Opnað fyrir umsóknir í Snjallræði


12-13:30

Föstudaginn 9. ágúst kl. 12-13:30 opnum við fyrir umsóknir í Snjallræði 2019

Opnað fyrir umsóknir í Snjallræði, fyrsta íslenski viðskiptahraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun sem hóf göngu sína sl. haust!

Í ár verður boðið upp á sprett fyrstu viku hraðalsins með Svöfu Grönfeldt og samstarfsfélögum hennar frá MIT DesignX. Á viku tímabili fá teymin að kynnast nýjustu nálgunum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Þau munu öðlast tækifæri til þess að sannreyna eigin hugmyndir og kryfja þær til mergjar í krefjandi vinnustofum sem byggðar verða á fjórum grunnstoðum MIT DesignX, Understand – Solve – Envision – Scale.

Átta framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar verða valin til þátttöku og fá þau vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Á átta vikna tímabili, í október og nóvember 2019, fá aðstandendur verkefnanna fjárhagslegan stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups standa að Snjallræði en framkvæmd hraðalsins er í höndum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

www.snjallraedi.is