Dagur Norðurlanda 23. mars – fjölbreyttir viðburðir út vikuna tengdir norrænni menningu

Dagur Norðurlanda er haldinn hátíðlegur 23. mars ár hvert til að fagna norrænu samstarfi og benda á mikilvægi þess. Í tilefni dagsins í ár býður Norræna húsið upp á fjölbreytta dagskrá út vikuna. Varpað verður ljósi á norræna menningu og norrænan lífsstíl með umræðum, tónleikum, mat, barna- og unglingabókmenntum, ljósmyndakeppni o.fl. Dagskráin er haldin í samstarfi við aðila á borð við Norræna félagið á Íslandi, norræn sendiráð og sendinefndir á Íslandi.

Á deginum sjálfum verða umræður um mikilvægi menningar á Norðurlöndum á kórónuveirutímum með fjölda þátttakenda úr röðum norrænna listamanna, almennings og stjórnmálafólks, boðið verður upp á norrænt bakkelsi í kaffihúsinu MATR og nemendur í 6. bekk fá lifandi fræðslu um dægurmenningu og tungumál í hinum Norðurlöndunum. Á laugardeginum er vinnusmiðja fyrir börn út frá nýrri finnskri barnabók og á laugardagskvöldið verða tónleikar í Norræna húsinu og streymi með danska tónlistarmanninum Tue West og tónlistarkonunni GDRN. Keppt verður um vinsælustu myndirnar sem endurspegla norrænt líf undir myllumerkjunum #dagurnorðurlanda og #nordicdayiceland.

Helstu viðburðir

Ljósmyndakeppnin «norrænt líf»
Til laugardagins 27. mars kl. 15
Keppt verður um vinsælustu myndirnar sem endurspegla norrænt líf undir myllumerkjunum #dagurnorðurlanda og #nordicdayiceland

Hornsteinn eða hornreka? Umræður um virði menningar á Norðurlöndum á krepputímum. Norrænt menningarsamstarf í fortíð, nútíð og framtíð.
Þriðjudaginn 23. mars kl. 17.00-18.15 í streymi

Hvaða hlutverki hefur menningin gegnt í norrænu samstarfi þá hálfu öld sem liðin er frá stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar?
Hvaða áhrif hefur kórónuveirufaraldurinn haft á norrænt menningarlíf?
Hvaða hlutverki mun menningin gegna í norrænu samstarfi í framtíðinni?
Þessum spurningum verður velt upp í umræðum norrænna listamanna, íbúa og stjórnmálafólks. Umræðurnar fara fram á skandínavísku. Meðal þátttakenda:
– Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri
– Aldís Mjöll Geirsdóttir, forseti Norðurlandaráðs æskunnar
– Tue West, danskur tónlistarmaður
– Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og stjórnarmaður í Norræna menningarsjóðnum
– Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda
– Ann-Sofie Stude, sendiherra Finna á Íslandi
Nánari upplýsingar og hlekkur á streymi

Lifandi fræðsla fyrir 6. bekkinga um dægurmenningu og tungumál í hinum Norðurlöndunum
Þriðjudaginn 23. mars kl. 10-12
Nemendur í 6. bekk Hólabrekkuskóla, sem er vinaskóli Norræna hússins, fá lifandi fræðslu um dægurmenningu og tungumál í hinum Norðurlöndunum. Fræðslan verður í höndum starfsnema Norræna hússins, norrænna sendiráða og sendiskrifstofa á Íslandi. Heimsóknin endar á spurningakeppni á milli nemendanna um Norðurlöndin. Markmið vinaskólaverkefnisins er að gefa nemendum færi á menningarlæsi sem nær út fyrir landsteinana.

Tilnefningar til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir kynntar
Fimmtudaginn 25. mars kl. 10.30-11.30
Tilnefningarnar kynntar í sal Norræna hússins að viðstöddum barnahópi ásamt fulltrúum dómnefndar og tilnefndra.

Vinnustofa fyrir börn – skapaðu þína eigin tálknamöndru
Laugardaginn 27. mars kl. 13-15
Vinnustofa byggð á nýrri bók finnska rithöfundarins Lindu Bondestam sem fjallar um ævintýri einmana tálknamöndru. Í gegnum ferðalag tálknamöndrunar verða áhrif mannsins á jörðina sýnileg og hægt er að sjá fyrir sér hugsanlega framtíð mannkyns. Mismunandi efni eru notuð til að skapa bæði tálknamöndru og heimili þeirra þar sem ímyndunaraflið ræður för. Skráning nauðsynleg á hrafnhildur@nordichouse.is.

Linda Bondestam er margverðlaunaður myndskreytir en hún er höfundur bókarinnar og sýningarinnar um Eggið sem stendur yfir í Norræna húsinu. Nánari upplýsingar um sýninguna.

Tónleikar Tue West og GDRN
Laugardaginn 27. mars kl. 20
Danski tónlistarmaðurinn Tue West og íslenska tónlistarkonan GDRN koma fram á tónleikum í sal Norræna hússins sem verður jafnframt streymt. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við danska sendiráðið og sendinefnd Evrópusambandsins. Miðar á tónleikana fást á tix.is á 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nema.
Nánari upplýsingar.

Sögustundir fyrir börn
Laugardag og sunnudag 27. og 28. mars
Sögustundir með upplestri á skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur.
Laugardag kl. 12 á norsku, sunnudag kl. 11 á íslensku, kl. 12.30 á sænsku, kl. 14 á finnsku og kl. 15.30 á dönsku.

Norrænt bakkelsi á boðstólum kaffihússins MATR
Þriðjudag til föstudags kl. 12-16
Kaffihúsið MATR í Norræna húsinu verður með norrænt bakkelsi á boðstólum auk sinna hefbundnu veitinga af ýmsu tagi.