Að rækta garðinn sinn – leið til að njóta lífsins 

Texti þýddur úr sænsku

Ég hef tekið eftir því á gönguferðum um hverfið mitt að Reykjavík hefur tekið miklum breytingum frá því í fyrra.  Ég sé minna illgresi í görðum og fleiri nágranna krjúpa yfir blómabeðum.  Það er eins og áhugi okkar á nánasta umhverfi hafi aukist og hlutir sem áður voru aukaatriði séu núna settir í forgang. Á samfélagsmiðlunum er þetta greinilegt, þar úir og grúir af fallegum myndum af blómum úr görðum fólks.

Það er vitað mál að garðyrkja er heilsueflandi. Garðrækt hefur reynst árangursrík meðferð við kulnun og hún hefur verið notuð við endurhæfingu á öldrunarheimilum, í flóttamannabúðum og fangelsum þar sem fólk er undir álagi og glímir við óvissu og kvíða. Það veitir ákveðna núvitund að róta í mold og reyta arfa, hlúa að, fylgjast með og gleðjast yfir skjótum árangri. Frískt loft, sól og líkamleg áreynsla er alltaf af hinu góða.

Því kemur ekki á óvart á þessum skrítnu tímum að fólk skuli leita í garðinn sinn. Það höfum við í Norræna húsinu gert á undanförnum vikum.

Í samvinnu við Norrænu erfðaauðlindastofnunina (NordGen) í Alnarp í Svíþjóð hófum við verkefnið Sáum, sjáum og smökkum.  Ásamt börnum og ungu fólki ætlum við að fræðast um líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra matvælaframleiðslu með því að rækta norrænar tegundir í garði Norræna hússins. Þið getið kannski notið ávaxtanna hjá MATR í sumar en í haust vonumst við til að geta boðið til uppskeruveislu.

Garðurinn, náttúran og garðrækt eru áberandi í norrænum barnabókum þessa dagana. Í vor kom út dásamlega falleg bók í Finnlandi, Hemulens herbarium (ísl. Grasasafn hemúlsins), eftir Päivi Kaataja á finnsku og sænsku. Í glænýrri myndabók eftir Christel Rönn, Jinko och det finurliga fröet (ísl. Jinko og brögðótta fræið), segir frá spennandi ræktunarævintýri með dýrunum í skóginum. Margar nýjar og hvetjandi barnabækur hafa komið út í Svíþjóð um svipað efni. Förtrollad trädgård (ísl. Álagagarður) er falleg bók eftir Ceciliu Ottenby og Tio små blommor (ísl. Tíu lítil blóm) er frumleg talnabók eftir Emmu Virke og Idu Björs.

Nú skulum við finna hugarró og von í náttúrunni, njóta bjartra og langra sumardaga og gróðursins í allri sinni dýrð. Hvort sem hann er að finna í bókum, í gluggakistunni, í matjurtagarðinum eða í garði nágrannans.

Kveðja Sabina

 

Skiptir listin máli í Norræna húsinu?

Textinn er þýddur úr sænsku

Þegar Norræna húsið var vígt árið 1968 var þar ekkert sýningarrými. Ivar Eskeland, fyrsti forstjóri hússins, gerði sér fljótlega grein fyrir því að eitthvað vantaði. Hann beitti sér ötullega fyrir því að opnaður yrði sýningarsalur. Honum tókst að fá aukafjárveitingar frá ríkisstjórnum allra Norðurlandanna og ekki liðu nema þrjú ár þar til hægt var að halda fyrstu sýninguna í lausu rými í kjallara hússins. Óhætt er að segja að þar hafi hann lyft grettistaki.

Eftir að sýningarsalurinn var gerður upp í fyrra og til stóð að opna hann að nýju langaði okkur að gefa honum nafn. Í teikningum Alvars Aalto kallar hann rýmið „gallerí“. Orðið gallerí hefur fengið nýja merkingu og því vildum við frekar finna nafn sem var upprunnið í arkitektúr og passaði við önnur salarkynni hússins.

