Aðlögun flóttafólks og innflytjenda: Greining á umbótatækifærum


9 - 11

 

Kynnt verður ný skýrsla Alþjóðamálastofnunar, sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, þar sem þjónusta við flóttafólk og innflytjendur er greind. Fundurinn er opinn öllum.

Hvað finnst flóttafólkinu sjálfu um þann stuðning og þjónustu sem það fékk þegar það kom til landsins? Hvaða áskoranir og möguleikar eru fyrir hendi að mati sérfræðinga sem vinna dagsdaglega við aðlögun flóttafólks? Hvernig taka nágrannalönd okkar á móti flóttafólki? Auk þess að leita svara við þessum spurningum voru skoðaðir möguleikar á umbótum á málefnum útlendinga og innflytjenda almennt með það í huga að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Greiningin á rætur að rekja til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá mars 2015 þar sem bent er á ýmis atriði sem þarfnast endurskoðunar til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og almennt skipulag þegar kemur að málefnum flóttafólks og innflytjenda hér á landi.

 

Dagskrá:

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnar fundinn.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, flytur opnunarávarp.

Bylgja Árnadóttir og Ásdís A. Arnaldsdóttir, verkefnisstjórar Félagsvísindastofnunar, kynna helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal flóttafólks á Íslandi og rýnihóparannsókn.

Auður Birna Stefánsdóttir, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun, kynnir niðurstöður úr eigindlegri rannsókn á umbótatækifærum í þjónustu við flóttafólk frá sjónarhóli sérfræðinga sveitarfélaga og Rauða kross Íslands.

Erna Krístín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði og framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun, kynna tillögur að umbótum til að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, flytur lokaávarp.

 

Boðið verðu upp á léttar kaffiveitingar fyrir fundinn.