Klassík í Vatnsmýrinni – Gunnarsdætur


20.00

Snæbjörg Guðmunda Gunnarsdóttir sópransöngkona og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari eru báðar búsettar erlendis, Snæbjörg í Stuttgart og Þóra í Zürich. Þeirra fyrstu tónleikar sem dúó eru óður til heimalandsins Íslands og hinna þýskumælandi búsetulanda þeirra. Í fyrri hluta efnisskrárinnar má heyra brot af því besta sem þýska og svissneska síðrómantíkin hefur að geyma: Verk eftir Wagner, Strauss, Wolf og hina svissnesku Paul Juon og Othmar Schoeck. Seinni hluti tónleikanna er helgaður Íslandi með tónlist m.a. eftir hjá Atla Heimi Sveinsson Jórunni Viðar og Tryggva M. Baldvinsson, og heyra má þjóðlega tóna, hugljúfar laglínur og íslenskan tangó.

Snæbjörg Guðmunda Gunnarsdóttir stundaði fyrst söngnám við Söngskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands og lauk mastersnámi í óperusöng í mars 2019 frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart. Snæbjörg þreytti frumraun sína að námi loknu sem Desdemona í uppsetningu á barnaóperunni Der Kleine und Otello eftir Verdi/Aurélien Bello á Osterfestspiele í Baden Baden og í sumar fór hún með hlutverk Næturdrottningarinnar á Schlossfestspiele Ettlingen hátíðinni í Þýskalandi. Sumarið 2019 var Snæbjörg styrkþegi Richard Wagner félagsins í  Stuttgart á Richard Wagner tónlistarhátíðinni í Bayreuth í Þýskalandi.

Þóra Kristín Gunnarsdóttir  lauk mastersgráðu í píanókennslu og píanóleik, með samspil sem aukagrein, frá háskólanum í Luzern árið 2017 og hlaut hæstu einkunn fyrir lokatónleika sína. Kennari hennar í Luzern var Yvonne Lang en haustið 2017 hóf hún nám í samspili og meðleik við listaháskólann í Zürich, þar sem hennar aðalkennari er píanóleikarinn Friedemann Rieger. Í Zürich sækir Þóra einnig tíma hjá öðrum kennurum, m.a. Eckart Heiligers, píanóleikara í Trio Jean Paul.  Auk námsins í Sviss sækir hún Masterclass-námskeið í einleik, ljóðaundirleik og kammertónlist. Samhliða náminu sinnir Þóra píanókennslu og kemur fram á tónleikum með hinum ýmsu söngvurum og hljóðfæraleikurum.

Aðgangseyrir er kr. 3.000, 2.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, ókeypis fyrir nemendur og gesti 20 ára og yngri. Miðar á tix.is og við innganginn. Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið.

Um tónleikaröðina

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum.

Kauptu miða