Listasýning Dimmalimm – List án landamæra


Þessi sýning er partur af List án landamæra og er á facebook hér.

Sýningin opnar 4. maí kl. 18:00 í barnabókasafninu Norræna hússins. 

Halldóra Sigríður Bjarnadóttir hreifst af röð verka sem Ísak Óli Sævarsson málaði og eiga það öll sameiginlegt að vera innblásin af sögunni um Dimmalimm eftir Mugg. Verkin eru björt og fögur og í þeim er mikill leikur. Úr varð hugmynd sem ól af sér handprjónaðan barnafatnað úr íslenskri ull. Halldóra Sigríður hefur rýnt í verk Ísaks Óla og litgreint þau og þannig fengið litasögur fyrir sínar peysur.

Dimmalimm var fyrst sýnd á HönnunarMars þar sem sýningin fékk einstaklega góðar viðtökur.

Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Erla Dís Arnardóttir, textílhönnuður.

Við vekjum athygli á að á sama tíma opnar sýningin Skuntúrar og Ofurhetjur í Black Box. Klukkan 19:00 verður svo kvikmyndasýning á vegum List án landamæra á nýjum vídjóverkum eftir sex norræna listamenn í salnum á efri hæð Norræna hússins.

Ath! Aðgengi að barnadeild Bókasafnsins er ekki gott. Á opnun verður aðgengi fyrir þá sem nota hjólastól eða geta ekki notað tröppur í gegnum svarta kassann þar sem sýningin Skunktúrar og Ofurhetjur opnar. Á almennum opnunartíma þarf að biðja starfsmenn bókasafnsins að opna millihurð á milli barnadeildar og svarta kassans. Bílastæði eru nálægt og salerni er fyrir fatlaða á efri hæð hússins.

Sýningin er opin alla daga hátiðarinnar, 4. til 13. maí, frá kl. 10-17 nema miðvikudaga þá er opið til kl. 21. Aðgangur er ókeypis.