Bókmenntaverðlaun

Norræna húsið er skrifstofa fyrir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Skrifstofan annast alla daglega vinnu við verðlaunin. Vinnan fer fram í samráði við formann dómnefndar verðlaunanna og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Skrifstofa verðlaunanna sendir frá sér fréttabréf fjórum sinnum á ári á skandinavísku. Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu með því að senda beiðni um það til skrifstofustjóra verðlaunanna.

Sofie Hermansen Eriksdatter
Skrifstofustjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

+354 5517036
sofie(at)nordichouse.is

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal þekktustu og virtustu bókmenntaverðlauna í Evrópu.
Verðlaunin eru elstu verðlaun Norðurlandaráðs og hafa verið veitt frá árinu 1962 og eru í dag 350.000 danskar krónur.
Verðlaunin hlýtur verk úr hópi fagurbókmennta sem skrifað er á einu af norðurlandamálunum. Um getur verið að ræða, skáldsögu, leikrit, ljóðasafn, smásagnasafn, ritgerðasafn eða önnur bókmenntaverk sem sem uppfylla kröfur dómnefndar hvað varðar bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli grannþjóðanna og á sameiginlegri arfleifð norðurlandanna.

Dómnefndina skipa sérfræðingar frá öllum norðurlöndunum og eru þeir tilnefndir af menningarmálaráðherra hvers lands fyrir sig. Nefndin tilnefnir 12-14 bókmenntaverk sem tilkynnt eru að vori og vinningshafinn er svo tilkynntur á árlegri verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs að hausti.

Margir þekktir rithöfundar hafa hlotið verðlaunin og má þar helst nefna Tomas Tranströmer, SOfi Oksanen, Jon Fosse, Sjón, Sara Stridsberg, Veijo Meri, Einar Már Guðmundsson, Herbjørg Wassmo, Pet Petterson, Naja Maria Aidt, Gunnar Ekelöf, Sara Lidman, William Heinesen og Terjei Vesaas.

Skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs er í Norræna húsinu í Reykjavík. Frekari upplýsingar eru á norden.org

Monika Fagerholm hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Finnski rithöfundurinn Monika Fagerholm hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir skáldsöguna „Vem dödade bambi?“.

Monika Fagerholm hlaut verðlaunin fyrir verk sem ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap.

Bókmenntaverðlaunin voru afhent af rithöfundinum og listakonunni Zinat Pirzadeh á stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. COVID-19 kom í veg fyrir afhendingu verðlaunanna á Íslandi og þess í stað voru handhafar verðlaunanna fimm kynntir á öðruvísi verðlaunahátíð á netinu.

Rökstuðningur dómnefndar

Skáldsagan Vem dödade bambi? („Hver drap Bamba?“) eftir Moniku Fagerholm ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap. Hópnauðgun er framin af unglingum úr efri stétt hins vel stæða Villastaden í útjaðri Helsingfors. Fagerholm beinir sjónum ekki að þolanda nauðgunarinnar heldur að gerendunum og atburðarásinni fyrir og eftir nauðgunina. Einkum verða tilraunir fullorðna fólksins til að breiða yfir orðinn hlut að framúrskarandi beittri samfélagsádeilu í meðförum höfundar. Tungumálið veltur fram, fullt af krafti og átakanlegum töfrum. Í hinum þétta vef samtala, stefja og vísana í dægurmenningu býr vægðarlaus sannleikur sem persónurnar fá ekki varist. Gusten Grippe, sá eini af gerendunum sem gengst við sekt sinni, myndar mótvægi við hinn myrka sogkraft herbergisins þar sem árásin átti sér stað. Löngun eftir hinu ósnerta er stillt upp gegn yfirborðsmennskunni og metorðaþorstanum sem einkennir samtíma okkar – lífsnauðsynlegri löngun sem er miðlað í formi svipmynda af ást og vináttu, stunda sem má snúa aftur til og sækja styrk í.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt árlega frá árinu 2013. Verðlaunin eru veitt norrænu bókmenntaverki, skrifuðu og eða myndskreyttu fyrir börn og unglinga. Verðlaunin eru ein fimm verðlauna sem Norðurlandaráð veitir ár hvert. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur. Verðlaunin hlýtur nýtt verk ætlað börnum og unglingum sem þykir skara framúr hvað varðar efnistök, innihald og myndskreytingar.

Dómnefnd skipuð fulltrúum frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum og samíska tungumálasvæðinu, tilnefna 12-14 verk á vordögum og vinningshafinn er svo kynntur að hausti á árlegri verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs.

Frekari upplýsingar um verðlaunin má finna á norden.org

Jens Mattsson og Jenny Lucander hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Myndabókin „Vi är lajon!“ eftir sænska rithöfundinn Jens Mattsson og finnska myndskreytinn Jenny Lucander hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020. Jens Mattsson og Jenny Lucander hlutu verðlaunin fyrir verk sem stendur staðfastlega með barninu og þar sem sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum.

Verðlaunin voru afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. COVID-19 kom í veg fyrir afhendingu verðlaunanna á Íslandi og þess í stað voru handhafar verðlaunanna fimm kynntir á öðruvísi verðlaunahátíð á netinu.

Rökstuðningur dómnefndar

Verðlaunabókin í ár stendur staðfastlega með barninu og sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum. Leikurinn hefur heilunarmátt þegar hið þungbærasta af öllu dynur á: lítið barn veikist af banvænum sjúkdómi. Þykjustu-hitabeltisgresja með líflegri, rauðgulri litadýrð hefur innreið sína í dauflegan heim sjúkrahússins. Fjörlegur leikurinn rúmar alla þá depurð og áhyggjur sem sjúkdómurinn hefur leyst úr læðingi. Skrautleg smáatriði og litagleði í myndskreytingum bókarinnar eiga í kotrosknu samtali við þá norrænu myndabókahefð sem við þekkjum úr verkum Ingrid Vang Nyman og Tove Jansson, en tjáningarmátinn er þó einstakur og þrunginn frumleika í sjónarhorni, aðferð, litavali og persónulýsingum. Textinn styður við myndirnar með stílhreinum hætti og áleitin frásögnin í fyrstu persónu dregur dám af ýkjukenndum leiknum. Lýsingarnar á umhyggju foreldranna og örvæntingu geyma hina sáru og kyrrlátu þætti verksins. Með bræðraástinni og hugrekkinu sem einkennir sögulokin er ýjað að því að nýtt Nangijala fyrirfinnist. Vi är lajon! („Við erum læón!“) er heillandi verk fyrir lesendur á öllum aldri sem ber vitni um norrænt samstarf af bestu gerð.

Norrænar barna- og unglingabókmenntir

Á Norðurlöndunum njóta börn og ungmenni virðingar sem virkir borgarar í lýðræðislegu samfélagi. Norræn ungmenni eru hvött til sjálfstæðrar hugsunar, sköpunargleði og þess að standa vörð um réttindi sín. Þetta endurspeglast í vönduðum barna- og unglingabókmenntum þar sem borin er virðing fyrir lesandanum og heimsmynd hans hverju sinni, hvort sem er með jarðbundnum lýsingum hversdagsins, tilvistarerfiðleikum eða villtum ævintýrum í ókunnum víddum.

https://www.norden.org/is/news/loftslagsvain-vekur-ahuga-ungra-lesenda-nordurlondum