Heidi Strand

Ég er oft spurð að því hvort ég lifi af því sem ég geri en svar mitt er að ég lifi ekki af því heldur fyrir það


Náttúran er mér bæði hvatning og myndefni, auk þess sem ég sæki efniviðinn þangað. Ég vinn mest með kembda ull, jafnt íslenska sem erlenda.

Verk mín eru unnin með nálaþæfingu, votþæfingu og bróderístungu, auk þess sem ég nýti mér ásaum, bútasaum og vatteringu. Ég nota textilefni af ýmsu tagi og teikna með fríhendis saumi á saumavélina.

Verkin eru frá árunum 2004 til 2015 og myndefnið er sótt í íslenska náttúru og áhrif og breytingar manna.
Ég er oft spurð að því hve langan tíma hvert verk taki og svar mitt er fjórar til sex vinnuvikur yfir lengra tímabil og allt að þriggja mánaða vinna yfir þriggja ára tímabil.

Ég fæddist og ólst upp í Þrándheimi í Noregi en bjó nær öll mín fullorðinsár á Íslandi eða alls 37 ár.
Ég lauk prófi eftir tveggja ára nám í teikni-, forma- og litadeild í Elen Ofstad skóla í Þrándheimi, Teikningu 1 í Mími og Teikningu 2 í Myndlistarskóla Reykjavíkur.

Allt mitt líf hef ég skapað og mótað og afgangsgarnið hennar mömmu, hnappadósir eða efnisafgangar frænku voru mín gullnáma. Ekkert er skemmtilegra en að skapa og sjá verðmæti í því sem aðrir kæra sig kollótta um. Það kom sér vel á mögru árunum þegar ég saumaði föt á alla fjölskylduna og til heimilisins en samt gafst mér tími til að gera eitt og eitt ásaumsveggteppi, það fyrsta árið 1976. Og svo saumaði ég litskrúðug og hugmyndarík barnaföt sem ég seldi á markaðnum á Lækjartorgi.

Fyrsta sýningin mín var í Ásmundarsal árið 1982 en hann Matti minn gekk úr skugga um að ég gæti fengið salinn á leigu áður en hann kynnti hugmyndina fyrir mér.

Ég er honum þakklát fyrir að hafa sett hjólið af stað og enn snýst það. Um tíma var Þrándur í götu en nú veltur það á fullum hraða.

Ég er oft spurð að því hvort ég lifi af því sem ég geri en svar mitt er að ég lifi ekki af því heldur fyrir það