Umhverfishátíð í Norræna húsinu

Helgina 11-12. maí verður boðið upp á fjölbreytta og fræðandi dagskrá fyrir alla fjölskylduna í Norræna húsinu. Áherslan verður lögð á viðgerðamenningu og aðferðir til að lengja líftímann á eigulegum og þörfum hlutum sem finnast á hverju heimili – allt frá reiðhjólum til buxna og brauðrista! Markmiðið er að vekja athygli á 12. sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu þjóðanna, sem hvetur til ábyrgari framleiðslu og neyslu.

Heiðursgestur hátíðarinnar verður Kaja Ahnfelt, stofnandi Restarters Norway, sem hlaut Umhverfisverðlaun Osló-borgar árið 2017 og tilnefningu til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs sama ár fyrir að innleiða „viðgerða-partý“ (no: fiksefester) vítt og breitt um Noreg. Kaja hefur með starfi sínu vakið athygli á ofneyslu m.a. raftækja í Noregi og með kollegum sínum þrýst á stjórnvöld að gera viðgerðir hagkvæmari kost fyrir almenning.

Yfir helgina veður meðal annars boðið upp á smiðjur, fyrirlestra, námskeið, kynningar, markað, hönnunarsýningu og heimildarmyndir. Viðburðirnir eiga sameiginlegt að kynna leiðir til að nýta betur verðmætin allt í kringum okkur og draga úr sóun á ýmsum sviðum.

Dagskráin verður kynnt á næstu dögum.

Hátíðin er skipulögð af Norræna húsinu í samstarfi við eftirfarandi aðila:

  • Félag sameinuðu þjóðanna á íslandi
  • Kvenfélagasamband Íslands
  • Landvernd
  • Listaháskóli Íslands
  • Repair Café / Tools Library
  • Umhverfisstofnun
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Vakandi