3299 Litháar, 1965 Lettar og 166 Eistar (borið saman við 3644 fædda í Danmörku, 2173 í Svíþjóð, 212 í Finnlandi og 1273 í Noregi).

Menning byggir brýr og Norræna húsið er brúarsmiður. Í þessu tilviki byggjum við staðbundna innviði sem leiða okkur nær hvert öðru, auka gagnkvæman skilning og vinna þar með gegn fordómum. Stuðningurinn frá okkar baltnesku samstarfsaðilum hefur verið mikill og góður og full af auðmýkt höldum við áfram för okkar, meðvituð um mikilvægi þessa starfs sem við erum rétt að hefja.

Blogg forstjóra

Sjónarhorn listarinnar

Texti þýddur úr sænsku

Frá stofnun sinni árið 1968 hefur Norræna húsið verið mikilvægur vettvangur lista, menningar, tungumála og samfélagsumræðna á Íslandi. Við vinnum samkvæmt sýn norrænu forsætisráðherranna um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Á nýliðnum árum höfum við tekið skref til þess að þróa dagskrá okkar efnislega og skerpa hlutverk listarinnar í vinnu okkar með sýn norrænu ráðherranna að leiðarljósi. Hin ólíku sjónarhorn sem list getur miðlað eru ómetanleg á tímum sem þar sem við stöndum frammi fyrir bæði umhverfislegum og samfélagslegum áskorunum.

Í sýningunni „Í síkvikri mótun: Vitund og náttúra“ er hið sérstaka samband manns og náttúru á Vestur-Norðurlöndunum skoðað. Á þessum norðlægu slóðum hefur náttúran verið sjálfsagður og alltumlykjandi þáttur í lífinu sem mótað hefur fólkið og sjálfsmynd þess. Ekkert er eilíft en þær umbreytingar sem eiga sér stað í heiminum þessa stundina eru hraðari en áður hefur þekkst. Hvað gerist þegar skilyrði breytast, þegar fólk fetar nýjar slóðir, þegar vitund þjóðar og sjálfs tekur stakkaskiptum, þegar einhver kemur inn að utan?

Sýningin er fjölbreytt og lagskipt. Í verkunum er kafað djúpt í einstök málefni en einnig eiga verkin laumulegt samtal sín á milli. Eitt verk tekur yfir þar sem annað nemur staðar og frásögn tekur að myndast sem lítur til fortíðar og setur hana í samhengi við samtíð og framtíð. Fíngerðir þræðir binda einnig saman hina ólíku hluta Vestur-Norðurlanda, lönd sem eru nálægt og fjarri hvert öðru í senn.

Góðir samstarfsaðilar eru mikilvægir fyrir Norræna húsið, sérstaklega á tímum sem þessum þegar fjárframlög til menningar eru skorin niður og heimsfaraldur setur hömlur á ferðalög og hreyfanleika fólks. Ég er þakklát fyrir gott samstarf við Listháskóla Íslands og sendi þakkir til sýningarstjóra og listamanna sýningarinnar. Mig langar einnig að nýta tækifærið og þakka starfsfólki Norræna hússins sem hefur enn einu sinni sýnt að það er best í heimi.

Sabina Westerholm,
Forstjóri Norræna hússins í Reykjavík

Ljósmynd: Innsetningarsjónarhorn af verkinu „Old Films of the New Tale“ (2021) eftir Inuuteq Storch. 

Blogg forstjóra

Opin og aðgengileg Norðurlönd

Gleðilegan Dag Norðurlanda!

Í ár höldum við upp á 50 ára afmæli Norrænu ráðherranefndarinnar. Frá upphafi hefur Norræna ráðherranefndin haft það markmið að allir skuli eiga þess kost að taka þátt í norrænu samstarfi. Í nýju samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar í menningarmálum fyrir tímabilið 2021-2024 er markmiðið eftirfarandi: lista- og menningarstarf sem er aðgengilegt öllum á Norðurlöndum með jafnrétti að leiðarljósi.

Til þess að geta uppfyllt sýn norrænu ráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030 er aðgengi að jöfnum tækifærum mikilvægt. Til þess að ná þangað er nauðsynlegt að skoða með gagnrýnum augum hvernig maður vinnur, hvað maður gerir og hvernig maður kemur fram. Fyrir hvern og með hverjum? Þess konar vinna er tímafrek, flókin og getur jafnvel verið óþægileg; en að horfa í hina áttina er ekki möguleiki á Norðurlöndum dagsins í dag.

