Opin og aðgengileg Norðurlönd

Gleðilegan Dag Norðurlanda!

Í ár höldum við upp á 50 ára afmæli Norrænu ráðherranefndarinnar. Frá upphafi hefur Norræna ráðherranefndin haft það markmið að allir skuli eiga þess kost að taka þátt í norrænu samstarfi. Í nýju samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar í menningarmálum fyrir tímabilið 2021-2024 er markmiðið eftirfarandi: lista- og menningarstarf sem er aðgengilegt öllum á Norðurlöndum með jafnrétti að leiðarljósi.

Til þess að geta uppfyllt sýn norrænu ráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030 er aðgengi að jöfnum tækifærum mikilvægt. Til þess að ná þangað er nauðsynlegt að skoða með gagnrýnum augum hvernig maður vinnur, hvað maður gerir og hvernig maður kemur fram. Fyrir hvern og með hverjum? Þess konar vinna er tímafrek, flókin og getur jafnvel verið óþægileg; en að horfa í hina áttina er ekki möguleiki á Norðurlöndum dagsins í dag.

Börn og ungt fólk eru í forgangi í fyrrnefndri samstarfsáætlun. Bæði sem frumkvöðlar, þátttakendur og markhópur. Nýverið stofnaði Norræna húsið til vinaskólasambands við Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Í dag höldum við upp á dag Norðurlandanna með því að bjóða öllum krökkum í 6. bekk vinaskólans í sína fyrstu heimsókn í Norræna húsið. Við hlökkum til að vinna með krökkunum langtímaverkefni sem vinnur á dýptina, þar sem nemendurnir fá tækifæri til að læra, hafa áhrif, skapa og tileinka sér menningarlæsi sem nær út fyrir landamærin.

Ég kaus að óska ykkur til hamingju með Dag Norðurlanda á finnlandssænsku táknmáli. Þetta tungumál er talað af um það bil 300 manns og þetta er móðurmál föður míns. Hér á Íslandi er einnig talaður fjöldi tungumála og fyrir hvern viðburð sem við skipuleggjum verðum við að íhuga hvaða tungumál sé best að nota til að ná til sem flestra.

Í apríl bjóðum við í Norræna húsinu stolt til baltneskrar barnamenningarhátíðar. Við höfum mótað dagskrána í samvinnu við fulltrúa af baltneskum uppruna á Íslandi. Frá því snemma á tíunda áratugnum hefur Norræna ráðherranefndin átt í nánum tengslum við Eistland, Lettland og Litháen. Þetta er grunnur sem við viljum gjarnan byggja á þar sem að stór hluti nýrra Íslendinga á rætur í Eystrasaltsríkjunum.

Við í Norræna húsinu heitum því að gera allt sem í valdi okkar stendur til þess að vera norrænn vettvangur sem er opinn og aðgengilegur öllum.

Head Põhjala päeva!
Smagios Šiaurės šalių dienos!
Apsveicam Ziemeļvalstu dienā!