MÖGULEG ÆXLUN: Sýning Brákar Jónsdóttur


10:00 - 17:00
Gróðurhús
Aðgangur ókeypis

Gróðurhúsinu í Vatnsmýrinni hefur verið breytt í tilraunastofu þar sem kynlegir hlutir hafa átt sér stað.

Þegar stígið er inn fyrir dyrnar verður man hugsað til lífsins sem er í þann mund að kvikna í mýrinni allt um kring. Þarna kúra verur sem virðast einmitt á mörkum þess að verða og vera til. Þær eru í senn kunnuglegar og framandi og vekja því með man undarlega tilfinningu. Ef til vill rámar líkamann í þessa tilfinningu frá því hann var sjálfur á þessum undarlegu mörkum tilverunnar.

Á sýningunni Tilraun til samlífs / Possible Oddkin kannar Brák Jónsdóttir mörkin á milli huga, líkama og umhverfis. Hún veltir fyrir sér sameiginlegum eiginleikum fugla friðlandsins og gróðurhússins sem bæði eru rými sem mannveran hefur skapað til að kanna og skilyrða lífið. Rými sem eru sérstaklega ætluð æxlun af einhverju tagi.

Brák veitir þessum vangaveltum byr undir vængi með því að plokka úr þeim þræði, rekja þá og flétta saman í glerhreiður, í sögu þar sem mögulegir heimar og framtíðir mætast. Í þeirri heimsmynd sem Brák setur fram er hefðbundnum hugmyndum um tengsl, mökun og skyldleika ögrað. Í tilraun til að fá áhorfendur til að móta ný tengsl við umhverfi sitt og þær lífverur sem það byggja.

Sýningin opnar Laugardaginn 22. Apríl og stendur út Laugardaginn 29. Apríl. 
Fimmtudaginn 27. Apríl verður opið til klukka 21:00 og verður leiðsögn með listamanni og sýningarstjóra klukkan 19:00. 

Sýningarstjóri er Odda Júlía Snorradóttir, meistaranemi í sýningarstjórnun. Hún útskrifaðist með BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2021. Í ferlinu leggur Odda áherslu á erótík og líkamlega hugsun sem listræna möguleika til að endurnýja tengsl mannsins við umhverfi sitt. Hún hefur sérstakan áhuga á umhyggju hlutverki sýningarstjórans og nánu samstarfi við listamenn.

Brák Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Verk hennar taka helst á sig form vídjóverka, innsetninga og skúlptúra, en nýverið hafa viðfangsefni hennar snúið að sambandi manneskju við náttúru. Brák vinnur gjarnan með stað þar sem menning og náttúra mætast og valdaskiptinguna sem þar birtist. Þar kemur hún oft inn á kink og blæti og skoðar samband mannslíkama og annarra náttúrulegra kerfa á grundvelli yfirráða og undirgefni, fantasíu og femínisma.

Sýningin er hluti af meistaraverkefninu Oddu Júlíu í Sýningargerð og Sýningarstjórnun við Háskóla Íslands.