Börn og ungt fólk eru í forgangi í fyrrnefndri samstarfsáætlun. Bæði sem frumkvöðlar, þátttakendur og markhópur. Nýverið stofnaði Norræna húsið til vinaskólasambands við Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Í dag höldum við upp á dag Norðurlandanna með því að bjóða öllum krökkum í 6. bekk vinaskólans í sína fyrstu heimsókn í Norræna húsið. Við hlökkum til að vinna með krökkunum langtímaverkefni sem vinnur á dýptina, þar sem nemendurnir fá tækifæri til að læra, hafa áhrif, skapa og tileinka sér menningarlæsi sem nær út fyrir landamærin.

Ég kaus að óska ykkur til hamingju með Dag Norðurlanda á finnlandssænsku táknmáli. Þetta tungumál er talað af um það bil 300 manns og þetta er móðurmál föður míns. Hér á Íslandi er einnig talaður fjöldi tungumála og fyrir hvern viðburð sem við skipuleggjum verðum við að íhuga hvaða tungumál sé best að nota til að ná til sem flestra.

Í apríl bjóðum við í Norræna húsinu stolt til baltneskrar barnamenningarhátíðar. Við höfum mótað dagskrána í samvinnu við fulltrúa af baltneskum uppruna á Íslandi. Frá því snemma á tíunda áratugnum hefur Norræna ráðherranefndin átt í nánum tengslum við Eistland, Lettland og Litháen. Þetta er grunnur sem við viljum gjarnan byggja á þar sem að stór hluti nýrra Íslendinga á rætur í Eystrasaltsríkjunum.

Við í Norræna húsinu heitum því að gera allt sem í valdi okkar stendur til þess að vera norrænn vettvangur sem er opinn og aðgengilegur öllum.

Head Põhjala päeva!
Smagios Šiaurės šalių dienos!
Apsveicam Ziemeļvalstu dienā!

Blogg forstjóra

Ríkir kynjajafnrétti á Norðurlöndum?

Fyrir nákvæmlega ári síðan tók ég þátt í Me Too-ráðstefnu í Hörpu sem var liður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og skipulögð í samstarfi við Háskóla Íslands. Rúmlega 800 manns tóku þátt og á dagskrá voru þekktir fyrirlesarar á borð við Angelu Davis, Roxane Gay, Liz Kelly, Marai Larasi og Cynthiu Enloe.

Me Too í Hörpu / Sabina Westerholm

Fyrsta daginn voru norrænir ráðherrar og þjóðhöfðingjar á staðnum. Þrátt fyrir að ýmsar áskoranir sem norrænt samfélag stendur frammi fyrir hafi komið til tals, meðal annars í ljósi samtvinnun mismunabreyta, voru umræðurnar átakalausar og fólk kepptist við að gefa sjálfu sér klapp á bakið. Norðurlöndin eru jú ofarlega á lista yfir þau ríki þar sem jafnrétti kynjanna mælist mest. En eftir því sem á ráðstefnuna leið komu önnur sjónarmið fram í vaxandi mæli. Skyndilega tóku raddir kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna og kvenna sem kváðust sjálfar hafa farið illa út úr Me too-ferlinu að hljóma, kvenna sem sögðust aldrei hafa verið jafn jaðarsettar eða jafnmiklum órétti beittar og í íslensku samfélagi, í því landi þar sem mest jafnrétti á að ríkja.

Konur af erlendum uppruna er sá hópur sem er hvað berskjaldaðastur í íslensku samfélagi. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N. in Iceland) hafa um margra ára skeið staðið fyrir Söguhring kvenna, vettvangi þar sem konur af erlendum uppruna geta skipst á reynslusögum. Samkvæmt þeim tók starfsemin breytingum eftir Me too og söguhringurinn varð að nokkurs konar „safe space“, öruggu rými þar sem þátttakendur gátu deilt hugsunum sínum og upplifunum.