Ég ráðfærði mig við vin minn sem er arkitekt, lýsti fyrir honum rýminu og húsinu og sýndi honum teikningarnar. Hann stakk upp á orðinu „hvelfing“. „Hvelfing er oft undirstaðan og leiðir hugann að einhverju öruggu og notalegu undir salnum,“ skrifaði hann.

Í kjallara Norræna hússins er lágt til lofts og margar súlur sem minna á hvelfingu þrátt fyrir að loftið sé ekki bogamyndað. Táknræn merking nafnsins gæti ekki verið betri – hvelfingin er undirstaða hússins þar sem verðmætustu gripirnir eru varðveittir. Okkur leist vel á þessa hugmynd, takk Dan!

Við ákváðum að nota aðeins íslenska orðið fyrir hvelfingu. Við gerum okkur grein fyrir því að nafnið getur þvælst fyrir erlendum gestum hússins en vonum samt að það veki umræðu sem beinir athyglinni að listinni og mikilvægi hennar.

Í maí ætlum við að opna Norræna húsið aftur hægt og varlega og það skiptir mig miklu máli að Hvelfingin fái að opna á ný. Við erum ánægð með að geta haldið þar sýningu í sumar í tilefni 50 ára afmælis Íslenskrar grafíkur. Félagið hefur lifað og þróast samhliða Norræna húsinu og allar afmælissýningar félagsins hafa verið haldnar í sýningarsal hússins. Sýningarstjóri er hin frábæra Birta Guðjónsdóttir.

Frá upphafi hefur sýningarsalur Norræna hússins skipað stóran sess í myndlistarlífinu á Íslandi. Með sýningum á norrænni, íslenskri og alþjóðlegri myndlist vonumst við til að Hvelfingin geri það áfram. Listin er undirstaða Norræna hússins og hún er það sem heldur húsinu gangandi. Svarið við spurningunni er já.

Lesa fleiri blogg
Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð
 Listin í netheimum

Listin í netheimum

Tekstinn er þýddur úr sænsku

Föstudaginn 24. janúar opnaði myndlistarsýningin Land handan hafsins í Norræna húsinu en hún var framleidd af Pro Artibus stofnuninni í Finnlandi. Opnunarkvöldið var stórkostlegt, eins og meiri háttar veisla. Innan um myndlist, blóm, mat og vín fögnuðu uppnumdir gestirnir því að sýningarsalur Norræna hússins opnaði að nýju. Kvöldið hverfur mér seint úr minni, þessi síðasta geggjaða veisla áður en öllu var lokað.

Myndlistin er griðastaður þar sem við gleymum veruleikanum um stund og finnum hughreystingu, örvun og samhengi í annarri vídd. Undanfarnar vikur hafa sýnt okkur svo ekki verður um villst hvað menning og listir eru lífsnauðsynlegar manneskjunni. Aldrei hafa verið eins margar ábendingar á samfélagsmiðlum um bækur, kvikmyndir og spilunarlista, stafræna leiðsögn um söfn og sýningar að ógleymdum tónleikum og leiksýningum í beinu streymi.

Í menningarlífinu leggur fólk sig fram við að finna nýjar samskipta- og miðlunarleiðir þegar allar hefðbundnar menningarstofnanir eru lokaðar. Nú getur hver sem er fært listaverk í stafrænt form með þar til gerðum verkfærum og heimasíðum á netinu. En það er ekki eins einfalt og lítur út í fyrstu.

Listin snýst um samveru og rými
Þrátt fyrir að hinn stafræni heimur veiti óendanleg tækifæri til að njóta menningar og lista er netið best fallið til að miðla list sem er sköpuð markvisst með stafræna miðlun í huga og sem nýtir eðli og möguleika tækninnar til hins ítrasta. Ég vona svo sannarlega og ég trúi því reyndar að sá tími sem nú stendur yfir eigi eftir að kynda undir sköpun og nýjar hugmyndar um stafræna list og listmiðlun.

