FJÖLSKYLDUSTUND: Hvalasmiðja


13:00 - 15:00
Salur
Aðgangur ókeypis

Verið velkomin á skemmtileg og fræðandi Hvalasmiðju!

Við munum kynnast mögnuðum aðlögunum hvala að hinu krefjandi búsvæði vatns og sjávar. Hvalir eru að mörgu leiti furðuleg spendýr sem hafa sagt skilið við fætur, hár og ýmsa aðra eiginleika spendýra en hafa þess í stað aðlagast sjávarumhverfinu á ótrúlegan hátt. Sú þróun hefur leitt af sér stærstu og þyngstu dýr jarðar, ofur djúpkafara og söngsnillinga svo fátt eitt sé nefnt. Í hvalavinnusmiðjunni fá gestir og gangandi að fræðast um hvali frá fjölbreyttum hliðum, svo sem að skoða og handfjatla hvalamuni, hlusta á þeirra mögnuðu hljóð, kynnast hlutverki þeirra í sjávarvistkerfum jarðar, æfa sig í vísindalegum aðferðum hvalafræðinganna, taka þátt í hvalaföndri, spreyta sig á hvalaspurningum og taka þátt í hugmyndavinnu um hvalaverndun.

Kennari smiðjunnar er Edda Elísabet Magnúsdóttir. Edda er sjávarlíffræðingur og með doktorspróf í vistfræði og atferli hvala. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði hún sönghegðun hnúfubaka við Íslandsstrendur og þann söngkúltúr hnúfubaka sem má finna í Norður Atlantshafinu. Auk þess stundar Edda rannsóknir á vistfræði hvala við strendur Íslands og leggur þar áherslu á fæðuöflun þeirra allt árið um kring, köfunarhegðun, veiðiaðferðir, félagshegðun og frjósemi. Edda er í viðbragðsteymi um hvali í neyð og tekur þátt í björgunaraðgerðum þegar hvali rekur lifandi á land. Edda er einnig lærður náttúruvísindakennari og starfar sem lektor í líffræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur verið ötul í vísindamiðlun til almennings, þá einna helst um hvali. Hún hefur meðal annars kennt til margra ára í Háskóla Ungafólksins og Háskólalestinni um líffræði hvala.

Smiðjan verður haldin í Elissa (salur) og þar er aðgengi gott. Aðgengileg og kynhlutlaus salerni eru á sömu hæð.