Hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs veitt í Kaupmannahöfn

Vinnare av Nordiska rådets prsier 201 Foto: Magnus Fröderberg/norden.org
Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Katarina Frostenson, Hans Abrahamsen, Joachim Trier, Eskil Vogt, Thomas Robsahm, Arnar Már Arngrímsson og smáforritið „Too Good To Go“ tóku við verðlaunum Norðurlandaráðs í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Katarina Frostenson hlaut bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Sånger och formler. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.: „Í ljóðum hennar – sem eru sveigjanleg, þrátt fyrir stranga uppbyggingu – eiga stöðugar breytingar sér stað, og í þeim kristallast hið margþætta undur lífsins.“
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs
Daninn Hans Abrahamsen tók við tónlistarverðlaununum fyrir söngbálkinn „Let Me Tell You“. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.: „Tilfinningaleg tjáning í verkinu er stórkostlega margbrotin, nákvæm og sterk, einkum í langa söngnum í lokin (líkt og í „Das Lied von der Erde“ eftir Mahler), þar sem hinir mörgu þættir verksins koma saman í heildstæða hugmynd.“
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs
Norski kvikmyndaleikstjórinn og handritshöfudurinn Joachim Trier, handritshöfundurinn Eskil Vogt og framleiðandinn Thomas Robsahm hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndina Louder Than Bombs á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Joachim Trier hefur unnið listrænt afrek ásamt teymi sínu þar sem frásagnarlistin nær nýjum hæðum. Flókin uppbygging kvikmyndarinnar, tilfinningaleg dýpt og hæfileiki til að tæta í sundur klisjur ætti að tryggja henni sess á námskrá kvikmyndaskóla um allan heim.“
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Arnar Már Arngrímsson hlaut verðlaunin fyrir bókina Sölvasaga unglings. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Höfundi tekst í þessari fyrstu bók sinni að búa til persónu sem er áhugaverð, fyndin, óþolandi, leitandi og heillandi. Tungutak sögunnar er lífleg blanda af unglingamáli og ritmáli eldri kynslóðarinnar og þar rekast á menningarheimar.“
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs
Danarnir Stian Olesen og Klaus B. Pedersen hlutu umhverfisverðlaunin fyrir smáforritið „Too Good To Go“. „Too Good To Go“ hlýtur tilnefningu sem nýskapandi stafræn þjónusta sem stuðlar að því á einfaldan og aðgengilegan hátt að breyta viðhorfum neytenda og verslunarrekenda til matarsóunar og auðlindanýtingar,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins (DR) í Kaupmannahöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Nánar