Fyrsta ár stefnumótandi fræðsludagskrár fyrir börn og ungmenni

Er ég hóf störf sem forstjóri Norræna hússins var það eitt minna meginmarkmiða að þróað yrði framsýnt fræðslustarf fyrir börn og ungmenni tengt starfi hússins. Ég hafði sjálf öðlast reynslu af því að leggja grunninn að fræðslustarfi við listastofnun og var meðvituð um hið aukna gildi sem það færir hverri starfsemi. Eitt af hlutverkum Norræna hússins er að vinna að aðgengilegu og opnu listalífi með sérstakri áherslu á börn og þeirra frumkvæði. Til þess að slík vinna sé möguleg er nauðsynlegt að viðeigandi innviðir séu til staðar.

Í janúar 2021 var ráðinn til starfa fræðslufulltrúi í Norræna húsið sem fékk það verkefni að skipuleggja dagskrá útfrá markmiðum Norræna hússins og listrænni dagskrá þess með námskrá skólanna í landinu til hliðsjónar. Markmiðið um aðgengileika var haft að leiðarljósi og stofnað var til samstarfs við ákveðna markhópa. Snemma í ferlinu stofnuðum við til vinaskólasambands við grunnskólann Hólabrekkuskóla en það samstarf er hugsað fyrir dýpri langtímaverkefni. Þá höfum við starfað náið saman með einstaklingum og hópum með bakgrunn í Eystrasaltslöndunum en það samstarf hefur leitt hefur af sér barnamenningarverkefni með baltneskum formerkjum.

Fræðslufulltrúinn skipulagði einnig umfangsmikla dagskrá fyrir markhópa í leikskólum og grunnskólum. Innan ramma þessa dagskrár heimsóttu alls 3716 börn og 509 kennarar eða leiðbeinendur Norræna húsið. Við stóðum fyrir 28 viðburðum, 18 smiðjum og 180 leiðsögnum en auk skóladagskrárinnar buðum við upp á dagskrá og smiðjur fyrir barnafjölskyldur. Meðal málefna sem tekin hafa verið fyrir eru umhverfi, sjálfbærni, jafnrétti, fjölbreytileiki og sjálfsmynd. Allt í gegnum list og bókmenntir. Alls komu 38 listamenn/listkennarar utan hússins að starfinu og fengu þeir þóknun fyrir vinnu sína.

Við hýstum líka verkefnið Krakkaveldi, samtök barna sem vilja breyta heiminum til hins betra. Undir stjórn listakonunnar Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur hefur hópurinn hisst í viku hverri  í Norræna húsinu og skipulagt hvers kyns uppákomur sem ganga út á það að börnin taki sér hlutverk sem fullorðnir leika öllu jöfnu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að hafa búið við samkomutakmarkanir í einhverju formi allt árið hefur okkur sem sagt tekist með sannfærandi hætti að koma á fót lista- og menningarstarfsemi fyrir börn og ungmenni og yfir því er ég óheyrilega stolt. Starfið nær til breiðs hóps barna og ungmenna en í starfinu felast einnig möguleikar á að fara á dýptina, að hafa djúpstæð áhrif og að skapa varanleg tengsl. Það er sjálfgefið að þessi starfsemi eigi að vera í forgangi og við hlökkum til að þróa hana áfram í venjulegra árferði.