Heimsyndisgarðurinn: grænn vöxtur á Norðurlöndunum

Norræna húsið ræktar garðinn sinn í samstarfi við samtökin W.O.M.E.N. „Women Of Multicultural Ethnicity Network in Iceland“ og NordGen, sem er sameiginlegur genabanki Norðurlanda og þekkingarsetur um erfðaauðlindir sem eru mikilvægar í landbúnaði og skógrækt.

Garðurinn þjónar fjölþættum tilgangi; hann eflir tengslin við íslenskar jurtir og aðrar sem gætu notið sín í íslenskum aðstæðum, og eflir einnig félagsleg tengsl þeirra erlendra kvenna sem hann rækta. Í gróðurhúsinu og í góðurkössum rækta W.O.M.E.N. in Iceland fræ útveguð af NordGen og gestir og gangandi geta fylgst með vexti jurtanna yfir sumartímann og nálgast upplýsingar um þær á skiltum.

Sjáum, sáum og smökkum!

Sumarið 2023 má fylgjast með ræktun jurta í Heimsyndisgarðinum í tengslum við fræðsluverkefnið „Sjáum, sáum, smökkum“ sem unnið er í samstarfi Norræna hússins, NordGen, Grasagarðs Reykjavíkur og W.O.M.E.N. in Iceland. NordGen hannaði  fjóra fræ- og fræðslupakka sem dreifðir voru til fjölda leikskóla- og grunnskólabekkja í Reykjavík um vorið, og fengu börnin þannig tækifæri til að sá fræjum og fylgjast með þeim vaxa í skólastofum sínum. Börnin læra í leiðinni um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni innan plöntutegunda, fræðast um korntegundirnar fjórar sem ræktaðar eru á Norðurlöndum og öðlast betri skilning á hvaðan hinn ræktaði matur kemur og hvernig má rækta hann í nærumhverfinu. Tveir þessara fræðslupakka eru ræktaðir af
W.O.M.E.N. in Iceland í Heimsyndisgarðinum í sumar.

Fræðsluræktunin sem sjá má við Norræna húsið sumarið 2023:

1) Korntegundirnar fjórar

Tilgangurinn með þessari tilraun er að fræðast um korntegundirnar fjórar sem ræktaðar eru á Norðurlöndum, útskýra af hverju þær eru mikilvægar og segja til hvers þær eru notaðar.

Hvaða tegundir eru þetta?

Hveiti er nytjaplanta sem þið borðið líklega á hverjum einasta degi, til dæmis í brauði, pasta eða kökum. Hveiti er mest ræktaða nytjaplanta í heimi og það á líka við á Norðurlöndum. Áætlað er að hveiti sé uppspretta 15% allra hitaeininga sem neytt er í heiminum. Nú til dags er bygg aðallega notað sem fóður og til að brugga bjór en fyrr á öldum var bygg líka notað í hafragraut og flatbrauð. Allt fram á 19. öld var rúgur afar mikilvæg matjurt, til dæmis í Svíþjóð, þar sem rúgur var grunn- fæða (rúgbrauð og hafragrautur). Þótt hveiti hafi síðan orðið sífellt algengara er brauðmenning þó ekki einsleit á Norðurlöndum og þannig gegnir rúgbrauð mjög stóru hlutverki í til dæmis Danmörku og á Íslandi. Hafrar eru matjurt sem nú til dags er til dæmis notuð í múslí, sumt brauð og hafragraut. Fram á 18. öld var hafrarækt yfirleitt hliðarbúgrein en fór svo að færast í aukana, aðallega til þess að framleiða hrossafóður. Síðasta áratuginn hefur enn orðið aukning vegna framleiðslu á „nýjum matvælum“ á borð við hafradrykki. Ísland er einn norðlægasti staðurinn þar sem mögulegt er að rækta korn. Því er áhugavert að sjá hvernig jurtirnar haga sér. Hversu þroskað verður kornið? Hvernig er það útlits og viðkomu? Er hægt að segja til um hvenær það er fullþroskað?

2) Eins en þó ólíkar

Tilgangurinn með þessari tilraun er að afla þekkingar um líffræðilega fjölbreytni, ná- nar tiltekið erfðafræðilega fjölbreytni, og útskýra af hverju erfðafræðileg fjölbreytni er svona mikilvæg. Hönnun pakkans, sem sýnir ólík afbrigði innan sömu tegundar, er ætlað að gefa skýra mynd af áhrifunum sem erfðafræðileg fjölbreytni getur haft á byggingu plantna.

