Klassík í Vatnsmýrinni- Á vit nýrra hljóma


20:00

Í Norræna húsinu 25.4. 2017 kl. 20:00

Gestir frá Hamborg, Martin Gonshorek flautuleikari og Stefan Matthewes píanóleikari flytja efnisskrá sem varpar ljósi á hina fjölbreyttu þróun sem varð innan franskrar rómantíkur í átt að nýju tónmáli módernismans. Tónleikarnir hefjast á verkinu sem breytti svo miklu, Síðdegi skógarpúkans eftir Debussy. Auk þess á dagskrá Sónata í A dúr eftir César Franck, Bilitis eftir Claude Debussy og Sónata í D dúr op. 94 eftir Sergej Prokofief. Verkið Bilitis er myndrænt verk sem Debussy samdi við tólf ljóð eftir Pierre Louys. Hin þekkta fiðlusónata Francks sem hann tileiknaði belgíska fiðlusnillingnum Eugène Issaÿe verður flutt í umritun fyrir flautu og píanó. Flautan hafi öðlaðis nýtt hlutverk bæði sem einleikshljóðfæri og í kammermúsik í lok nítjándu og við upphaf tuttugustu aldarinnar en flautusónata Prokofiefs, samin árið 1943 er fyrsta tónsmíðin sem er hægt að líta á sem verk af sömu stærðargráður og fiðlu- og sellósónötu blómaskeiðs rómantíkurinnar.

Um tónleikaröðina

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum. Á starfsárinu 2016 – 2017  eru fimm tónleikar, tvennir með erlendum gestum og þrennir með íslensku listafólki úr röðum félagsmanna FÍT.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2500 kr en 1500 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Miðasala við innganginn og á tix.is 

Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.

Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Hlíf Sigurjónsdóttir, Sigurður Bragason og Anna Jónsdóttir.