R.E.C Arts Reykjavík & Norræna húsið bjóða 13-17 ára til þátttöku

Listamanna og aktívista samtökin R.E.C Arts Reykjavík, í samstarfi við Norræna húsið, vinna að verkefni sem leitast við að skapa listrænan vettvang fyrir unglinga á aldrinum 13-17 ára, sem eru með minnihlutabakgrunn.*

Nemendum úr ólíkum skólum er boðin þátttaka í verkefni sem mun þróast út frá áhugasviði einstaklinga sem taka þátt. Þátttaka er ókeypis og vinnustofur haldnar tvisvar í mánuði frá febrúar fram í apríl í Norræna húsinu. Útkoma verkefnisins verður sýnd á Barnamenningarhátíð Norræna hússins sem fer fram 18.-23. apríl. Verkefnið hefst á vinnustofunum þar sem verða gerðar mismunandi listrænar æfingar út frá ólíkum frásagnarformum, (myndlist, tónlist, dans, leikhús) en einnig verður stór hluti byggður á samtölum og umræðum – undir handleiðslu kennara og listamanna. Leiðbeinendur eru þrír af stofnmeðlimum R.E.C Arts Reykjavík samtakana en einnig verður gestakennurum boðið eftir þörfum og áhugasviði hópsins.  Meginþemu vinnustofanna verða: sjálfsmynd, samfélag og valdefling. Þátttakendur eru hvattir til að nota eigin rödd og taka pláss í samfélaginu og verða nemendur hvattir til að þróa og útfæra hæfni sem þeir nú þegar búa yfir eða vilja tileinka sér.

Sýningin á Barnamenningarhátíð mun gefa þáttakendum svið til að deila sínum reynsluheimi ásamt því að  fræða þá sem hafa meiri forréttindi, um þær mikilvægu menningarbreytingar sem nú eiga sér stað í íslensku samfélagi.

Stofnendur R.E.C Arts Reykjavík bjóðast til að koma í skóla og kynna verkefnið núna í janúar 2023 í skólum sem hafa áhuga á að koma því á framfæri. Fyrir þá sem vilja fræðast meira eða fá kynningu á verkefninu í eigin persónu vinsamlega skrifið á hrafnhildur@nordichouse.is eða recartsrvk@gmail.com.

www.instagram.com/recartsrvk

www.facebook.com/recartsrvk

https://drive.google.com/file/d/1LuTQZqWNOgUoV8qHnrxRW-MLZwWXMLTK/view

*“Minnihlutabakgrunnur“ nær yfir litað fólk, fatlað fólk, LGBQTIA+, fólk með innflytjendabakgrunn eða stöðu flóttamanns. Smiðjurnar eru einnig velkomnar fyrir ungt fólk sem vill mennta sig frekar og verða samherjar fólks með ólíkan bakgrunn.

Hver erum við og af hverju erum við að þessu?

kajasigvalda

R.E.C Arts Reykjavík var stofnað síðla árs 2021 af Rebeccu Hidalgo, Evu Björk og Chaiwe Sól Drífudóttur.  Samtökin hafa það að markmiði að koma fjölbreytileika og sýnileika  inn á almenna listalífið á Íslandi með því að stuðla að jöfnuði, aðgengi og menntun. R.E.C Arts Reykjavík eru eru viðurkennd félagasamtök og hafa starfað bæði sjálfstætt og í samstarfi við samtök og hátíðir á borð við: Listahátíð í Reykjavík, Amnesty International, Femínistahátíð í Reykjavík, Antirasistarnir, Reykjavík Pride o.fl.

R.E.C Arts Reykjavík hefur unnið með bæði fullorðnum og ungmennum og staðið fyrir vinnustofum þar sem einstaklingar úr ólíkum minnihlutahópum koma saman. Samtökin skapa rými til menntunar, þroska, samkenndar og skilnings, byggja upp sjálfstraust hjá hverjum og einum einstaklingi sem þau vinna með og veita öruggt samfélag fyrir sjálfstjáningu. Íslensk söfn og menningarstofnanir eru oft á tíðum stofnanir þar sem aðeins þeir sem eru forréttindameiri, með gott tengslanet virðast geta þrifist og skortur er á fulltrúum litaðra, kynsegin fólks, fatlaðs fólks, innflytjenda og flóttamanna.

Við hjá R.E.C Arts Reykjavík erum byrjuð að takast á við þetta mál með því að skoða rót vandans: „hina valdameiri“ en á þessum stofnunum sem eru nánast aldrei einstaklingar úr jaðarsettum hópum eða samfélögum -þrátt fyrir að „öllum sé boðið“. Stofnanir er í raun og veru ekki eins opin og aðgengileg og stefna þerra bendir til. Raunverulegt boð fælist í því að sjá fólk eins og þig stjórna þessum stofnunum og gefa fólki eins og þér rými.

Hægt er að skilgreina okkur, stofnendur R.E.C Arts Reykjavík,  þvert á ólíka hópa, bæði jaðarsettra en einnig forréttindahópa. Einkunnarorð okkar eru „Sýnileiki skiptir máli“. Sýnileikinn er afar mikilvægur ungu fólki svo það finni fyrir auknum tilgangi og að þau tilheyri samfélaginu. Hvort sem ungmenni hafa löngun að leggja stund á listir í framtíðinni eða ekki, ætti að bjóða þeim tækifæri til að kanna listir og rækta sköpunargáfu sína í umhverfi meðal þeirra sem líkjast þeim.

Framtíðarsýn R.E.C Arts Reykjavík er að skapa stað þar sem allir upplifa tilverurétt á eigin forsendum jafnframt því að finna fyrir því að þau skipti máli og tilheyri samfélaginu.