Hvaða tegundir eru þetta?

Núorðið er óvenjulegt að rækta næpur en næpan var löngum mikilvæg fæða fyrir bæði menn og skepnur. Þetta er matjurt sem hentar til ræktunar í köldu loftslagi Norðurlanda. Bragðið minnir á rauðrófu en áferðin er líkari radísu.

Það er fljótlegt og auðvelt að rækta radísur, sem fólk tengir gjarnan við vorið og fyrstu sumardagana. Radísurækt varð ekki algeng á Norðurlöndum fyrr en á 19. öld.

Fyrir utan kartöflur eru gulrætur líklega vinsælasti rótarávöxturinn. Uppruni gulrótarinnar í náttúrunni er raunar tvíþættur, annars vegar með fjólublárri/rauðri/appelsínugulri rót og hins vegar með gulri/hvítri rót. Fram á 16. öld voru gulrætur purpurarauðar, fjólubláar, rauðar eða svartar en á 18. öld fór appelsínuguli liturinn að verða ráðandi.

Það þarf ekki nema að horfa á afbrigðin af radísum, næpum og gulrótum til að átta sig á muninum á þeim og að hvert þeirra hafi sitt sérstaka erfðaefni. Erfðafræðileg fjölbreytni er svo miklu meira en bara mismunandi bygging (útlit). Margir eiginleikar eru mikilvægir, svo sem næringargildi, bragð, áferð, þol gegn meindýrum og sjúkdómum, hæð jurtarinnar, hvort jurtin blómgist/beri ávexti snemma eða seint, stöðugleika stilka, aðlögun afbrigða að tilteknu umhverfi/loftslagi/landsvæði o.s.frv.

Allt eru þetta afar mikilvægir eiginleikar sem vert er að hafa í huga þegar ný ræktunarafbrigði eru þróuð.

W.O.M.E.N. in Iceland

Markmið samtakanna er að sameina, koma á framfæri og fjalla um hagsmuni og málefni kvenna af erlendum uppruna sem búa á Íslandi til að koma á jafnrétti fyrir þær sem konur og sem útlendingar á öllum sviðum samfélagsins. Söguhringur kvenna er á meðal verkefna W.O.M.E.N. og tilgangur þess er að skapa vettvang fyrir konur til að deila sögum sínum, hvort sem þær eru persónulegar eða skáldaðar frásagnir, og gefa þeim tækifæri til að hittast í óformlegu andrúmslofti og deila menningarlegum bakgrunni sínum. Heimsyndisgarðurinn við Norræna húsið skapar einmitt slíkan vettvang fyrir Söguhringinn, þar sem konurnar hittast, stunda garðyrkju og deila sögum sínum.

Nánari upplýsingar um samtökin má finna á heimasíðu W.O.M.E.N. in Iceland með því að smella hér.


Allar myndir frá W.O.M.E.N. eru teknar af Petra Marita Leifsdóttir

 

NordGen

NordGen er norræn stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Markmið NordGen er að standa vörð um og stuðla að sjálfbærri nýtingu á erfðaauðlindum sem eru mikilvægar í landbúnaði og skógrækt á Norðurlöndum. NordGen er genabanki sem ber ábyrgð á norrænu fræsafni sem geymir fræ 33.000 plantna. Í NordGen er fræsafnið prófað, endurræktað og gömlum fræjum skipt út fyrir ný til að varðveita lífbreytileika í ræktun. Í samstarfi við vísindamenn, plönturæktendur, heimili, söfn utandyra og fleiri eru um fjögur þúsund fræprufur sendar árlega til að skapa samvinnu um sjálfbært samfélag.

Hefur þú líka áhuga á að rækta norrænar matjurtir?
Á þann hátt átt þú þátt í að vernda líffræðilega fjölbreytni og norræna menningararfleifð. Vertu velkomin/n í gjafavöruverslun NordGen til að kaupa fræpakka. Á hverju vori er NordGen með fjölda norrænna fræja til sölu í vefverslun sinni á vefslóðinni shop.nordgen.org

Meira um NordGen hér.

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að plöntutegund deyi út er að rækta hana og deila fræjum hennar með öðrum.