Klassík í Vatnsmýrinni
Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið.
20:00
Klassík í Vatnsmýrinni 2015
í Norræna húsinu
10.júní 2015 kl. 20:00
MARKO OG MARTTI
Marko Ylönen, selló
Martti Rautio, píanó
Aðrir tónleikar í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni verða haldnir miðvikudaginn 10. júní klukkan 20:00. Við fáum til okkar góða gesti frá Finnlandi, þá Marko Ylönen, sellóleikara og Martti Rautio, píanóleikara. Þessir tveir eru í fremstu röð finnskra hljóðfæraleikara í dag.
Tónverkin sem þeir flytja eru samin rétt fyrir og um fyrri heimstyrjöld, eða frá árunum 1912-1915, og eru eftir tónskáldin Sibelius, Prokofief, Kodaly, Janacek, Webern og Debussy.
Marko Ylönen, sem starfar sem prófessor við Síbelíus Akademíuna, verður staddur hér á landi dagana 9.- 18. júní þar sem hann verður einn af aðalkennurum við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu og eru tónleikarnir haldnir í samstarfi við hana. Martti Rautio, sem starfar einnig við Síbelíusar Akademíuna sem fyrirlesari í kammertónlist, heldur yfir 50 tónleika á hverju ári um allan heim. Það er okkur mikill fengur að fá Marko og Martti til liðs við tónleikaröðina. Þeir hafa starfað mikið saman undanfarin ár og gefið út hljómdiska með fjölbreytri tónlist fyrir selló og píanó.
Aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr en 1000 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.
Um tónleikaröðina
Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Tónleikaröðin leggur áherslu á norrænt og alþjóðlegt samstarf. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á „einleikarann” annars vegar og „kammertónlist” hins vegar. Til ánægjuauka fjalla flytjendur um efnisskrána á tónleikunum.
Starfsárið 2015 verður að hluta til helgað söngkonum í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Jafnframt fáum við afar góða gesti og tónlistarmenn í fremstu röð frá Norðurlöndum. Í júní kemur finnska dúóið Marko Ylönen og Martti Rautio sem leika á selló og píanó, og í september sækja sænska sópransöngkonan Gitta-Maria Sjöberg og danski píanóleikarinn Irene Hasager okkur heim. Jón Sigurðsson leikur fyrir okkur heila dagskrá með verkum eftir hið merka píanótónskáld, Alexander Scriabin, en 100 ár eru liðin frá dauða hans. Starfsárinu lýkur með því að Auður Gunnarsdóttir sópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari flytja óperuna Mannsröddin eftir Francis Poulenc.
Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Kristín Mjöll Jakobsdóttir, Hlíf Bente Sigurjónsdóttir og Anna Jónsdóttir.
Aðrir tónleikar á starfsárinu 2015
16. september
Eyrarrósir
Gitta-María Sjöberg, sópran
Irene Hasager, píanó
14. október
Scriabin-Að loganum
Jón Sigurðsson, píanó
11. nóvember
Mannsröddin eftir Poulenc
Auður Gunnarsdóttir, sópran
Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó