Höfundakvöld – Athena Farrokhzad & Eiríkur Örn Norðdahl
19:30
Höfundakvöld – Athena Farrokhzad & Eiríkur Örn Norðdahl
Norræna húsið 4. október kl. 19:30. Ókeypis aðgangur.
Umræður fara fram á skandinavísku.
Streymi
ATHENA Farrokhzad (f. 1983) er ljóðskáld, bókmenntagagnrýnandi, þýðandi, leikskáld og kennari við höfundaskólann í Biskops-Arnö í Svíþjóð. Athena er fædd í Íran en alin upp í Svíþjóð. Árið 2013 kom ljóðabók hennar Vitsvit út sem síðar var þýdd á fleiri tungumál einnig sem von er á henni í íslenskri þýðingu Eiríks Arnar Norðdal. Leikgerð eftir ljóðabókinni hefur verið flutt í útvarpsleikhúsi sænska ríkisútvarpsins ásamt því sem verkið var sett upp í leikhúsinu Unga Klara. Í Vitsvit mynda raddir fjölskyldunnar kór þar sem hver rödd fær sitt rými og stríð eru til umfjöllunnar. Hvaða áhrif hafa stríð á manneskjuna og hvernig mótar manneskjan umfjöllun sína um stríð og styrjaldir? Vitsvit er einnig frásögn um fjölskyldutengsl, ofbeldi og völd. Bókin hlaut tilnefningu til Augustverðlaunanna, virtustu bókmenntaverðlauna Svíþjóðar árið 2013 og sama ár hlaut höfundurinn Karin Boyes- bókmenntaverðlaunin. Nýjasta verk Athenu er ljóðabókin Trado sem hún vann í samstarfi við rúmenska ljóðskáldið Svetlönu Cârstean.
EIRÍKUR ÖRN NORÐDAHL (f. 1978) er rithöfundur, skáld og þýðandi. Fyrsta ljóðabók hans Heilagt stríð: runnið undan rifjum drykkjumanna kom út árið 2001. Í kjölfarið hafa komið út fleiri ljóðabækur og skáldsögur, meðal annars Eitur fyrir byrjendur 2009 og Illska en fyrir hana hlaut höfundurinn Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2012 einnig sem bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins 2012. Sama ár var Eiríkur Örn einnig tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Illsku. Leikgerð var unnin upp úr bókinni og flutt af Óskabörnum ógæfunnar í Borgarleikhúsinu veturinn 2016 við góðan orðstýr. Í sögunni eru fléttaðir saman atburðir á Íslandi í samtímanum og Gyðingaofsóknir nasista í Litháen á stríðsárunum á frumlegan og áhrifamikinn hátt. Árið 2015 hlaut Eiríkur verðlaun Transfuge tímaritsins fyrir bestu skandinavísku skáldsöguna í franskri þýðingu (Illska) og árið 2010 verðlaun á ZEBRA Poetry kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrir myndljóðið „Höpöhöpö Böks“.
Eiríkur Örn er ötull þýðandi og hefur bæði þýtt skáldverk erlendra höfunda á íslensku og verk af öðrum toga. Að auki hefur hann skrifað greinar og pistla um bókmenntir og þjóðfélagsmál fyrir blöð og tímarit. Nýjasta bók Eiríks Arnar Plokkfiskbókin kom út fyrr á þessu ári en í henni er ekki aðeins að finna ríflega þrjátíu plokkfiskuppskriftir heldur fléttar höfundur inn heimspeki, leikur sér með sjálfsævisöguformið og matreiðslubókarformið svo fátt eitt sé nefnt.
Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Borðapantanir