Sýning í Atrium: En gaman að heyra að þið hafið það gott


10-17

Norræna húsið sýnir í tilefni af Norrænum Kvikmyndum í Fókus leikmunasýninguna „En gaman að heyra að þið hafið það gott“ í Atrium hússins.

Þema sýningarinnar er kvikmyndagerð Roy Anderssons og listræn vinnuferli hans. Sýningin hverfist um vinnu hans að nokkrum kvikmyndum í fullri lengd sem saman mynda það sem hann kallar „þrísögu um lífið, dauðann og hvað það merkir að vera manneskja“, sem og gripi og sýnishorn sem tengjast myndinni Um hið óendanlega (Om det oändliga), sem verður frumsýnd vorið 2019. Á sýningunni verða ljósmyndir, skissur og munir sem urðu til í vinnu Anderssons að þeirri kvikmynd.

Sýningin
Verk Roy Anderssons taka til skoðunar stóru spurningarnar í lífinu, frá sjónarhorni venjulegs fólks við hversdagslegar, smáar aðstæður. Með því að víkja frá hefðbundinni frásagnaraðferð kvikmyndanna myndast rými fyrir ný og óvenjuleg sjónarhorn. Nánast öll atriðin eru mynduð í stúdíói, í leikmynd sem er smíðuð með aðferðum hinnar sígildu trompe l’œil-tækni (blekkingarmynd eða sjónblekking á tvívíðum fleti), en það er aðferð sem málarar á fyrri öldum nýttu sér til að líkja sem nákvæmast eftir raunveruleikanum. Myndavélin er augu þeirra sem fylgjast með því sem fram fer og lokkar áhorfandann inn í túlkun leikmyndarinnar á veruleikanum.

Það getur tekið marga mánuði að undirbúa hvert atriði áður en það er kvikmyndað og leikmyndin er listaverk, skapað af færustu sviðsmyndahönnuðum. Þegar umhverfi sögunnar er endurskapað í stúdíóinu er það eins og endursköpun á upplifunum og skynjunum, síaðar gegnum minni mannsins. Úr verður heimur sem virðist vera einu stigi fyrir ofan veruleikann.
Myndmálið og aðferðirnar sem Roy Andersson beitir til að skapa mynd sína af heiminum eru því á margan hátt aðferðir listmálarans og þykja minna á verk málara á borð við Edward Hopper, Johannes Vermeer eða Vilhelm Hammershøi. Litanotkun hans er einnig mjög veigamikill þáttur í fagurfræðilegri nálgun hans. Við myndbyggingu og samsetningu atriða notar Andersson sérstæða og sérvalda litatóna, oftast margs konar blæbrigði af gráu og ljósbrúnu. Sé rýnt gaumgæfilega í nánast eintóna yfirbragð myndanna sem hann skapar finnst áhorfandanum hann næstum geta greint pensilförin.

 

 

Sýningin er unnin í samstarfi við Sænska Sendiráðið í Reykjavík.