Stríðsárin 1938-1945 – Kvöldstund með Páli Baldvini


20:00

Stríðsárin 1938-1945 – Kvöldstund með Páli Baldvini í Norræna húsinu

Páll Baldvin Baldvinsson, höfundur stórvirkisins Stríðsárin 1938-1945, segir frá bók sinni í fyrirlestrasal Norræna hússins, miðvikudaginn 9. desember. Páll sýnir brot af hinum fjölmörgu myndum sem prýða bókina og fræðir gesti um þetta mesta breytingarskeið Íslandssögunnar.

Viðburðurinn hefst kl. 20:00 og  fer fram á íslensku. Ókeypis aðgangur.

Í Stríðsárunum er Ísland fært inn á landakort heimsstyrjaldarinnar síðari og sýnt hvernig það varð órofa hluti af hildarleiknum sem fram fór um víða veröld – og ekki síst á hafinu kringum landið. Grimmd, lífsþorsti, hetjudáðir og hryllingur stríðsátakanna er dreginn fram í fjölda frásagna, fréttaskeyta, leyniskjala, dagbóka og minningabrota, auk þess sem verkið geymir aragrúa ljósmynda, innlendra og erlendra, sem margar koma nú í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir.

Páll Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðingur og menningarrýnir, hefur um árabil haft brennandi áhuga á þessu einstæða tímabili í sögu þjóðarinnar. Verkið er afrakstur gríðarlega umfangsmikillar vinnu hans við söfnun ljósmynda, endurminninga og annarra heimilda um stríðsárin.