HÖNNUNARMARS: Lúpína í nýju ljósi


10:00-21:00
Gróðurhús
Aðgangur ókeypis

Lúpína í nýju ljósi : trefjaefni framtíðar

Efnasmiðjan kynnir verkefnið Lúpína í nýju ljósi – trefjaefni framtíðar, sem hefur það að markmiði að þróa umhverfisvænt trefjaefni úr alaskalúpínu, fyrir t.d. umbúðir og byggingarefni.

Á alþjóða vísu er mikið horft til þess að við jarðarbúar tileinkum okkur sjálfbærni á öllum sviðum. Ein hlið sjálfbærni er að nýta auðlindir á sjálfbæra vegu, með því móti að skila afurðum þeirra aftur í hringrás náttúrunnar án þess að það hafi skaðleg áhrif á jörðina. Alaskalúpína er vannýtt, sjálfbær auðlind sem vex í stórum breiðum víða á Íslandi, lífmassi plöntunnar getur verið allt að 7-9 tonn af þurru hráefni á hektara á ári. Hún dafnar vel við íslenskar aðstæður og þarfnast ekki áburðargjafar né innflutnings á fræi. Auk þess getur hún grætt upp rýrt land og auðgað með því móti jarðveg, af næringarefnum fyrir aðrar tegundir jurta og trjáa. Alaskalúpína er nú skilgreind sem ágeng tegund á Íslandi og það er óheimilt að dreifa henni.

Verkefnið er drifið áfram af þeirri hugsjón að geta fært fram trefjaefni sem er umhverfisvænt, með lágt kolefnisspor og að efnið geti brotnað auðveldlega niður í náttúrunni án þess að menga hana. Hugmyndin er að slíkt trefjaefni geti bæði hentað í umbúðir og byggingarefni.

Verkefnið hefur verið starfrækt frá sumrinu 2017 og gengur út á rannsóknir og þróun á trefjaefni úr alaskalúpínu, ásamt því að þróa uppskeru- og forvinnsluaðferðir á plöntunni. Markmiðið er að nýta niðurstöðurnar  til áframhaldandiþróunar á umhverfisvænu trefjaefni.

Undanfarin ár hefur verkefnið verið unnið í samstarfi við Matís til að prófa mismunandi  niðurbrotsaðferðir við vinnslu trefjaefnisins og gera efna- og áferðamælingar á því. Einnig voru gerðar prófanir á trefjaefninu á sviði byggingarefna í samstarfi við Tæknisetur. Niðurstöður verkefnisins sýna að trefjaefnið  kom vel út úr flestum prófunum. A.m.k. ein tegund trefjaefnis, sem unnin var í verkefninu, getur talist örugg í snertingu við matvæli (e. food safe). Markmiðið er að trefjaefnið og vinnsla þess, allt frá hráefnisöflun til lokaframleiðslu, hafi lágt vistspor og efnið geti brotnað auðveldlega niður í náttúrunni án þess að menga hana.

Á Hönnunarmars dagana 3.-5. maí 2023, mun Efnasmiðjan sem starfrækt er af vöruhönnuðunum Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur og Elínu S. Harðardóttur miðla verkefninu í gróðurhúsinu við Norræna húsið.