Líf í geimnum


Barnabókasafn
Aðgangur ókeypis

Geimurinn er eins og blaðra sem stöðugt er verið að blása upp. Eða það segir pabbi hennar Líf að minnsta kosti. Líf er stelpa sem býr á efstu hæð í háhýsi í borginni. Líf horfir út í geim úr stjörnusjónaukanum sínum og slæst í för með stelpu um borð í geimskip frá tímum geimkapphlaupsins mikla. Geimstelpan bjó eitt sinn á jörðinni en býr nú ásamt svörtum hundi á reikistjörnu sem er ljósár í burtu. Hvernig ætli sé að búa úti í geimi fjarri mömmu og pabba og ljósum borgarinnar? Hvernig ætli alheimurinn líti út séður úr geimskipi?

Komdu með í geimferðalag á barnabókasafni Norræna hússins! Sýningin Líf í geimnum er innblásin af samnefndri sögu eftir Zakiya Ajmi (f. 1992) og Sara Lundberg (f. 1971). Sagan Líf í geimnum birtist i safnritinu Þvert á Norðurlönd fyrr á árinu (2022). Safnritið var framleitt af Norræna húsinu í Reykjavík og er hluti af þriggja ára verkefninu LØFTET sem er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni. Þetta tiltekna safnrit er hið síðasta í röð þriggja rita um norrænar barnabækur en þema þess er samfélagsleg sjálfbærni. Ritin þrjú eru afrakstur norræns samstarfs hóps fræðimanna, útgefenda, höfunda og myndskreyta sem hist hafa á sumarþingum LØFTET síðastliðin þrjú ár.

Í tengslum við sýninguna Líf í geimnum verða haldnar smiðjur og viðburðir og ætla má að sköpunarverk barna muni setja sitt mark á sýninguna eftir því sem líður á hana. Seglaveggurinn sívinsæli er einnig á sínum stað með nýju geimútliti.

Við bjóðum ykkur velkomin í „geimsókn“!

Nýr leikur á barnabókasafni:
Finndu geimhundana!  Skemmtilegur fjölskylduratleikur!

Í sögunni Líf í geimnum sem núverandi sýning á barnabókasafni Norræna hússins er byggð á, er eini vinur geimstelpunnar lítill geimhundur. Hann er ekki með nafn í sögunni en er líklegast innblásinn af hundinum Laiku, sem var fyrsta lifandi veran sem var send út í geim. Tíu geimhundar í mismunandi stærðum leynast á veggjum barnabókasafnsins inni á sýningunni. Þeir sem geta fundið alla tíu hundanna, hafa tækifæri á að skrifa niður svörin, setja í póstkassa eða í afgreiðslu barnabókasafnsins og taka þátt í vinningsleik. Í lok ágúst verður vinningshafinn dreginn út og hlýtur geimverðlaun!