Sjónarhorn listarinnar

Texti þýddur úr sænsku

Frá stofnun sinni árið 1968 hefur Norræna húsið verið mikilvægur vettvangur lista, menningar, tungumála og samfélagsumræðna á Íslandi. Við vinnum samkvæmt sýn norrænu forsætisráðherranna um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Á nýliðnum árum höfum við tekið skref til þess að þróa dagskrá okkar efnislega og skerpa hlutverk listarinnar í vinnu okkar með sýn norrænu ráðherranna að leiðarljósi. Hin ólíku sjónarhorn sem list getur miðlað eru ómetanleg á tímum sem þar sem við stöndum frammi fyrir bæði umhverfislegum og samfélagslegum áskorunum.

Í sýningunni „Í síkvikri mótun: Vitund og náttúra“ er hið sérstaka samband manns og náttúru á Vestur-Norðurlöndunum skoðað. Á þessum norðlægu slóðum hefur náttúran verið sjálfsagður og alltumlykjandi þáttur í lífinu sem mótað hefur fólkið og sjálfsmynd þess. Ekkert er eilíft en þær umbreytingar sem eiga sér stað í heiminum þessa stundina eru hraðari en áður hefur þekkst. Hvað gerist þegar skilyrði breytast, þegar fólk fetar nýjar slóðir, þegar vitund þjóðar og sjálfs tekur stakkaskiptum, þegar einhver kemur inn að utan?

Sýningin er fjölbreytt og lagskipt. Í verkunum er kafað djúpt í einstök málefni en einnig eiga verkin laumulegt samtal sín á milli. Eitt verk tekur yfir þar sem annað nemur staðar og frásögn tekur að myndast sem lítur til fortíðar og setur hana í samhengi við samtíð og framtíð. Fíngerðir þræðir binda einnig saman hina ólíku hluta Vestur-Norðurlanda, lönd sem eru nálægt og fjarri hvert öðru í senn.

Góðir samstarfsaðilar eru mikilvægir fyrir Norræna húsið, sérstaklega á tímum sem þessum þegar fjárframlög til menningar eru skorin niður og heimsfaraldur setur hömlur á ferðalög og hreyfanleika fólks. Ég er þakklát fyrir gott samstarf við Listháskóla Íslands og sendi þakkir til sýningarstjóra og listamanna sýningarinnar. Mig langar einnig að nýta tækifærið og þakka starfsfólki Norræna hússins sem hefur enn einu sinni sýnt að það er best í heimi.

Sabina Westerholm,
Forstjóri Norræna hússins í Reykjavík

Ljósmynd: Innsetningarsjónarhorn af verkinu „Old Films of the New Tale“ (2021) eftir Inuuteq Storch.