Myndlist í anddyrinu – „Síðustu forvöð að sjá“


Málverkasýningin „Síðustu forvöð að sjá“ eftir Berglindi Svavarsdóttur opnar í Norræna húsinu 14. juní 2018.

Nýjustu verk Berglindar Svavarsdóttur eru unnin með vatnslitum og akríllitum á pappír og á striga. Þau sækja innblástur sinn annars vegar af því sem fyrir augu ber í daglegu lífi og hins vegar af ímynduðu umhverfi sem á rætur sínar að rekja til bókmennta og ævintýra. Þrátt fyrir að hvert verk sé saga út af fyrir sig, þá deila þau sameiginlegum grunni sem blandar algengum þáttum samfélags okkar tíma- viljan til að birtast og berast á – við draumkennda og náttúrulega veröld. Í þessum verkum á sér stað samruni tveggja heima, þess raunverulega og hins ímyndaða, þar sem mörkin milli draums og veruleika hafa máðst út.

Náttúran birtist hér í formi plantna, fugla og dýra. Mörg þeirra eru í útrýmingarhættu og sum hver eru endanlega horfin en titillinn á sýningunni vill einmitt minna okkur á að það eru síðustu forvöð að sjá þau áður en það verður um seinan.

Um listamanninnn

Berglind Svavarsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk eftir það BA og MA námi í myndlist frá Accademia di Belle Arti di Brera í Milano á Ítalíu þar sem hún hefur búið og unnið síðan. Hún hefur haldið og tekið þátt í sýningum bæði á Íslandi og á Ítalíu en sýningin í Norræna húsinu er fyrsta einkasýning hennar á Íslandi.

Facebook síða Berglindar

Hafa samband: berglind@tiscali.it

Berglind Svavarsdóttir