Skiptir listin máli í Norræna húsinu?

Textinn er þýddur úr sænsku

Þegar Norræna húsið var vígt árið 1968 var þar ekkert sýningarrými. Ivar Eskeland, fyrsti forstjóri hússins, gerði sér fljótlega grein fyrir því að eitthvað vantaði. Hann beitti sér ötullega fyrir því að opnaður yrði sýningarsalur. Honum tókst að fá aukafjárveitingar frá ríkisstjórnum allra Norðurlandanna og ekki liðu nema þrjú ár þar til hægt var að halda fyrstu sýninguna í lausu rými í kjallara hússins. Óhætt er að segja að þar hafi hann lyft grettistaki.

Eftir að sýningarsalurinn var gerður upp í fyrra og til stóð að opna hann að nýju langaði okkur að gefa honum nafn. Í teikningum Alvars Aalto kallar hann rýmið „gallerí“. Orðið gallerí hefur fengið nýja merkingu og því vildum við frekar finna nafn sem var upprunnið í arkitektúr og passaði við önnur salarkynni hússins.

Ég ráðfærði mig við vin minn sem er arkitekt, lýsti fyrir honum rýminu og húsinu og sýndi honum teikningarnar. Hann stakk upp á orðinu „hvelfing“. „Hvelfing er oft undirstaðan og leiðir hugann að einhverju öruggu og notalegu undir salnum,“ skrifaði hann.

Í kjallara Norræna hússins er lágt til lofts og margar súlur sem minna á hvelfingu þrátt fyrir að loftið sé ekki bogamyndað. Táknræn merking nafnsins gæti ekki verið betri – hvelfingin er undirstaða hússins þar sem verðmætustu gripirnir eru varðveittir. Okkur leist vel á þessa hugmynd, takk Dan!

Við ákváðum að nota aðeins íslenska orðið fyrir hvelfingu. Við gerum okkur grein fyrir því að nafnið getur þvælst fyrir erlendum gestum hússins en vonum samt að það veki umræðu sem beinir athyglinni að listinni og mikilvægi hennar.

Í maí ætlum við að opna Norræna húsið aftur hægt og varlega og það skiptir mig miklu máli að Hvelfingin fái að opna á ný. Við erum ánægð með að geta haldið þar sýningu í sumar í tilefni 50 ára afmælis Íslenskrar grafíkur. Félagið hefur lifað og þróast samhliða Norræna húsinu og allar afmælissýningar félagsins hafa verið haldnar í sýningarsal hússins. Sýningarstjóri er hin frábæra Birta Guðjónsdóttir.

Frá upphafi hefur sýningarsalur Norræna hússins skipað stóran sess í myndlistarlífinu á Íslandi. Með sýningum á norrænni, íslenskri og alþjóðlegri myndlist vonumst við til að Hvelfingin geri það áfram. Listin er undirstaða Norræna hússins og hún er það sem heldur húsinu gangandi. Svarið við spurningunni er já.

Lesa fleiri blogg
Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð
 Listin í netheimum