Djurberg og Berg / Julie Rowland

Djurberg og Berg / Image Julie Rowland

Stærsta verkefni okkar þetta árið, listsýningin Undirniðri, snertir einnig á málefnum tengdum kyni og kynverund. Í sýningunni rannsaka níu norrænir samtímalistamenn það sem ólgar undir yfirborði norrænnar útópíu um jafnréttissamfélag. Áþreifanlegir og óáþreifanlegir þræðir sem snúa að valdi, sjálfsmynd og berskjöldun taka að fléttast saman og leiða okkur í neðanjarðarferðalag um norræna velferðarsamfélagið.

Í haust munu jafnréttismálin setja svip sinn á dagskrá okkar. Umfram allt viljum við að Norræna húsið sé staður margbreytileika þar sem allar raddir fái að hljóma og hægt sé að ræða hvaða málefni sem er, líka þau erfiðu.

Blogg forstjóra

Að rækta garðinn sinn – leið til að njóta lífsins 

Texti þýddur úr sænsku

Ég hef tekið eftir því á gönguferðum um hverfið mitt að Reykjavík hefur tekið miklum breytingum frá því í fyrra.  Ég sé minna illgresi í görðum og fleiri nágranna krjúpa yfir blómabeðum.  Það er eins og áhugi okkar á nánasta umhverfi hafi aukist og hlutir sem áður voru aukaatriði séu núna settir í forgang. Á samfélagsmiðlunum er þetta greinilegt, þar úir og grúir af fallegum myndum af blómum úr görðum fólks.

Það er vitað mál að garðyrkja er heilsueflandi. Garðrækt hefur reynst árangursrík meðferð við kulnun og hún hefur verið notuð við endurhæfingu á öldrunarheimilum, í flóttamannabúðum og fangelsum þar sem fólk er undir álagi og glímir við óvissu og kvíða. Það veitir ákveðna núvitund að róta í mold og reyta arfa, hlúa að, fylgjast með og gleðjast yfir skjótum árangri. Frískt loft, sól og líkamleg áreynsla er alltaf af hinu góða.

Því kemur ekki á óvart á þessum skrítnu tímum að fólk skuli leita í garðinn sinn. Það höfum við í Norræna húsinu gert á undanförnum vikum.

Í samvinnu við Norrænu erfðaauðlindastofnunina (NordGen) í Alnarp í Svíþjóð hófum við verkefnið Sáum, sjáum og smökkum.  Ásamt börnum og ungu fólki ætlum við að fræðast um líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra matvælaframleiðslu með því að rækta norrænar tegundir í garði Norræna hússins. Þið getið kannski notið ávaxtanna hjá MATR í sumar en í haust vonumst við til að geta boðið til uppskeruveislu.

Garðurinn, náttúran og garðrækt eru áberandi í norrænum barnabókum þessa dagana. Í vor kom út dásamlega falleg bók í Finnlandi, Hemulens herbarium (ísl. Grasasafn hemúlsins), eftir Päivi Kaataja á finnsku og sænsku. Í glænýrri myndabók eftir Christel Rönn, Jinko och det finurliga fröet (ísl. Jinko og brögðótta fræið), segir frá spennandi ræktunarævintýri með dýrunum í skóginum. Margar nýjar og hvetjandi barnabækur hafa komið út í Svíþjóð um svipað efni. Förtrollad trädgård (ísl. Álagagarður) er falleg bók eftir Ceciliu Ottenby og Tio små blommor (ísl. Tíu lítil blóm) er frumleg talnabók eftir Emmu Virke og Idu Björs.

Nú skulum við finna hugarró og von í náttúrunni, njóta bjartra og langra sumardaga og gróðursins í allri sinni dýrð. Hvort sem hann er að finna í bókum, í gluggakistunni, í matjurtagarðinum eða í garði nágrannans.

Kveðja Sabina

 

Blogg forstjóra

Skiptir listin máli í Norræna húsinu?

Textinn er þýddur úr sænsku

Þegar Norræna húsið var vígt árið 1968 var þar ekkert sýningarrými. Ivar Eskeland, fyrsti forstjóri hússins, gerði sér fljótlega grein fyrir því að eitthvað vantaði. Hann beitti sér ötullega fyrir því að opnaður yrði sýningarsalur. Honum tókst að fá aukafjárveitingar frá ríkisstjórnum allra Norðurlandanna og ekki liðu nema þrjú ár þar til hægt var að halda fyrstu sýninguna í lausu rými í kjallara hússins. Óhætt er að segja að þar hafi hann lyft grettistaki.

