Þarf alltaf að byggja nýtt?

Í fyrsta skipti frá upphafi Norræna hússins er bókasafnið okkar jafn tómt og á myndinni frá því áður en starfsemi hófst í byggingunni. Nú er búið að loka, tímabundið, þessu merka herbergi hússins sem er svo þýðingarmikið fyrir margar kynslóðir norrænna bókaunnenda í Reykjavík og okkur öll sem höfum á einhverjum tímapunkti starfað í húsinu.

Vissulega er róttækt að loka þessu hjarta hússins í marga mánuði, en staðreyndin er sú að það er nauðsynlegt og loksins sjáum við ljósið í göngunum varðandi þá umfangsmiklu endurbætur sem við stöndum í. Það er bara spurning um að komast í gegnum þessa síðustu og stærstu framkvæmd.

Sjálfbærni og vistvæn hugsun hefur verið leiðarstef í vinnu okkar við endurbæturnar og við endurspeglum þá hugsun í dagskrá okkar nú í vor. Með hinni myndrænu og áþreifanlegu sýningu Wasteland viljum við, í samstarfi við arkitekta- og nýsköpunarstofuna Lendager, vekja til umhugsunar um nýstárlegar leiðir til að endurnýta og samþætta þau efni sem nú þegar eru til í byggingarframkvæmdum framtíðarinnar.

Sýningin fjallar um þá vinnu sem nú á sér stað um nýja löggjöf fyrir byggingariðnaðinn að frumkvæði Húsnæðis og Mannvirkjastofnunar (HMS). Á sýningunni geta gestir komið með hugleiðingar um hvað löggjöfin ætti að ná yfir og í tengslum við þessa vinnu verður boðið verður uppá vinnustofur í sýningunni.

Í dagskrá okkar fyrir skóla og fjölskyldur munum við ræða málefni sem snúa að sjálfbærni og arkitektúr. Sú vinna mun ná hámarki á Hönnunarmars sem fer fram í lok apríl. Þá munum við bjóða uppá námskeiða,vinnustofur og barnasýningar um arkitektúr og borgarskipulag í samstarfi við samstarfsskólann okkar Hólabrekkuskóla.

Jafnvel þótt við elskum arkitektúr, eða kannski bara einmitt vegna þess, þá er mikilvægt að spyrja sjálf okkur hvort við þurfum virkilega alltaf að byggja nýtt. Að endurbæta og endurnýta verður alltaf betri kostur.