Sigurðar Nordals fyrirlestur


17:00

Sigurðar Nordals fyrirlestur

Norræna húsinu, 14. sept. 2018, kl. 17.00

Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytur opinberan fyrirlestur í Norræna húsinu, föstudaginn 14. september nk., kl. 17.00, á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals. Fyrirlesturinn nefnist:  „Islande est peu connue“:  Stórveldin sækja Ísland heim. Samskipti Frakka og Breta við Ísland á 18. öld.

Á 18. öld áttu Frakkar og Bretar í nýlendukapphlaupi um heim allan og sendu í því skyni könnunarleiðangra á afskekktar slóðir, þar á meðal til Íslands. Undir lok aldarinnar komu einnig vísindaleiðangrar frá báðum stórveldunum til landsins, án þess að vita hvor um annan. Frakkar áttu meiri hagsmuna að gæta við Íslandsstrendur en keppinautar þeirra. Bretar, sem áttu eftir að drottna á Norður-Atlantshafi, tóku Ísland undir verndarvæng sinn skömmu síðar meðan Napóleonsstyrjaldir geisuðu. Í skjalakistum Parísar leynast bréfaskipti milli konunganna og mörg önnur gögn sem fjalla m.a. um vandamál tengd launverslun Frakka og ráðagerðum þeirra um að Danir láti Ísland í té í skiptum fyrir Louisiana. Í hvaða tilgangi sóttu stórveldin Ísland heim? Hvað fannst þeim um byltinguna 1809? Í erindinu verður leitast við að svara þessum spurningum og fleirum. Höfuðáhersla verður þó lögð á frönsk-íslensk samskipti.

Anna Agnarsdóttir lauk BA (Hons.)-prófi í sagnfræði frá University of Sussex árið 1970 og BA-prófi í Íslandssögu frá Háskóla Íslands 1972. Hún lauk doktorsprófi í alþjóðasagnfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1989. Fjallaði doktorsritgerð hennar um samband Stór-Bretlands og Ísland á árunum 1800–1820. Anna hefur kennt sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1980, síðast sem prófessor og var fyrst kvenna til að gegna prófessorstöðu við skólann í þeirri grein. Hún var forseti hugvísindadeildar Háskólans á árunum 2002-2004. Anna var forseti Sögufélagsins fyrst kvenna á árunum 2005–2011 og hefur sinnt ýmsum störfum við ritstjórn og útgáfu á vegum þess. Anna var gerð að heiðursfélaga Sögufélagsins 2017.

Rannsóknir Önnu eru á sviði alþjóðasögu og fjalla einkum um samskipta Íslands og annarra landa. Hefur hún skrifað fjölda greina um þetta efni í innlend og erlend fræðirit. Viðamesta rannsókn hennar lýtur að skjölum náttúrufræðingsins Sir Josephs Banks sem gefin voru út hjá The Hakluyt Society í London árið 2016, Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic 1772–1820.  Journals, Letters and Documents. Ritið er safn frumheimilda sem eins og titillinn ber með varða samskipti  Sir Joseph Banks við Ísland, Færeyjar og Grænland, hjálendur Dana í Atlantshafi, á tímabilinu 1772-1820.

 

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Allir eru velkomnir.

 

(Frétt frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum)