Kjell Westö

Höfundakvöld með KJELL WESTÖ


19:30

 Höfundakvöld með KJELL WESTÖ í Norræna húsinu

þriðjudaginn 4. apríl kl. 19.30

 

Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi Norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins rithöfundurinn Kjell Westö frá Finnlandi.

Viðburðurinn byrjar kl. 19:30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.

Einar Kárason, rithöfundur stýrir umræðu sem fer fram á sænsku/skandinavísku.

KJELL WESTÖ (f. 1961) er finnlandssænskur höfundur sem skrifar jafnt ljóð sem smásögur en þekktastur er hann þó fyrir skáldsögur sínar. Í forgrunni í bókum höfundarins er fæðingarborg hans, Helsinki, með sögu Finnlands sem útgangspunkt. Sú skáldsaga sem fyrst vakti athygli á höfundinum, Drakarna över Helsingfors eða Drekarnir yfir Helsinki kom út árið 1996. Síðan hafa skáldsögurnar orðið nokkrar og árið 2006 fékk Westö Finlandiapriset fyrir ættarsöguna Där vi en gång gått sem einnig hefur verið kvikmynduð.

Árið 2013 kom bókin Hägring 38 út eða Hilling 38 eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Sigurðar Helgasonar. Sögusviðið er Helsinki árið 1938 þegar útþenslustefna Adolfs Hitlers er er við það að hleypa af stað heimsstyrjöldinni síðari. Sagan segir af Miðvikudagsklúbbnum svokallaða sem er óformlegur umræðuvettvangur gamalla vina Thune lögmanns. Fyrir liggur klofning Evrópu og hún ætlar líka að ná til Miðvikudagsklúbbsins. Í bókinni er róstursömum tímum í sögu Evrópu gerð góð skil en fyrst og fremst fjallar sagan um mannlegar tilfinningar og óendanlegan kærleika. Fyrir bókina Hägring 38 hlaut Westö Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2014.
AALTO Bistro

Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu.