Sko, sko, sko – Listviðburður


14:00-17:00

Jamm, Namm, Sko, Oh viðburðaröðin er framlenging á myndlistarsýningunni Af stað! sem stendur yfir í Norræna húsinu frá 1. desember til 12. janúar.

Í viðburðaröðinni munu vel valdir listamenn kafa djúpt í neyslumenningu samtímans og/eða áhrif hennar á umhverfi okkar og lifnaðarhætti með verkum sínum alla aðventuna í Norræna húsinu.

Hvern sunnudag í aðventu er einblínt á sérstakt viðfangsefni og fjórða í aðventu beinum við sjónum að afleiðingunni eða Sko, sko, sko.

„Skref fyrir skref, bolli fyrir bolla.
Við heyrum framandi minningar innan úr sal. Göngum í hringi, það er allt að bresta á.“

Þátttakendur:

 

Leena Maria Saarinen kl. 15

Natural Selection: Í verkinu notast Leena við vinsælar kvikmyndir og velur þau atriði þar sem mannfólk eða manngerðir hlutir sjást ekki. Eftir stendur náttúran laus við samhengi mannsins. Af 6 klukkustundum og 53 mínútum af efni stendur eftir 1 mín. og 50 sek. Myndbandsverkið– hefst kl. 15 í salnum  

Birdsong: Verkið er myndbands- og hljóðverk sem gerir fuglasöng sýnilegan í gegnum ýmis stafróf og önnur táknkerfi. Hún leitar af tengingum og líkindum þar á milli, til að afbyggja valdastrúktúr tungumála. 

 

Gjörningar – kl. 14 – 17 

Eva Bjarnadóttir – Nýburaganga

Getum við fæðst upp á nýtt? Um hringsólandi líkama í óræðum heimi. Hvert getur hin frumstæða hljóðmynd (ah-eh-uh) leitt okkur, í einlægri leit að einfaldari lífstíl, minni neyslu og meiri vitund um líkama jarðar. Hvaða hömlur setur líkaminn og hvað getum við gert til þess að breyta hegðun? Verkið er hálftíma gönguferð um nærumhverfi Norræna hússins, þar sem nýburar á öllum aldri eru velkomnir. Gangan verður barnvæn.

Kristín Karólína Helgadóttir – Jólatré

Jólatré í anda Alvar Aalto er skreytt með könnum sem listamaðurinn hefur persónulega sankað að sér í gegnum tíðina, flestar merktar vörumerkjum fyrirtækja. Jólatréð verður skreytt í fallegri athöfn undir leiðsögn listamannsins.

Birkir Mar Hjaltested – @brenndur kemur alla sunnudaga til að spjalla við gesti um hitt og þetta og veitir innsýn í áhrifamikið líf sitt. Komdu í Norræna húsið á sunnudögum og fáðu eiginhandaáritun á ljósmynd eða annan varning.

Sólbjört Vera Ómarsdóttir – Bragð
Milli kl. 15 – 17 alla sunnudaga, býðst ykkur að koma og bragða með mér. Komiði í bragð-brunch! Hlakka til að sjá ykkur.