Klassík í Vatnsmýrinni – Hljóðs bið ek allar helgar kindir
20:00
Þórir Jóhannsson, kontrabassaleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir, píanóleikari flytja tónlist eftir Zoltán Kodály, Giovanni Bottesini, Max Bruch, Árna Egilsson, Karólínu Eiríksdóttur og Þórð Magnússon. Þórir og Ingunn tefla fram þessari óvenjulegu blöndu hljóðfæra í verkum sem ýmist eru samin fyrir þessa samsetningu eins og Rhapsodia Þórðar, Völukvæði Árna og Fantasia Bottesinis eða Gradus ad Profundum sem samið er fyrir einleiksbassa og Kol Nidrei sem og Epigrammák sem eru aðlöguð þessum hljóðfærum. Kontrabassinn hefur sótt í sig veðrið undanfarna áratugi sem einleikshljóðfæri en verður að teljast enn frekar óþekkt í íslenskri tónlistarflóru. Ingunn og Þórir vilja bæta úr því en samstarf þeirra hófst árið 2012 þegar þeim var boðið að spila á alþjóðlegri ráðstefnu kontrabassaleikara í Kaupmannahöfn.
Kontrabassaleikarinn Þórir Jóhannsson lauk Postgraduate Diploma frá the Royal Northern College of Music í Manchester. Eftir nokkurra ára dvöl í Danmörku þar sem Þórir var lausráðinn við nokkrar helstu hljómsveitir beggja vegna Eyrarsundsins flutti hann aftur til Íslands haustið 2000 og er nú fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann er kennari í Tónlistarskóla Kópavogs og er virkur kammertónlistarmaður og hefur til dæmis reglulega komið fram með kvintett á tónleikum hins virta Kammermúsikklúbbs. Þórir hefur frumflutt ýmis verk fyrir kontrabassa, ýmist einan, með píanói eða konsert með kammersveit. “Rhapsodia per Contrabasso et Piano” eftir Þórð Magnússon frumflutti hann 2011 og er að finna á hljómdiskinum “La Poesie” sem kom út árið 2013. 2016 leiðbeindi Þórir í fyrsta sinn í Alþjóðlegu Tónlistarakademíu Hörpu.
Ingunn Hildur Hauksdóttir stundaði fyrst píanónám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og árið 1993 lauk hún píanókennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ingunn sótti einkatíma hjá Roger Vignoles um tveggja ára skeið og einnig hefur hún sótt fjölmörg námskeið m.a. hjá Dalton Baldwin, Nelita True og György Sebök. Ingunn hefur m.a. verið organisti Þingvallakirkju starfaði uma árabil sem kennari og meðleikari við Tónlistarskólann í Hafnarfirði. Hún er virk í kammertónlist með tónlistarhópum á borð við Camerarctica og Notus-tríó. Hún hefur gert upptökur fyrir útvarp og geisladiska og komið fram á fjölmörgum tónleikum innanlands og utan. Árið 2015 fór Ingunn í tónleikaferð með Notus-tríóinu til Bretlands og Ítalíu þar sem áhersla var lögð á kynningu íslenskrar tónlistar. Árið 2016 lá leið tríósins til Spánar í sömu erindagjörðum. Síðastliðin ár hefur Ingunn leikið reglulega á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins og m.a. komið að flutningi píanókvintetta og sextetta eftir R. Vaughan Williams, J. N. Hummel, L. Farrenc, F. Schubert og F. Mendelsohn. Ingunn kennir píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Garðabæjar og starfar sem meðleikari við Menntaskóla í Tónlist.
Miðar fást á tix.is og við innganginn. Aðgangseyrir er kr. 3.000, 2.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, ókeypis fyrir nemendur og gesti 20 ára og yngri. Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið og leggur áherslu á norrænt og alþjóðlegt samstarf.
Um tónleikaröðina
Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum.