Þrír viðburðir með grænum fókus –norræn viðhorf um #ChoosingGreen


Salur

Í tilefni COP26, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, býður Norræna húsið upp á fjölbreytta dagskrá fimmtudaginn 11. nóvember með fókus á umhverfismál og sjálfbærni. Ábyrg neysla og framleiðsla er stór áskorun á Norðurlöndunum. Hvernig getum við tamið okkur umhverfisvænni lífsstíl til að standa vörð um náttúruna og loftslagið? Dagurinn 11. nóvember hefur í vaxandi mæli verið kallaður Dagur einhleypra (Singles’ Day) af verslunum og er dagurinn orðinn einn stærsti verslunardagur í heimi vegna fjölda tilboða sem fólk nýtir sér. Við notum því tækifærið á þessum degi til að velta fyrir okkur neyslu, kolefnisspori og samstarfi um lausnir.

Kl. 12.00 -13.30Er hægt að vera umhverfisvæn á Degi einhleypra og aðra daga?
Á hádegisverðarfundi bjóðum við upp á pallborðsumræður um grænni lífsstíl. Í pallborði verða aðilar sem tengjast lausnum sem geta ýtt undir umhverfisvænni neyslu. Um leið verður varpað ljósi á þátttöku ungmenna í COP26, nokkur ungmenni verða með í beinni frá Glasgow og í norrænni hliðarhöfn COP26 í Helsinki. Mættu á staðinn til að taka þátt í samtalinu og þiggja veitingar frá Sónó matseljum eða fylgstu með í streymi.
Nánari upplýsingar hér.

Kl. 16.00 – 18.00Sjálfbær samruni

Sjálfbær samruni er viðburðaröð sem felur í sér samtal lista og vísinda um sjálfbærni. Markmiðið að efla samtal milli lista og vísinda og varpa ljósi á mikilvægi skapandi greina í vegferðinni að sjálfbærri framtíð. Í þessum öðru hluta af þremur beinum við sjónum okkar að sögum eða „narratívum“ samtíma okkar; samskiptum, hlustun og von. Hvernig endurspeglast umhverfismál í frásögnum okkar samtíma? Hvert er hlutverk skapandi greina í að segja sögur sem vekja fólk til vitundar um sjálfbærni og umhverfismál en vekja einnig von um framtíðina? Hvernig tvinnast frásagnir og samskipti saman við neyslumenningu og gildi?
Nánari upplýsingar hér

Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun stendur að viðburðaröðinni í samstarfi við Norræna húsið.

Kl. 18.00 – 18.30 Móttaka í anddyri Norræna hússins með veitingum frá Sónó matseljum.

Kl. 18.30 – 20:00 Why Plastic? – Heimildarmyndin Endurvinnslugoðsögnin (The Recycling Myth)

Frumsýning heimildarmyndarinnar Endurvinnslugoðsögnin (The Recycling Myth). Myndin er hluti af alls þremur heimildarmyndum verkefnisins ,,Hvers vegna plast?” (Why Plastic?) á vegum samtakanna The Why og sýnd í samstarfi við samtökin SEEDS og Norræna húsið. Í lok myndarinnar verða pallborðsumræður um innihald hennar.
Nánari upplýsingar hér.

Ókeypis aðgangur er á ofangreinda þrjá viðburði. Vegna sóttvarna verður grímuskylda í sal hússins ef ekki er haldin 1m fjarlægð. Streymt verður frá hádegisviðburðinum og Sjálbærum samruna í gegnum þá viðburði á heimasíðu Norræna hússins og facebook-síðu.

Streymi frá norrænum viðburðum á COP26 í Glasgow og hliðarhöfn í Helsinki er að finna hér.

Yfirlit yfir dagskrá norrænu hliðarviðburðanna í Helsinki er að finna hér.