Líkt og kynlíf og súkkulaði? Menning, lýðræði & endalok listanna


16:00 - 18:00
Salur
Aðgangur ókeypis

Framlög til menningarmála og stefnumótun ríkis og sveitarfélaga í listum eru jafnan réttlætt með vísan til aðgengis og almennri þátttöku. Lýðræði er lykilorðið og hugsjónin um að allir hafi jafnan rétt og aðgang að listum og menningu er almennt viðtekin skoðun. En hefur þetta verkefni gengið eftir?

Í könnunum á menningarþátttöku kemur í ljós mikill munur á milli aðstöðu fólks eftir efnahag, aldri, búsetu og menntun. Munur sem hinum innmúruðu finnst vandræðalegt að ræða. Sérstaklega í ljósi þess að megin þorri opinberra styrkja til menningarmála rennur til vel fjármagnaðra stofnanna sem standa vörð um hefðbundin listform og menningarafurðir sem í grunninn eiga að „gera fólki gott“ og „bæta“ það í einhverjum skilningi. Til þess að breyta þessu þarf róttæka endurskoðun á hugmyndum og kerfum. Það þarf endurheimta hugsjónir um virði lista og menningar í samtímanum og viðmið um árángur sem ekki eru eins upptekin af hagrænum mælikvörðum. Þá þarf virkilega að endurhugsa hvernig við orðum og skiljum hlutverk „skapandi hugsunar“ í opinberu lífi og samfélaginu.

Dagskrá
:

16:00
Keynote eftir Steven Hadley

16:40
Pallborð með:
Gitte Grønfeld Wille
Arna Kristín Einarsdóttir
Njörður Sigurjónsson
Sabina Westholm

17:00
Samtal um pallborðið og spurningar úr sal

18:00
Viðburði lýkur

Eftir erindi Steven Hadleys ræða saman í pallborði Arna Kristín Einarsdóttir skrifstofustjóri menningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Gitte Grønfeld Wille, framkvæmdastjóri Norrænu menninargáttarinnar (Nordisk kulturkontakt), Sabina Westerholm forstjóri Norræna hússins í Reykjavík og Njörður Sigurjónsson prófessor við Háskólann á Bifröst. Þá verður opnað á almennar umræður og gestum boðin þátttaka í samtalinu.

Steven Hadley er alþjóðlega þekktur fræðimaður á sviði menningarstefnu og áheyrendaþróunar og hlotið margskonar viðurkenningu fyrir framlag sitt. Rannsóknir hans hafa fyrst og fremst beinst að hugmyndum um aðgengi almennings að menningu og listum en hann er meðal annars höfundur bókarinnar Audience Development and Cultural Policy (2021). Þá hefur hefur hann, ásamt því að birta fjölda vísindagreina, verið ritstjóri bóka sem gefnar hafa verið út hjá Routledge, þar á meðal Cultural Leadership in Practice og Audience Data and Research. Steven situr í stjórn Cultural Research Network og í ritstjórn tímaritanna Arts and the Market og Cultural Trends. Hann hefur haldið fyrirlestra víða um lönd, meðal annar í National Portrait Gallery í London, hjá Evrópuþinginu í Brussel, og menningarmálaráðuneytum í París og Santiago de Chile. Steven hefur starfað í yfir þrjátíu löndum víðsvegar um heiminn og er ráðgjafi hjá Counterculture (UK), The Audience Agency (UK) og Danish Centre for Arts & Interculture (Danmörku).

Gitte Grönfeld Wille er framkvæmdastjóri Norrænu menninargáttarinnar (Nordisk kulturkontakt/ Nordic Culture Point) sem staðsett er í Helsinki. Þar stýrir hún styrkjaáætlun Norræna ráðherranefndarinnar fyrir listir, menningu og samfélag, ásamt Norræna bókasafninu í Helsinki. Á árunum 2012 til 2022 var Gitte stjórnandi menningardeildar svæðisstjórnarnarinnar á Skáni í Svíþjóð og bar þar ábyrgð á stefnumótun og stjórnun menningarmála. Þar áður vann Gitte ýmis störf innan menningargeirans meðal annars við framleiðslu og markaðssetningu, og við stuðningskerfi í listum og og menningu. Gitte er dramatúrg og er með meistaragráðu í menningarstefnu frá Árósaháskóla.

Sabina Westerholm er forstjóri Norræna hússins í Reykjavík. Hún var áður framkvæmdastjóri í Stiftelsen Pro Artibus sem hefur að markmiði að styðja myndlist á svæðum í Finnlandi þar sem töluð er sænska. Hún hefur leitast við að spegla finnska list í alþjóðlegri list og staðið fyrir ýmsum norrænum verkefnum um listir á ferli sínum. Hún gegnir trúnaðarstörfum fyrir Hanaholmen og Frame Contemporary Art Finland.

Arna Kristín Einarsdóttir er skrifstofustjóri menningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu frá árinu 2023 og stundakennari við í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Áður hefur hún starfað sem dagskrár- og skipulagsstjóri við Sinfóníuhljómsveit og tónlistarhús Gautaborgar, framkvæmdastjóri þjóðarhljómsveitar Kanada í Ottawa frá 2019-2022 og þar áður sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2013-2019 og sem tónleikastjóri hljómsveitarinnar á árunum 2007-2013. Arna Kristín lauk meistaranámi í flautuleik (Professional Performance) frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 1992, diplóma á meistarastigi í flautuleik frá Royal College of Music í Manchester á Englandi árið 1996, MA gráðu í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2007 og diplóma í samningatækni og sáttamiðlun frá sama skóla árið 2017.

Njörður Sigurjónsson er doktor í menningarstefnu og menningarstjórnun og starfar sem prófessor við Háskólann á Bifröst. Áður starfaði Njörður meðal annars sem framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs, markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og sýningastjóri hjá Íslensku óperunni. Hann lauk BA-prófi í heimspeki 1998, MS-prófi í alþjóðaviðskiptum 2001 og doktorsprófi frá City, University of London, árið 2010. Njörður hefur stundað rannsóknir á stjórnun, menningastjórnun og menningarstefnu en meðal útgefinna greina og bókarkafla frá undanförnum árum eru: „Vinnan, takturinn og tímavísindin: Hugmyndir um vísindalega stjórnun og reyndan tíma í vinnuvísindum Guðmundar Finnbogasonar“ (2004); „Orchestra Leadership“ í bókinni Managing the Arts and Culture: Cultivating a Practice, ritstýrt af Constance DeVereaux og gefin út af Routledge;
„The Business of Culture: Cultural Managers in Iceland and the first waves of the Pandemic“ (2022); „The Political-Aesthetics of Participation: A Critical Reading of Iceland’s National Cultural Policy“ (2021) og „Menningarstefna, þátttaka og innflytjendur“ (2020).

Aðgengi að Elissa (salur) er gott, aðgengileg og kynhlutlaus salerni eru á sömu hæð.