Eftir að sýningarsalurinn var gerður upp í fyrra og til stóð að opna hann að nýju langaði okkur að gefa honum nafn. Í teikningum Alvars Aalto kallar hann rýmið „gallerí“. Orðið gallerí hefur fengið nýja merkingu og því vildum við frekar finna nafn sem var upprunnið í arkitektúr og passaði við önnur salarkynni hússins.

Ég ráðfærði mig við vin minn sem er arkitekt, lýsti fyrir honum rýminu og húsinu og sýndi honum teikningarnar. Hann stakk upp á orðinu „hvelfing“. „Hvelfing er oft undirstaðan og leiðir hugann að einhverju öruggu og notalegu undir salnum,“ skrifaði hann.

Í kjallara Norræna hússins er lágt til lofts og margar súlur sem minna á hvelfingu þrátt fyrir að loftið sé ekki bogamyndað. Táknræn merking nafnsins gæti ekki verið betri – hvelfingin er undirstaða hússins þar sem verðmætustu gripirnir eru varðveittir. Okkur leist vel á þessa hugmynd, takk Dan!

Við ákváðum að nota aðeins íslenska orðið fyrir hvelfingu. Við gerum okkur grein fyrir því að nafnið getur þvælst fyrir erlendum gestum hússins en vonum samt að það veki umræðu sem beinir athyglinni að listinni og mikilvægi hennar.

Í maí ætlum við að opna Norræna húsið aftur hægt og varlega og það skiptir mig miklu máli að Hvelfingin fái að opna á ný. Við erum ánægð með að geta haldið þar sýningu í sumar í tilefni 50 ára afmælis Íslenskrar grafíkur. Félagið hefur lifað og þróast samhliða Norræna húsinu og allar afmælissýningar félagsins hafa verið haldnar í sýningarsal hússins. Sýningarstjóri er hin frábæra Birta Guðjónsdóttir.

Frá upphafi hefur sýningarsalur Norræna hússins skipað stóran sess í myndlistarlífinu á Íslandi. Með sýningum á norrænni, íslenskri og alþjóðlegri myndlist vonumst við til að Hvelfingin geri það áfram. Listin er undirstaða Norræna hússins og hún er það sem heldur húsinu gangandi. Svarið við spurningunni er já.

Lesa fleiri blogg
Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð
 Listin í netheimum

Blogg forstjóra

Listin í netheimum

Tekstinn er þýddur úr sænsku

Föstudaginn 24. janúar opnaði myndlistarsýningin Land handan hafsins í Norræna húsinu en hún var framleidd af Pro Artibus stofnuninni í Finnlandi. Opnunarkvöldið var stórkostlegt, eins og meiri háttar veisla. Innan um myndlist, blóm, mat og vín fögnuðu uppnumdir gestirnir því að sýningarsalur Norræna hússins opnaði að nýju. Kvöldið hverfur mér seint úr minni, þessi síðasta geggjaða veisla áður en öllu var lokað.

Myndlistin er griðastaður þar sem við gleymum veruleikanum um stund og finnum hughreystingu, örvun og samhengi í annarri vídd. Undanfarnar vikur hafa sýnt okkur svo ekki verður um villst hvað menning og listir eru lífsnauðsynlegar manneskjunni. Aldrei hafa verið eins margar ábendingar á samfélagsmiðlum um bækur, kvikmyndir og spilunarlista, stafræna leiðsögn um söfn og sýningar að ógleymdum tónleikum og leiksýningum í beinu streymi.

Í menningarlífinu leggur fólk sig fram við að finna nýjar samskipta- og miðlunarleiðir þegar allar hefðbundnar menningarstofnanir eru lokaðar. Nú getur hver sem er fært listaverk í stafrænt form með þar til gerðum verkfærum og heimasíðum á netinu. En það er ekki eins einfalt og lítur út í fyrstu.

Listin snýst um samveru og rými
Þrátt fyrir að hinn stafræni heimur veiti óendanleg tækifæri til að njóta menningar og lista er netið best fallið til að miðla list sem er sköpuð markvisst með stafræna miðlun í huga og sem nýtir eðli og möguleika tækninnar til hins ítrasta. Ég vona svo sannarlega og ég trúi því reyndar að sá tími sem nú stendur yfir eigi eftir að kynda undir sköpun og nýjar hugmyndar um stafræna list og listmiðlun.

