Sáum, sjáum og smökkum – grænn vöxtur á Norðurlöndum

Eldað úr uppskerunni með Árna Ólafi Jónssyni: Salat og gúrkugos

Unnið úr uppskerunni með Árna, Eddu og Þór: Pestó

Norræna húsið ræktar garðinn sinn – bæði bókstaflega með því að gróðursetja, en um leið efla tengslin við íslenskar jurtir og aðrar sem gætu notið sín í íslenskum aðstæðum. Í gróðurhúsi og ræktunarkössum við húsið verður hægt að fylgjast með vexti ýmissa tegunda af matjurtum og öðrum gróðri yfir sumartímann. Verkefnið er unnið í samstarfi við NordGen sem útvegar fræin. NordGen er sameiginlegur genabanki Norðurlanda og þekkingarsetur um erfðaauðlindir sem eru mikilvægar í landbúnaði og skógrækt. Hópur barna tekur þátt í garðyrkjunni og miðlar upplýsingum um hana út frá sínu sjónarhorni. Kaffihús Norræna hússins, MATR, mun svo nýta uppskeruna í matseld og leyfa gestum hússins að njóta hennar.

Með ræktuninni viljum við skapa sjónræna fræðslu um norræna arfleifð í gróðurrækt. Við viljum sýna hvernig varðveisla á fræjum plantnanna og ræktun þeirra styður við líffræðilega fjölbreytni sem skapar jarðveg fyrir lífvænlegri heim þar sem fjölbreyttar tegundir fá að þrífast. Verkefnið tengir okkur líka við umræðu um loftslagsbreytingar og hvaða afleiðingar þær hafa fyrir ræktun á mat á norðlægum breiddargráðum. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort við getum fundið nýjar og sjálfbærari aðferðir í framleiðslu og neyslu á mat.

SÁUM
Fyrsta skrefið er að forsá nokkrum fræjum og færa gróðurinn síðan utandyra. Með þessu móti prófum við okkur áfram með meðal annars agúrkur, tómata og melónur. Öðrum fræum sáum við beint út í ræktunarkassa, þar á meðal nokkrum tegundum af norrænum baunum og kryddjurtum. Hópur barna tekur þátt í að sá fræjunum, fræðast og segja frá ræktuninni.

SJÁUM
Við sjáum hvernig gengur. Vertu velkomin/n að skoða þig um fyrir utan Norræna húsið og fylgjast með hvernig gengur að rækta hinar ýmsu jurtir. Á dagskrá eru einnig viðburðir þar sem veitt verður betri innsýn í ræktunina og hægt að fræðast meira um plönturnar.

SMÖKKUM
Ef þig langar að smakka uppskeruna þá kíktu endilega við á kaffihúsi Norræna hússins MATR. Uppskera ræktunarinnar verður nýtt í matseld á MATR þar sem áhersla er lögð á að nýta vel staðbundnar afurðir til að lágmarka kolefnisspor reksturins.

Þau Edda og Þór hittu á dögunum Ömmu náttúru og smökkuðu á gómsætri uppskerunni.

 

Hvaða plöntur eru þetta?

Í fræsafni NordGen eru varðveittar 33 000 tegundir sem eru á einhvern hátt mikilvægar fyrir landbúnað á Norðurlöndunum. Við höfum því bara pláss fyrir brotabrot þeirra í kringum Norræna húsið. Við höfum fengið nokkrar hefðbundnar íslenskar tegundir og svo aðrar frá hinum Norðurlöndunum sem við höldum að geti þrifist hér.

Meðal tegundanna eru:

KARTÖFLUR (Solanum tuberosum)
Kartöflur eru grunnfæða á Norðurlöndum og undirstöðuhráefni í stórum hlutum heims. Það er hnýði plöntunnar sem er ætt en þeir hlutar plöntunnar sem eru ofanjarðar eru eitraðir. Kartöflur náðu miklum vinsældum í byrjun 19. aldar þegar í ljós kom að nota mætti þær til brennivínsgerðar. Kartöflumygla kom upp í kartöflurækt og olli hungursneyð í Norður-Evrópu í lok sjöunda áratugar 19. aldar.

NÆPA (Brassica rapa)
Næpan er gömul norræn nytjaplanta en er ekki mikið ræktuð núorðið. En um er að ræða gott rótargrænmeti sem er auðvelt að rækta og vex hratt í alls konar jarðvegi alla leið til Norður-Svíþjóðar. Hægt er að borða blöðin og rótarávöxtinn. Hægt er að borða hana hráa en einnig súrsaða eða steikta. Eins er hún góð í pottrétti, ofnrétti og súpur.

