Staður innblásturs og skapandi hugsunar

Norræna húsið í Reykjavík var opnað 1968 og er menningarstofnun sem rekin er af Norrænu ráðherranefndinni. Markmið Norræna hússins er að hlúa að og styrkja menningartengsl milli Íslands og hinna Norðurlandanna. Frá upphafi hefur Norræna húsið markað sér sérstöðu í íslensku menningarlífi, oft með því að hafa frumkvæði að og skipulagt margvíslega menningarviðburði og sýningar.
Í Norræna húsinu er einnig að finna einstakt bókasafn, sem lánar út bókmenntir eingöngu á norrænum tungumálum, barnabókasafn, kaffihús, sýningarsal og hátíðarsal.

Stjórn Norræna hússins 2023

  • Mads Bjørn Hansen (DK)
  • Ingrid Leffler (SE)
  • Julian Owusu (FI)
  • Maigun Solmunde (FÖ)
  • Daniel Svavarsson (IS)

Alvar Aalto

Alvar Aalto, hönnuður Norræna hússins, er fæddur árið 1898 og lést 1976 í Finnlandi. Hann fékk snemma áhuga á fornklassískri byggingarlist Grikkja og Ítala og var sérstaklega hugleikið samspil bygginga þeirra við landslagið. Margar af byggingum Aalto eru þannig innblásnar af vænglaga formi útileikhúsa (amfitheater) og uppröðun byggingarhluta um lokaðan húsagarð (atrium). En hann varð einnig fyrir áhrifum af hugsjónum módernismans við upphaf 20.aldarinnar um einfaldleika og notagildi bygginga, sem hann svo þróaði áfram á afar listrænan og persónulegan hátt með áherslu á náttúruleg efni og lífræn form sem gefa byggingum hans hlýlegt viðmót. Útgangspunktur allrar vinnu hans var að setja eðli og þarfir mannsins í fyrirrúm, og hann var sannfærður um gildi góðrar byggingarlistar til að auðga mannlegt líf og tilveru.
Norræna húsið er sannarlega sniðið að þeim stað, því loftslagi og þeirri menningu sem það er byggt inn í, en í því má einnig finna þroskaða útfærslu af mörgum þeim þáttum sem arkitektinn Alvar Aalto vann með í öðrum verkum sínum. Í húsinu er reyndar hægt að greina náinn samruna hins hvíta módernisma sem Aalto lagði upp með í byrjun ferils síns og hins efniskennda eða ljóðræna módernisma sem einkenndi síðari verk hans.
Andstæður láréttra, agaðra lína og lóðréttra, lífrænna drátta sem birtast m.a. í hvítmáluðum flötum Norræna hússins andspænis háglansandi strýtunni upp úr miðri byggingunni skapa sterka sjónræna spennu og örva margvíslega skynjun á formi og rými byggingarinnar.
Alvar Aalto hannaði innanstokksmuni í flest allar byggingar sínar og mörg húsgagna hans, lampa og annarra muna eru framleidd enn í dag. Í Norræna húsinu eru allar innréttingar, lampar og nær öll húsgögn eftir Aalto, og stóru bronshöldurnar á dyrunum eru eins handtak hans sjálfs: mjúkt og þétt.

Saga hússins

Manngerð þúst í miðri mýri
Bygging Norræna hússins er ekki stór en staðsetning þess ber vitni þeirri næmu tilfinningu sem Aalto hafði fyrir landslagi staðar. Í stað þess að berast mikinn á tyllir hann húsinu á manngerða þúst í miðri mýrinni og formar síðan litla tjörn norðan við húsið sem kallast á við stærri tjarnirnar tvær í átt að miðbænum. Með því móti dregur hann fram náttúruleg sérkenni bæjarstæðisins og gagnkvæm tengsl manns og náttúru, byggingar og staðar. Sjálf byggingin er að grunni til lágreist og hvítmáluð.

Upp úr flötu þaki ferhyrningslaga jarðhæðarinnar rís hins vegar allsérstakt og áberandi form sem klætt er dökkfjólubláum glerjuðum flísum. Inn af anddyrinu er skáli í miðju hússins sem nýtur dagsbirtu um kringlótt ofanljós sem dreift er yfir loftið. Frá skálanum er gengið inn í bókasafn hússins, inn í tónlistar- og ráðstefnusalinn, inn í skrifstofuálmuna og ekki síst inn í veitingastofu hússins sem opnast með miklu útsýni yfir miðbæinn að Esjunni til norðurs.

Bókasafn Norræna hússins
Í bókasafninu opnast rýmið á óvæntan hátt þar sem lögun þess og lofthæð markast af strýtuforminu upp úr miðju byggingarinnar. Miðhluti gólfsins er tekinn niður og leiðir að neðri hæð byggingarinnar, en birtan streymir á örlátan hátt niður um ofanljós í loftinu sem formað er líkt og kristall sem stendur upp úr strýtunni á áberandi hátt. Við hlið bókasafnsins er tónlistar- og ráðstefnusalurinn. Óreglulegt form hans og viðarklæddir veggirnir stuðla að góðum hljómburði hvort sem um er að ræða tónlist eða talað mál. Alvar Aalto hannaði innanstokksmuni í flest allar byggingar sínar og mörg húsgagna hans, lampa og annarra muna eru framleidd enn í dag.

 

Mynd: Natalie Djurberg & Hans Berg, One Last Trip to the Underworld (2019) Ljósmynd: Pétur Thomsen