Nordik ráðstefnan

Nordik ráðstefnan er nú í fyrsta sinn haldin á Íslandi.


Dagana 13. – 16. maí 2015 verður haldin alþjóðleg ráðstefna í Norræna húsinu í Reykjavík á sviði listfræðarannsókna. Ráðstefnan er haldin af Norrænu listfræðanefndinni en í henni eiga sæti fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum. Ráðstefnan er sú ellefta í röðinni og ber heitið NORDIK XI, en rúm 30 ár eru frá því að fyrsta NORDIK listfræðiráðstefnan var haldin.
NORDIK ráðstefnurnar hafa verið haldnar á þriggja ára fresti á Norðurlöndunum. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar bjóða til ráðstefnunnar. Yfirskrift ráðstefnunnar er Mapping Uncharted territories (Kortlagning ókannaðra svæða). Þar verða kynntar alþjóðlegar rannsóknir og verkefni á sviði norrænnar lista- og hönnunarsögu og sérstaklega horft til jaðarsvæða, en sífellt færist meiri þungi listfræðirannsókna til staða sem liggja utan miðju stórborga eða kerfisbundinna miðstöðva menningarlífsins, sem hingað til hefur gjarnan verið viðmið alls.

Markmið ráðstefnunnar er einnig að beina augum fræðimanna á sviði listfræða til Íslands og skapa vettvang hér á landi fyrir sívaxandi hóp íslenskra nemenda og fræðimanna til að tengjast erlendum kollegum. Ráðstefnan verður haldin í húsakynnum Háskóla Íslands og í Norræna húsinu og er fjöldi þáttakenda áætlaður um 200-250 manns.

Þrír fyrirlesarar hafa þegið boð um að koma til Íslands og halda meginerindi, það eru þau Gavin Jantjes myndlistarmaður og sýningarstjóri, Elaine O‘Brien prófessor við Sacramento Háskólann í Kaliforníu og Terry Smith prófessor við Háskólann í Pittsburg. 40 málstofur munu fjalla um fjölbreytt rannsóknarefni sem skoða má á heimasíðu NORDIK listfræðihreyfingarinnar.

Skráning á ráðstefnuna er að finna á: nordicarthistory.org

Verð til 20. mars næstkomandi: 17.000 ISK (12.000 ISK fyrir nemendur)

Verð eftir 20. mars 25.000 ISK (17.000 ISK fyrir nemendur)