GULRÓFA (Brassica napus)
Gulrófan er að öllum líkindum kynblendingur hvítkáls og næpu sem vaxið hafa í návist hvors annars.  Hún er rótargrænmeti og mun bragðsterkari en næpa. Gulrófan hefur verið ræktuð á Norðurlöndum sem dýrafóður en einnig í matjurtagörðum frá 16. öld og var einn helsti C-vítamíngjafinn á veturna. Í Svíþjóð er Gulrófuakademían nefnd í höfuðið á henni en hún vinnur að því að enduruppgötva gamlar norrænar ræktaðar plöntur og nýta þær í auknum mæli í nútíma matargerð.

GULRÓT (Daucus carota)
Rætur gulrótarinnar geta verið fjólubláar, hvítar, gular og rauðar en appelsínugulur er líklega sá litur sem fyrst kemur upp í huga nútímamannsins. Appelsínugula gulrótin mun hafa orðið til við stökkbreytingu á gulum ræktuðum gulrótum. Appelsínuguli liturinn er stöðugur og náði fljótt vinsældum en það voru aðallega Hollendingar sem ræktuðu gulrótina og stóðu að útbreiðslu hennar á 17. öld. Gulrótin er algengt grænmeti alls staðar á Norðurlöndum. Hún er ýmist borðuð soðin eða hrá, rifin, skorin í sneiðar, bökuð eða pressuð í safa.

BAUN (Phaseolus vulgaris)
Baunir eru góðar og gagnlegar plöntutegundir sem auðvelt er að rækta. Afbrigði þeirra eru til dæmis matbaunir og belgbaunir. Matbaunir eru látnar þroskast og harðna, síðar eru þær lagðar í bleyti áður en þær eru soðnar og snæddar.  Belgbaunir eru notaðar áður en þær ná fullum þroska. Allar baunir ber að sjóða áður en þær eru borðaðar. Baunir komu upprunalega frá Ameríku en hafa verið ræktaðar á Norðurlöndum allt frá 17. öld.  Baunategundir eru ýmist lágvaxnar eða hávaxnar.

SELJURÓT (Petroselinum crispum)
Seljurótin minnir á nípu að útlitinu til en bragðast greinilega af steinselju. Bæði rótina og blöðin má nota til matargerðar og er hún afar steinefnarík og nærandi. Þá þolir hún kulda vel og er hentug til ræktunar á Norðurlöndum.

GRÁERTA (Pisum sativum)
Gráertur hafa verið borðaðar á Norðurlöndum allt frá steinöld og eru algeng nytjaplanta í dag. Gráertan er prótínrík og hefur marga eiginlega til að geta komið í staðinn fyrir kjöt og innfluttar sojaafurðir. Gráertur geta orðið 0,5-1,5 metra háar og þurfa oft stuðning til að klifra á. Til eru margar tegundir af ertum og eru þær notaðar á ýmsan hátt. Sumir borða þær í belgjunum, aðrir þurrka erturnar og sjóða eða leggja þær hráar sér til munns.

DILL (Anethum graveolens)
Dill er algengt krydd í norrænni matargerð og notkun þess er hægt að rekja allavega til miðalda. Það hefur verið notað sem bragðbætir en einnig til lækninga. Sagt er það sé gott við gyllinæð og örvi brjóstagjöf hjá konum. Dill skiptist venjulega í dillblóm og dillblöð. Við ræktum það hjá okkur með fjallakornblómi.

KERFILL (Anthriscus cerefolium)
Kerfill er mild kryddjurt sem hefur verið notuð lengi á Norðurlöndum. Bragðið er sætkennt og minnir á anís. Hann getur orðið um 35-50 cm hár og þarf helst að skera hann áður en hann fær hvít blóm. Kerfil er hægt að nota á sama hátt og dill og steinselju og mjög gjarnan í kartöflurétti. Kerfill er bragðlítill og því borgar sig að sjóða hann ekki með réttinum heldur bæta honum út í að lokum eða strá honum yfir matinn.

KÚMEN (Carum carvi)
Kúmen á sér langa sögu sem kryddjurt og vex villt á öllum Norðurlöndum. Plantan getur orðið 25-60 cm að hæð og þurrkaðir ávextirnir eru notaðar sem bragðbætir í brauð, brennivín, pylsur, osta og súpur svo eitthvað sé nefnt. Kúmen er einnig notað víðar um heim, einnig sem lækningajurt við kvefi og magakveisu.

MEIRAN (Origanum majorana)
Meiran er náskyld kjarrmintu (óreganó). Meiran barst til Norðurlanda á 18. öld og allar götur síðan hefur það verið notað í matargerð og til lækninga. Stönglar jurtarinnar eru þunnir og mjúkir og hægt er að nota alla plöntuna í matargerð. Hún er sérstaklega góð í grænmetisrétti þar sem henni er bætt út í að lokum. Meiran er sterkgræn og með lítil hjartaformuð blöð.

