Klassík í Vatnsmýrinni – Tríó Sírajón


20:00

Tríó Sírajón leikur á tónleikum í tónleikaröðinn Klassík í Vatnsmýrinni í Norræna Húsinu þann 21. febrúar kl. 20.00.

Flutt verður fjölbreytt og litrík tónverk frá tuttugustu öld: Largo eftir  Charles Ives, tríó eftir Gian Carlo Menotti, þrír dúettar eftir Dimitri Schostakovich, tríó eftir Aram Khatchaturian og La belle jardinière eftir Jónas Tómasson.

Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 2.500 en 1.500 fyrir eldri borgara og öryrkja. Ókeypis fyrir nemendur og alla 20 ára og yngri. Miðasala við innganginn.

Tríó Sírajón hefur starfað frá árinu 2010 og haldið fjölmarga tónleika hér heima og erlendis. Tríóið hefur gjarnan leitað samstarfs við aðra listamenn og pantað verk frá íslenskum tónskáldum, meðal annars Þórði Magnússyni og Jónasi Tómassyni.

Rússland og Bandaríkin eru tónlistarlegir jöfrar sem mynda spennu á mörgum sviðum lífs okkar sitt hvoru megin við Atlantshafshrygginn, þar sem við sitjum á jarðflekamótum lengst í norðri og Jónas okkar Tómasson hvað nyrst. Þegar Jónas samdi verkið fyrir Tríó Sírajón var hann með mynd Paul Klee, La belle jardinière -garðyrkjukonan fagra – í huga, en einnig umhverfissinnann og skógræktarkonuna Vigdísi Finnbogadóttur, og er verkið tileinkað henni.

Shostakovich, sem er þekktastur fyrir sinfóníur sínar, sækir efni í ríkulegan brunn leikhús og kvikmyndatónlistar sinnar fyrir dúóin þrjú.

Í verki Menottis skín laglínugáfa hans sterkt í gegn, og þó það sé samið 1996 horfir hann hér frekar til fortíðar en samtíma síns.

Charles Ives lagði þátt úr fiðlusónötu frá námsárunum til grundvallar verkinu Largo, sem hann samdi árið 1902. Það þótti framúrstefnulegt og ber engan keim af þjóðlegum blæ sem einkenndi seinni verk hans.

Armeninn Aram Khatchaturian var gestur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á vormánuðum 1951 og var það hljómsveitinni mikil hvatning. Tónlist Khatchaturians er litrík og tilfinningaþrungin, laglínurnar glæsilegar með dálítið austrænum blæ.

Laufey Sigurðardóttir sem starfað hefur í Sinfóníuhljómsveit Íslands til fjölda ára, hefur jafnframt komið fram sem einleikari og verið ötul við flutning stofutónlistar á Íslandi og erlendis. Hún er listrænn stjórnandi hinna árlegu tónlistarhátíða „Músík í Mývatnssveit“ og „Afmælisdagur Mozarts“.

Einar Jóhannesson var leiðandi klarínettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um áratuga skeið. Hann hefur komið fram sem einleikari og meðleikari á fjölda tónleika innan lands sem utan, og var stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur. Einar er félagi í miðaldasönghópnum Voces Thules.

Anna Áslaug Ragnarsdóttir er úr hópi fjölda framúrskarandi tónlistarmanna sem hóf tónlistarnám sitt á Ísafirði.  Anna hefur starfað sem einleikari og meðleikari hér á landi og víða erlendis. Hún er búsett í München og Reykjavík.