Wagnerfélagið kynnir: Fegurð fjarlægs óms


13:00

Fegurð fjarlægs óms: Um óperutónlist Schrekers og Zemlinsky

Í þessu erindi verður fjallað um ævi og verk tveggja óperutónskálda frá öndverðri 20. öld, þeirra Franz Schreker (1878–1934) og Alexanders Zemlinsky (1871–1942). Schreker var á sínum tíma hampað sem helsta eftirmanni Wagners og naut álíka mikilla vinsælda og Richard Strauss. En þótt hann hafi óhjákvæmilega verið undir áhrifum frá Wagner náði hann snemma að þróa sitt einstaka tónmál. Zemlinsky var einkum þekktur sem hljómsveitarstjóri en samdi þó áhrifamikil verk sem jafnan voru sprottin úr persónulegri reynslu hans. Lengi vel voru óperur þeirra beggja afgreiddar sem gamaldags í samanburði við verk framúrstefnusinnaðri samtíðarmanna þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa þær þó notið vaxandi vinsælda og þykja nú eiga erindi við samtímann sem sígild listaverk.
Að erindinu loknu verður sýnd ópera Zemlinsky, Dvergurinn (Der Zwerg) frá 1922, en hún er byggð á smásögu Oscars Wilde The Birthday of the Infanta. Undir fögru yfirborði síðrómantískrar tónlistarinnar þykir tónskáldið þar einkum draga upp gráglettnislega mynd af sjálfum sér. Upptakan er frá óperunni í Los Angeles og gerð 2008. Stjórnandi: James Conlon. Sýningartími er um einn og hálfur tími.

Egill Arnarson lagði stund á heimspeki, sögu og latínu og starfar nú sem ritstjóri við Háskólaútgáfuna.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis