Out by Art: Sex ný vídjóverk – List án landamæra


19:00-20:30

Out by Art kynnir sex ný vídjóverk eftir sex norræna listamenn.

Aðgangur er ókeypis. Viðburðurinn er partur af List án landamæra. Viðburðurinn er á facebook hér.

Við ættum ekki að segja fólk með sérstakar þarfir heldur fólk með sérstaka hæfileika” – David Viborg Jensen, GAIA

Hvað þýðir það að vera listamaður sem aðrir skilgreina utan normsins? Fimm ný vídjóverk sem fjalla þetta verða sýnd í salnum Norræna hússins 4. maí kl. 19.00. Verkin eru eftir fimm norræna listamenn, þá Aleksi Pietikäinen, Birkir Sigurðsson, David Viborg Jensen, Hugo Karlsson og Niko Liikanen.

Beint á eftir vídjóverkunum verður sýnd heimildarmynd eftir Marianne Schmidt um gerð verkanna og hvernig það er þegar umheimurinn vill skilgreina þig á ákveðin hátt. Marianne gerir heimildarmyndina út frá sinni eigin upplifun af heiminum og varpar myndin fram áleitnum spurningum um þörf samfélagsins til þess að móta alla í sama box.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listrænn stjórnandi List án landmæra og leiðbeinandi í verkefninu, mun kynna myndirnar og svara spurningum að sýningu lokinni.

Myndirnar eru unnar í norrænu samstarfi sem hófst fyrir um ári síðan. Flestir listamannanna hafa ekki nýtt sér kvikmyndamiðilinn að miklu leiti í listsköpun sinni áður. Kvikmyndirnar hafa því opnað á nýjan miðil fyrir þá flesta. Myndirnar eru allar persónulegar og varpa fram þeirri spurningu af hverju við skilgreinum suma listamenn sem utangarðs listamenn en aðra sem innangarðs listamenn. Er í raun og veru einhver munur þar á?

Out By Art er norrænt samstarfsverkefni sem staðið hefur í tæpt ár. Allir þátttakendur tilheyra stöðum sem eru meðlimir í norræna samstarfsnetinu Nordic Outsider Art (NOA). NOA var stofnað árið 2015. Í dag eru aðildarfélögin fimm frá fjórum norrænum löndum. NOA er ætlað að styrkja stöðu fatlaðra listamanna á Norðurlöndunum, auka á tækifæri þeirra til listþátttöku og vinna þar með að menningarlegu jafnrétti.

Myndirnar voru frumsýndar í lok apríl á Nýlistasafninu í Stokkhólmi. Þann 6. maí nk. verða þær sýndar á árlegri ráðstefnu EOA, European Outsider Art Association í Bretlandi.

„Við erum ekki alltaf eins og allir aðrir, en við erum manneskjur með ólíka styrkleika og hæfileika. Að sumu leiti erum við lík og að sumu leiti erum við mjög ólík. Rétt eins og allir aðrir“ Hugo Karlsson og Marianne Schmidt frá Inuti.

Listamenninir eru:
Aleksi Pietikäinen frá Kaarisilta stúdíóinu í Finnlandi
Birkir Sigurðsson frá List án landamæra á Íslandi
David Viborg Jensen frá GAIA stúdíóinu í Danmörku
Hugo Karlsson frá Inuti stúdíóinu í Svíþjóð
Marianne Schmidt, höfundur heimildarmyndar, frá Inuti stúdíóinu í Svíþjóð
Niko Liikanen frá Kettuki stúdíóinu í Finnlandi

Verkefnastjórar Out By Art voru Sven Blume, Lotte Nilsson-Välimaa og Marianne Schmidt

Aðgengi að Norræna húsinu er gott, bílastæði er nálægt og aðgengilegt salerni er á sömu hæð og salurinn.