BARNAMENNINGARHÁTÍÐ: Vögguvísur


16:30-17:00
Salur
Aðgangur ókeypis

Vögguvísur heimsins eru afar ólíkar, bæði hvað varðar texta innihald og tónlist en eiga það sameiginlegt að þjóna þeim tilgangi að svæfa ungabörn. Það tengir okkur öll og er áminning um að frá upphafi eru allar manneskjur heims með sömu þarfir.

Verkefnið Vögguvísur opnar fræðslu og innsýn í mismunandi menningarheima í gegnum tónlist og textarýni. Með þvi að bera saman ólíkar vögguvísur heimsins opnast dyr að fjölbreytileika og ýmsar spurningar vakna á borð við: Hvað tengir okkur? Hvað gerir okkur ólík?

Hugmyndin kviknaði hjá tónlistarkonunni og sýningarstjóranum Elham Fakouri þegar hún var að ljúka meistaranámi í tónlistardeild Listaháskólans en henni fannst eftirtektarverður munur á írönskum og íslenskum vögguvísum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Elham Fakouri, tónskáldið og tónlistarmanninn José Luis Anderson og Hrafnhildi Gissurardóttur fræðslufulltrúa Norræna hússins. Þau hafa unnið og útfært verkefnið ínáinni samvinnu við Fellaskóla með aðstoð Ingu Bjargar Stefánsdóttur sem er yfir tónlistarkennslu skólans. Unnið er með 30 nemendum í sjöunda bekk Fellaskóla sem eru flest eru með ólíkan bakgrunn og koma samanlagt frá þrettán mismunandi löndum.

Verkefnið er eitt af fjórum verkefnum á Alþjóðlegri barnamenningarhátíð Norræna hússins. Hugmyndin á bak við þema hátíðarinnar er sú að með innsýn í alþjóðleikann, eykst skilningur sem getur dregið úr fordómum gagnvart menningu annara þjóða.

Alþjóðleg barnamenningarhátíð Norræna hússins þakkar fyrir styrk frá Barnamenningarsjóði Reykjavíkur.