Masterclass


12. febrúar næstkomandi stendur Söngskóli Sigurðar Demetz fyrir Masterklass í Norræna húsinu fyrir nemendur skólans en þar mun hin heimsþekkta söngkona Maria Lyudko leiðbeina nemendum skólans. Maria mun einnig gefa kost á einkatímum fyrir söngvara.

Maria Lyudko er fædd í Pétursborg í Rússlandi og hóf tónlistarnám sitt fjögurra ára gömul. Hún stóð fyrst á sviði í óperuhlutverki aðeins átta ára gömul sem Næturgalinn í óperu Bryansky, Kvartettinn. Framhaldsnám stundaði Maria í Akademíu Mariinsky-leikhússins í Alþjóðlegu Bach Akademíunni. Hún útskrifaðist úr Rimsky Korsakov tónlistarháskólanum með próf í tónlistarfræðum og söng. Síðar lauk hún einnig doktorsgráðu í tónlistarfræðum.

Hún hefur unnið til fjölda verðlauna og hlotið viðurkenningar fyrir söng sinn og sungið við virt óperuhús eins og Mariinsky leikhúsið í Pétursborg, Bolshoi í Moskvu, Komische Oper í Berlín og Concertgebouw í Amsterdam.

Óperuhlutverk hennar eru yfir 30 talsins og þar á meðal: Violetta í La Traviata, Nanetta í Falstaff og Anne Truelove í Rakes Progress.

Nýlega tók hún við sem yfirmanneskja Kammer-söngdeildar St Petersburg State Conservatory.