Underneath

UNDERNEATH verður aðalsýning Norræna hússins í Reykjavík á árinu 2020. Á sýningunni verður fjallað um jafnrétti, ástríður og sjálfsvitund og efnt til viðburða þar sem listafólki og álitsgjöfum býðst að ögra ríkjandi gildismati og hugmyndum í opinberri orðræðu á Norðurlöndum.

Rauður þráður í viðfangsefnum listafólksins og verkum þeirra er gáskafull viðleitni til að kollvarpa hefðbundnum birtingarmyndum um kyn og kynhneigð og setja fram nýjar í ýmsum myndum. Á sýningunni UNDERNEATH er áhorfendum boðið að kanna veikleika norrænna staðalmynda og allt sem leynist undir yfirborði norrænnar samfélagsútópíu – séð með augum og skapandi huga norræns listafólks.

Enda þótt norrænum velferðarríkjunum sé stundum lýst sem „þeim bestu allra hugsanlegra heima“ – eins konar ímynd útópíunnar sem ríkisvald og fjölmiðlar halda fram þá eru þau líka samfélög útilokunar, harðræðis og ósveigjanleika. Til að kanna frekar þessar andstæður sem löndin eiga sameiginlegar verður efnt til viðburða, umræðna og vinnusmiðja í tengslum við sýninguna á því hálfa ári sem hún stendur yfir og leitast við að greina myndræna tjáningu hinnar norrænu samfélagsútópíu. Dagskrá verður í Norræna húsinu yfir þrjár helgar þar sem húsið sjálft sem stofnun verður til umfjöllunar og rætt hvernig henni tekst að vera gagnrýnin á þann boðskap sem henni er falið að koma á framfæri. Umræður munu snúast um gagnrýni og endurmat og hvernig setja má starfsemi hússins í nýtt samhengi.

UNDERNEATH er þannig sjálfskönnunarleiðangur þar sem sannleikans er leitað, hugsjónir endurskoðaðar, undirstraumar kannaðir og farið yfir mörk þess viðtekna. En umfram allt er sýningin óður til alls þess sem er annað og öðruvísi, rými til að ögra hinu heterótópíska, og þar sem nýr sannleikur og raunveruleiki er kynntur til sögunnar.