Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Skrifstofa fyrir Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hefur verið starfrækt í Norræna húsinu síðan í janúar 2016. Skrifstofan annast öll dagleg störf sem tengjast verðlaununum. Vinnan fer fram í samstarfi við norræna dómnefnd verðlaunanna, sem og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofustjóri verðlaunanna, Fanney Karlsdóttir.

Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019

Greta Thunberg afþakkaði verðlaunin 

Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en afþakkaði þau í mótmælaskyni gegn aðgerðaleysi í loftslagsmálum.
Umhverfisverðlaunin voru afhent af sænska umhverfisaðgerðasinnanum Noura Berrouba. Isabelle Axelsson og Sophia Axelsson frá samtökunum FridaysForFuture voru viðstaddar afhendinguna fyrir hönd Gretu Thunberg við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi. Þær fluttu erindi frá Gretu þar sem hún sagði meðal annars að heimurinn þyrfti ekki á fleiri umhverfisverðlaunum að halda.

Hreyfingin
FridaysForFuture er hreyfingin sem Greta Thunberg kom af stað í ágúst 2018 þegar hún fór í þriggja vikna skólaverkfall til að sitja fyrir framan sænska þinghúsið og mótmæla skorti á loftslagsaðgerðum af hendi stjórnmálamanna.

Sjálf er Greta sem stendur á ferðalagi vestanhafs. Hún áformar að vera viðstödd loftslagsviðræður Sameinuðu þjóðanna í Chile í desember.

Rökstuðningur dómnefndar
Þema verðlaunanna í ár var „verkefni sem styðja við sjálfbæra neyslu og framleiðslu með því að gera meira og betur með minna“. Greta Thunberg var tilnefnd af bæði Svíþjóð og Noregi.

Mynd af Isabelle Axelsson og Sophia Axelsson frá samtökunum FridaysForFuture
Ljósmyndari: Magnus Fröderberg

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaunin voru sett á laggirnar til að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndunum. Þau hafa verið veitt frá árinu 1995 og eru afhent við sama tækifæri og önnur verðlaun Norðurlandaráðs.

Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænni stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi, sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir náttúru og umhverfi í starfi sínu, eða hefur sýnt frumkvæði á annan hátt með sértækum aðgerðum náttúru og umhverfi til góða.

Þriggja þrepa val á verðlaunahafa

Val á handhafa umhverfisverðlaunanna er þriggja þrepa ferli:

  • Allir geta sent inn tillögur
  • Dómnefndin velur þá sem fara í úrslit (2 eða 1) frá hverju landi
  • Dómnefndin kemur saman og velur verðlaunahafa

Um dómnefndina

Í dómnefndinni eiga sæti 13 fulltrúar: Tveir frá hverju Norðurlandanna og einn frá hverju sjálfstjórnarsvæðanna; Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Verðlaunafé og verðlaunaafhending

Umhverfisverðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna (rúmlega 5 mill ISK), sem er sama upphæð og verðlaunin fyrir bókmenntir, tónlist og kvikmyndir.

Verðlaunahafar síðustu ára

  • 2018 Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands
  • 2017 RePack frá Finnlandi
  • 2016 Too Good To Go frá Danmörku (stafræn nýsköpun sem ýtir undir sjálfbæran lífsstíl)
  • 2015 Færeyska orkufyrirtækið SEV (græn raforka)
  • 2014 Reykjavíkurborg (víðtækt og markvisst starf að umhverfismálum)
  • 2013 Selina Juul frá Danmörku (barátta gegn matarsóun)

Sjá fleiri verðlaunahafa og tilnefningar

Nánari upplýsingar um verðlaunin

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

 

Nánari upplýsingar veitir

Fanney Karlsdóttir
fanney(at)nordichouse.is
Tel: +354 551 7032