Varðberg – NATO‘s Strategic Challenges in the High North


12:00 - 13:00

Sir Stuart Peach flugmarskálkur og formaður hermálanefndar NATO verður ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs í Norræna húsinu mánudaginn 11. nóvember frá 12.00 til 13.00. Erindi hans ber fyrirsögnina:

Strategískar áskoranir NATO á norðurslóðum
NATO‘s Strategic Challenges in the High North

 

Hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins (e. NATO Military Committee) er mikilvægasta nefndin í varnarmálaarmi bandalagsins enda ráðleggur hún Atlantshafsráðinu (e. North Atlantic Council) um öryggismál. Í ráðinu sitja fastafulltrúar aðildarríkjanna eða leiðtogar þeirra. Þar eru teknar ákvarðanir um málefni bandalagsins. Hermálanefndin hefur líka umsjón með herstjórnum bandalagsins. Á fundi Varðbergs þann 11. nóvember mun Stuart Peach formaður hermálanefndarinnar fjalla um verkefni hennar og horfur í öryggismálum.
Stuart Peach er fæddur árið 1956 í Bretlandi. Hann gekk í flugherinn (e. Royal Air Force (RAF)) árið 1977. Hann gegndi stjórnunarstöðum fyrir RAF víða um heim. Á árunum 2000 – 2003 var hann yfirmaður rannsóknarseturs á vegum RAF sem á ensku kallast Air Warfare Centre. Næstu þrjú ár starfaði hann í varnarmálaráðuneytinu þar sem hann hafði umsjón með upplýsingaöflun um andstæðinga Bretlands (e. Director General Intelligence Collection). Hann hélt áfram á þeirri braut árið 2006 en þá tók hann við stöðu sem Bretar nefna Chief of Defence Intelligence. Samhliða því starfi var hann varaformaður samráðsnefndar um njósnastarfsemi (e. Joint Intelligence Committee). Stuart gegndi þessum stöðum til 2009 en þá tók hann við yfirstjórn breska heraflans í Afganistan, Írak og Líbíu. Síðan var hann gerður að yfirmanni samhæfingarmiðstöðvar breska heraflans (e. Joint Forces Command). Hann var skipaður í embættið í desember 2011 og gegndi stöðunni til apríl 2013. Stuart Peach var næst æðsti yfirmaður breska heraflans á árunum 2013 – 2016 en á ensku kallast staðan Deputy Chief of the Defence Staff. Frá 2016 – 2018 var hann síðan yfirmaður heraflans. Í júlí 2018 tók hann við embætti formanns hermálanefndar NATO.
Streymt verður frá fundinum.