Norrænar glæpasögur- Pallborðsumræður


11:00-12:00

Norræna glæpasagan hefur haslað sér völl um allan heim og vinsældir hennar aukist verulega og víðsvegar undanfarin ár. Á glæpasagnahátíðinni Nordic Noir í Reykjavík langar okkur m.a. að heyra meira um hvernig það hafi gerst.

Pallborðsumræðan er skipulögð af Ungmennadeild Norræna félagsins (UNF) fyrir innra starf systursamtakanna á Norðurlöndunum með það að markmiði að vekja athygli, áhuga og þekkingu á norrænni samvinnu, menningu og tungumálum. Hins vegar höfum við ákveðið að opna dyrnar og bjóða almenning velkominn á þessa glæsilegu og spennandi pallborðsumræðu með margverðlaunuðum þátttakendum. ALLIR VELKOMNIR! FRÍTT INN!

Umræðurnar fara fram á ENSKU.

Þátttakendurnir eru:
Stjórnandi: Bogi Ágústsson (Ísland)

Óskar Jónasson (Ísland) er rithöfundur/leikstjóri, þekktur fyrir kvikmyndirnar Sódóma Reykjavík og Reykjavik-Rotterdam sem vann fjögur Edduverðlaun og var síðar endurgerð af Working Title-Films undir heitinu Contraband. En síðast en ekki síst er hann þekktur fyrir glæpaþættina Svarta svani og Pressu sem sýndir voru á RÚV á besta sýningartíma.
Hans Olav Lahlum (Noregur) er sagnfræðingur, stjórnmálamaður, skákmaður og sjálfsævisagnahöfundur auk þess að hafa skrifað glæpasögur fyrir bæði ungmenni og fullorðna;  til þessa hafa sjö bækur um K2 og Patriciu verið gefnar út og sú seinasta, Haimennesket, kom út í ágúst á þessu ári. Glæpasögur hans hafa verið þýddar á átta tungumál m.a. ensku, dönsku, sænsku og kóresku.

Jonas Grimås (Svíþjóð) er kvikmyndahandritahöfundur/leikstjóri, búsettur í London. Hann nam við Dramatiska institutet í Stokkhólmi og síðar við Konunglega listaháskólann í London. Hann vann BAFTA-verðlaunin fyrir Artisten í flokki stuttmynda. Meðal kvikmyndritahandrita hans eru nokkrar Wallander kvikmyndanna, byggðar á bókum eftir hinn heimsfræga rithöfund Henning Mankell sem lést nýverið og nokkrar bóka Camillu Läckberg.
Úlfhildur Dagsdóttir (Ísland) nam bókmenntafræði og hefur skrifað gagnrýni og greinar um glæpasagnir. Sem starfsmaður Borgarbókasafns Reykjavíkur hefur hún skipulagt ekki minna en fimmtán „glæpagöngur“ um Reykjavík. Hún hefur verið meðlimur og stjórnarmaður Íslensku glæpasamtakanna og sat nýverið í dómnefnd Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Við viljum koma á framfæri þökkum til allra eftirtaldra bakhjarla okkar fyrir að veita okkur tækifæri á að standa fyrir þessum viðburði: Norræna barna og ungmennanefndin, Norræna menningargáttin, Norræni menningarsjóðurinn, Æskulýðsjóður Reykjavíkurborgar og Norræna húsið í Reykjavík.