Alþjóðasamvinna á krossgötum – kall eftir ágripum

Hvert stefnir Ísland?

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Félag stjórnmálafræðinga og Norðurlönd í fókus kalla eftir ágripum að erindum fyrir ráðstefnu sem haldin verður miðvikudaginn 19. apríl næstkomandi.

Ráðstefnunni er ætlað að velta upp spurningum tengdum breyttu valdajafnvægi í heiminum og stöðu lítilla ríkja í alþjóðakerfinu í dag. Hvaða áhrif hefur breytt valdajafnvægi á smáríki á norðurslóðum, möguleika þeirra til áhrifa í alþjóðakerfinu og samstarf ríkja innan alþjóðastofnana?

Þurfa smáríki í dag að endurskoða hvernig þau tryggja öryggi sitt og móta stefnu í utanríkismálum? Á þessari ráðstefnu verður fjallað sérstaklega um nokkra málaflokka sem hafa verið mikið í umræðunni og eiga það sameiginlegt að fela í sér hnattrænar áskoranir sem krefjast aukins alþjóðlegs samstarfs.

Kallað er eftir ágripum sem falla undir eitt eða fleiri af eftirfarandi þemum:

  • Hatursorðræða, lýðskrum og sundrung
  • Friður og öryggi
  • Mannréttindi og jafnréttismál
  • Loftslagsbreytingar og fólksflutningar á norðurslóðum

Alþjóðakerfið einkennist af talsverðri óvissu um þessar mundir og ríki heims standa frammi fyrir stærri og erfiðari áskorunum en þau hafa þurft að glíma við lengi. Stór ríki hafa í auknum mæli hundsað alþjóðastofnanir og alþjóðasamninga sem hafa verið grundvöllurinn að regluverki alþjóðasamfélagsins. Í nýlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum, og þar á undan þegar kosið var um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, höfum við séð í vaxandi mæli alið á sundrungu þar sem orðræðan hefur skapað gjá á milli ólíkra hópa. Á sama tíma og við sjáum valdamikil ríki sýna einangrunartilburði stöndum við frammi fyrir gríðarlegum áskorunum sem krefjast samvinnu ríkja og leiða af sér aðrar alþjóðlegar áskoranir. Loftslagsbreytingar eru þar á meðal en áhrif þeirra eru ólík eftir svæðum. Á meðan ríki á suðlægari slóðum upplifa til dæmis mikla þurrka og uppskerubresti má til skamms tíma sjá tækifæri hér í norðri sem eru til að mynda tengd landbúnaði, nýtingu náttúruauðlinda og ferðamennsku. Flest ríki og samfélög á norðurslóðum eru friðsæl, byggja á öflugu velferðarkerfi og fjölmörgum tækifærum fyrir fólk til að búa sér gott líf. Þetta hefur ákveðið aðdráttarafl og fjöldi fólks kemur á svæðið, jafnt flóttafólk sem ferðamenn, og fólk í leit að atvinnutækifærum.

Þrátt fyrir vaxandi áskoranir á heimsvísu hefur samstarf ríkja á norðurslóðum einkennst af góðum samskiptum. Norðurskautsráðið hefur verið einn helsti samstarfsvettvangurinn og Ísland tekur við formennsku þess árið 2019. Fyrir smáríki á borð við Ísland er þar um afar stórt verkefni að ræða og er undirbúningur þegar hafinn. Í því samhengi er mikilvægt að fræðasamfélagið ásamt stjórnsýslunni og hagsmunaaðilum leggist á eitt um að leysa það vel úr hendi.

Áhugasömum fræðimönnum og fagaðilum er boðið að senda inn ágrip að hámarki 200 orð að tillögu að um það bil 15 mínútna erindi. Ágripið skal innihalda stutta lýsingu á viðfangsefni og/eða markmiði erindisins og helstu niðurstöðum og lærdómi. Ágripin verða birt á heimasíðu Alþjóðamálastofnunar og nýtt í tengslum við kynningu á ráðstefnunni. Skilafrestur ágripa og tillagna að málstofum er sunnudagurinn 12. mars næstkomandi.

Dagskrárnefnd ráðstefnunnar fer yfir þau ágrip sem berast og velur erindi.

Tilkynnt verður um samþykkt erindi föstudaginn 17. mars 2017. Vinsamlegast skilið ágripum og stuttri ferilskrá (hámark ein bls.) rafrænt til: Margrétar Cela, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands:  mcela@hi.is

Frekari upplýsingar veita Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, ams@hi.is og Margrét Cela.