Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt norrænni stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi, sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum umhverfinu til góða.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Jens-Kjeld Jensen frá Færeyjum hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Heiðursdoktorinn, rithöfundurinn, kokkurinn og náttúruunnandinn Jens-Kjeld Jensen hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir viðleitni sína til að rannsaka og miðla upplýsingum um þróun líffræðilegrar fjölbreytni í Færeyjum. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að hann sé fyrirmyndardæmi um það hverju sannur eldhugi geti komið til leiðar.

Jens-Kjeld Jensen hefur skrifað fimm bækur og meira en 500 greinar um líffræðilega fjölbreytni í Færeyjum, þar af yfir 200 fræðigreinar og fræðigreinar fyrir almenning. Því er varla hægt að kalla starf hans tómstundaiðju. Það gerir hann reyndar sjálfur, þrátt fyrir að hafa verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Færeyjum. Jensen hlaut verðlaun Norðurlandaráðs fyrir ötullegt starf til meira en 40 ára þar sem hann hefur meðal annars lagt áherslu á fjölbreytileika færeyskrar náttúru.

Fyrir meiri upplýsingar heimsækið norden.org. 

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaunin voru sett á laggirnar til að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndunum. Þau hafa verið veitt frá árinu 1995 og eru afhent við sama tækifæri og önnur verðlaun Norðurlandaráðs.

Þriggja þrepa val á verðlaunahafa

Val á handhafa umhverfisverðlaunanna er þriggja þrepa ferli:

 • Allir geta sent inn tillögur
 • Dómnefndin velur þá sem fara í úrslit (1 eða 2) frá hverju landi
 • Dómnefndin kemur saman og velur verðlaunahafa

Um dómnefndina

Í dómnefndinni eiga sæti 13 fulltrúar: Tveir frá hverju Norðurlandanna og einn frá hverju sjálfstjórnarsvæðanna; Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Verðlaunafé og verðlaunaafhending

Umhverfisverðlaunin nema 300 þúsundum danskra króna (um 6 mill ISK), sem er sama upphæð og verðlaunin fyrir bókmenntir, tónlist og kvikmyndir.

Verðlaunahafar síðustu ára

 • 2020 Jens-Kjeld Jensen, Færeyjum
 • 2019 Greta Thunberg, Svíþjóð (Greta afþakkaði verðlaunin)
 • 2018 Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands
 • 2017 RePack, Finnlandi
 • 2016 Too Good To Go, Danmörku (stafræn nýsköpun sem ýtir undir sjálfbæran lífsstíl)
 • 2015 Orkufyrirtækið SEV (græn raforka), Færeyjum
 • 2014 Reykjavíkurborg (víðtækt og markvisst starf að umhverfismálum)
 • 2013 Selina Juul, Danmörku (barátta gegn matarsóun)

Sjá fleiri verðlaunahafa og tilnefningar

 

 

 

Fanney Karlsdóttir

Skrifstofa fyrir Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hefur verið starfrækt í Norræna húsinu síðan í janúar 2016. Skrifstofan annast öll dagleg störf sem tengjast verðlaununum. Vinnan fer fram í samstarfi við norræna dómnefnd verðlaunanna, sem og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofustjóri verðlaunanna:

Fanney Karlsdóttir
fanney(hjá)nordichouse.is
5517032