Þegar um er að ræða miðlun á list sem er sköpuð í raunheimum ætla ég að vona að það sé gert í góðu samráði við listafólkið sjálft og sýningarstjóra. Þá er betra að fresta sýningum en að þröngva nýju miðlunarformi upp á höfundana.

Við höfum ákveðið í samráði við listafólkið Marjo Levlin og Carl Sebastian Lindberg að streyma tveimur kvikmyndum af sýningunni Land handan hafsins. Það verður gert á heimasíðu Norræna hússins þar til sýningunni lýkur 5. apríl. Báðar myndirnar fjalla um mikilvæga viðburði í sögu Finnlands og tengjast viðfangsefni sýningarinnar sem er hugmyndir og draumar fólks um betri heim. Ég vona að þið grípið tækifærið til að sjá þær. Skoða myndbönd

Kær kveðja,
Sabina

PS. Griðastaður okkar fjölskyldunnar þessa dagana er Múmíndalurinn. Á hverju kvöldi lesum við „Halastjarnan kemur“ upphátt, þar sem við flissum og súpum hveljur yfir því hvernig sögupersónurnar bregðast við yfirvofandi hörmungum. Það er eitthvað kunnuglegt við það.

Lesa kveðja af heimaskrifstofunni

Blogg forstjóra

Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð

Þessi texti er þýddur úr sænsku

Nú bý ég við einangrun á eyju í fleiri þúsund kílómetra fjarlægð frá minni fósturjörð, frá vinum mínum og ættingjum. En ég hef það gott. Ég hef fjölskylduna mína og ég get sinnt skemmtilegasta starfi sem hægt er að hugsa sér. Það kom mér á óvart hvað umskiptin reyndust auðveld, að yfirgefa lifandi vinnustað sem iðaði af mannlífi og taka upp fjarvinnu að heiman. Ég sakna að sjálfsögðu gönguferðanna á morgnana gegnum fuglafriðlandið á leið til vinnu í fallega húsinu í Vatnsmýrinni. Ég sakna starfsfólksins, gestanna og samstarfsaðila hússins. En það bjargast. Þrátt fyrir einveruna á ég mikil samskipti við annað fólk þökk sé hinni stafrænu tækni.

Í síðustu viku fékk ég mér rauðvínsglas í góðum félagsskap. Það var fjarfundur í vínklúbbnum mínum í Finnlandi og í fyrsta sinn í rúmt ár gat ég tekið þátt. Við skröfuðum um heima og geima (mest um heimaskóla en líka um kvíða og einangrun) þar sem við sátum heima hjá okkur hvert í sínu horni. Yfirleitt er ég fjarri góðu gamni búandi á íslandi en nú brá svo við að ég gat verið með og það var í raun alveg dásamlegt.

En mér er hugsað til þeirra sem sitja einir heima og hitta engan annan í netheimum. Ég hugsa líka til þeirra sem eru með lítil börn og geta hvergi farið. Og ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem við í Norræna húsinu getum gert?

Hafðu samband
Norræna húsið er mikilvægur fundarstaður fyrir marga. Þrátt fyrir að húsið sé lokað viljum við vera til staðar og gera starfsemi hússins aðgengilega. Við leitum sífellt nýrra leiða og erum að prófa okkur áfram. Prjónaklúbbur Norræna hússins er kominn á samfélagsmiðlana og við stefnum að því að opna nýja og betrumbætta streymisveitu um miðjan næsta mánuð.  Þar munum við streyma í háum gæðum vönduðum viðburðum, tónleikum og ráðstefnum.  Allt þetta langar okkur að gera í samráði við ykkur. Á heimsíðu Norræna hússins höfum við sett upp tillögubox sem við hvetjum ykkur til að nota. Við viljum endilega vita hvers þið saknið og hvað við getum gert til að koma til móts við ykkur.

Næst langar mig að skrifa um að yfirfæra myndlist í stafrænt form og ég vill endilega heyra ykkar hugleiðingar um málið. Hægt verður að setja inn athugasemdir undir færslunni á Facebook.

Farið varlega á þessum skrýtnu tímum og hugsið vel að ykkar nánustu <3

Kær kveðja
Sabina

Lesa Listin í netheimum

Blogg forstjóra