Þegar um er að ræða miðlun á list sem er sköpuð í raunheimum ætla ég að vona að það sé gert í góðu samráði við listafólkið sjálft og sýningarstjóra. Þá er betra að fresta sýningum en að þröngva nýju miðlunarformi upp á höfundana.

Við höfum ákveðið í samráði við listafólkið Marjo Levlin og Carl Sebastian Lindberg að streyma tveimur kvikmyndum af sýningunni Land handan hafsins. Það verður gert á heimasíðu Norræna hússins þar til sýningunni lýkur 5. apríl. Báðar myndirnar fjalla um mikilvæga viðburði í sögu Finnlands og tengjast viðfangsefni sýningarinnar sem er hugmyndir og draumar fólks um betri heim. Ég vona að þið grípið tækifærið til að sjá þær. Skoða myndbönd

Kær kveðja,
Sabina

PS. Griðastaður okkar fjölskyldunnar þessa dagana er Múmíndalurinn. Á hverju kvöldi lesum við „Halastjarnan kemur“ upphátt, þar sem við flissum og súpum hveljur yfir því hvernig sögupersónurnar bregðast við yfirvofandi hörmungum. Það er eitthvað kunnuglegt við það.

Lesa kveðja af heimaskrifstofunni

Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð

Þessi texti er þýddur úr sænsku

Nú bý ég við einangrun á eyju í fleiri þúsund kílómetra fjarlægð frá minni fósturjörð, frá vinum mínum og ættingjum. En ég hef það gott. Ég hef fjölskylduna mína og ég get sinnt skemmtilegasta starfi sem hægt er að hugsa sér. Það kom mér á óvart hvað umskiptin reyndust auðveld, að yfirgefa lifandi vinnustað sem iðaði af mannlífi og taka upp fjarvinnu að heiman. Ég sakna að sjálfsögðu gönguferðanna á morgnana gegnum fuglafriðlandið á leið til vinnu í fallega húsinu í Vatnsmýrinni. Ég sakna starfsfólksins, gestanna og samstarfsaðila hússins. En það bjargast. Þrátt fyrir einveruna á ég mikil samskipti við annað fólk þökk sé hinni stafrænu tækni.

Í síðustu viku fékk ég mér rauðvínsglas í góðum félagsskap. Það var fjarfundur í vínklúbbnum mínum í Finnlandi og í fyrsta sinn í rúmt ár gat ég tekið þátt. Við skröfuðum um heima og geima (mest um heimaskóla en líka um kvíða og einangrun) þar sem við sátum heima hjá okkur hvert í sínu horni. Yfirleitt er ég fjarri góðu gamni búandi á íslandi en nú brá svo við að ég gat verið með og það var í raun alveg dásamlegt.

En mér er hugsað til þeirra sem sitja einir heima og hitta engan annan í netheimum. Ég hugsa líka til þeirra sem eru með lítil börn og geta hvergi farið. Og ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem við í Norræna húsinu getum gert?

Hafðu samband
Norræna húsið er mikilvægur fundarstaður fyrir marga. Þrátt fyrir að húsið sé lokað viljum við vera til staðar og gera starfsemi hússins aðgengilega. Við leitum sífellt nýrra leiða og erum að prófa okkur áfram. Prjónaklúbbur Norræna hússins er kominn á samfélagsmiðlana og við stefnum að því að opna nýja og betrumbætta streymisveitu um miðjan næsta mánuð.  Þar munum við streyma í háum gæðum vönduðum viðburðum, tónleikum og ráðstefnum.  Allt þetta langar okkur að gera í samráði við ykkur. Á heimsíðu Norræna hússins höfum við sett upp tillögubox sem við hvetjum ykkur til að nota. Við viljum endilega vita hvers þið saknið og hvað við getum gert til að koma til móts við ykkur.

Næst langar mig að skrifa um að yfirfæra myndlist í stafrænt form og ég vill endilega heyra ykkar hugleiðingar um málið. Hægt verður að setja inn athugasemdir undir færslunni á Facebook.

Farið varlega á þessum skrýtnu tímum og hugsið vel að ykkar nánustu <3

Kær kveðja
Sabina

Lesa Listin í netheimum