GRASLAUKUR (Allium schoenoprasum)
Graslaukur er fjölær planta sem blómstrar með fjólubláum blómum. Hann vex villtur á Öland og Gotlandi í Svíþjóð og getur einnig borið hvít blóm. Blöðin eru hol og notuð sem bragðbætir í salöt, súpur, fisk, pottrétti og fleira. Hvort tveggja blöðin og blómin eru æt. Graslaukur barst líklegast til Norðurlanda sem ræktuð planta á 12. öld og hefur síðan þá verið vinsæll í matjurtagörðum.

STEINSELJA (Petroselinum crispum)
Steinselja barst til Norðurlanda á miðöldum og eru afbrigði hennar tvö: slétt blöð og hrokkin blöð. Steinseljan er afar vinsæl matjurt og hún er aðallega notuð hrá til skreytingar á mat en stönglana má einnig nota sem bragðbæti. Sagt er að steinselja slái á hvítlauksþef og hressi fólk við eftir víndrykkju. Steinselja er rík af A- og C-vítamíni, járni og kalki. Plantan er hægvaxta og verður um 40 cm há.

TÓMATUR (Solanum lycopersicum)
Tómatar bárust til Norðurlanda á 17. öld en náðu ekki útbreiðslu fyrr en á 18. öld. Tómatplantan er í raun af kartöflukyni og ber æta ávexti. Tómatar hafa löngum verið skilgreindir ýmist sem eitur eða ástarlyf en á okkar tímum er hann algengt grænmeti sem er borðaður hrár eða settur í fjölda rétta.

AGÚRKA (Cucumis sativus)
Agúrkan er einær klifurjurt og aldin hennar eru mjög mismunandi. Á Indlandi hafa agúrkur verið ræktaðar í þúsundir ára en bárust ekki til Norðurlanda fyrr en á 17. öld. Í byrjun voru aðallega litlar agúrkur, svonefndar smágúrkur, ræktaðar á ökrum og í vermireitum. Nú eru sívalar klifurjurtir ræktaðar í gróðurhúsum. Allar agúrkur eru hitakærar. Á Norðurlöndum eru bestu vaxtarskilyrðin í gróðurhúsum eða vermireitum.

MELÓNA (Cucumis melo)
Melónan er einær klifurplanta sem telst til gúrkutegundar. Melónur hafa verið ræktaðar á Norðurlöndum frá því á 17. öld. Þær eru hitakærar og eru því aðallega ræktaðar í vermireitum eða gróðurhúsum á okkar slóðum. Melónan er kringlótt og börkurinn er fölgrænn með netmynstri. Bragðið er sætt og milt.

GARÐASÓL (Papaver croceum)
Bæði afbrigðin af garðasól í fræsafninu fundust á ólíkum stöðum á Íslandi. Þau heita Hafnarfjörður Langeyrarvegur og Hafnarfjörður. Garðasólin er fallegt blóm sem vex í þúfum og blómin eru mismunandi á lit. Blómin eru um 5 cm í þvermál og eru ræktuð til skrauts.

FJALLAKORNBLÓM (Centaurea montana)
Fjallakornblómið ræktum við með dilli í garðinum okkar. Tegundin sem við ræktum heitir Reykjavík Hljómskálagarður og var tínd á Íslandi. Fjallakornblómið ber falleg blá blóm en sést einnig sem illgresi. Þurrkuð blómin er hægt að nota í te og tóbak en fjallakornblóm eru aðallega til skrauts.

ILMEXIR (Agastache foeniculum)
Ilmexir er lágvaxin kryddjurt með grænum blöðum og bláum blómum sem laða að fiðrildi og aðra frjóbera. Blöðin ilma af anís og mintu og þau er hægt að nota sem bragðbæti. Ilmexirinn er harðger fjölær planta sem blómstrar lengi.

 

 

NordGen

NordGen er norræn stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Markmið NordGen er að standa vörð um og stuðla að sjálfbærri nýtingu á erfðaauðlindum sem eru mikilvægar í landbúnaði og skógrækt á Norðurlöndum. NordGen er genabanki sem ber ábyrgð á norrænu fræsafni sem geymir fræ 33.000 plantna. Í NordGen er fræsafnið prófað, endurræktað og gömlum fræjum skipt út fyrir ný til að varðveita lífbreytileika í ræktun. Í samstarfi við vísindamenn, plönturæktendur, heimili, söfn utandyra og fleiri eru um fjögur þúsund fræprufur sendar árlega til að skapa samvinnu um sjálfbært samfélag.

Hefur þú líka áhuga á að rækta norrænar matjurtir?
Á þann hátt átt þú þátt í að vernda líffræðilega fjölbreytni og norræna menningararfleifð. Vertu velkomin/n í gjafavöruverslun NordGen til að kaupa fræpakka. Á hverju vori er NordGen með fjölda norrænna fræja til sölu í vefverslun sinni á vefslóðinni shop.nordgen.org

Meira um NordGen hér.

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að plöntutegund deyi út er að rækta hana og deila fræjum hennar með öðrum.