Bókmenntahátíð


Aðgangur ókeypis

Viðburðir í Norræna húsinu

Miðvikudagur 8. september

Barnadagskrá: Lesið og skrifað með Múmínálfunum

Múmínálfasýningin býður upp á gagnvirka leið til að kynnast stafrófinu um leið og farið er í skoðunarferð um hinn töfrandi Múmíndal. Saman geta börn og fullorðnir kynnt sér fígúrur og sögur úr Múmíndalnum og rætt tilfinningar eins og vonbrigði, sorg og ævintýraþrá. Hægt er að bóka leiðsögn fyrir leikskóla- og skólahópa með því að senda fyrirspurn á hrafnhildur@nordichouse.is. Sýningin er unnin í samvinnu við Moomin Characters og stendur frá 08.09.2021 til 30.01.2022. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

16:00: Read Hour: Ósýnilega barnið

Hver þekkir ekki Múmínálfana, ævintýrapersónurnar sem glatt hafa bæði börn og fullorðna í áraraðir? Í tilefni af Alþjóðlegum degi læsis þann 8. september bjóðum við ykkur á lestrarstund eða ReadHour að finnskri fyrirmynd þar sem lesið verður upp úr heillandi sögu Tove Jansson um Ósýnilega barnið. Saman förum við á slóðir Múmínálfanna og kynnumst hinni ósýnilegu Ninný, sem með hjálp Múmínfjölskyldunnar verður sýnileg á ný. Dagskráin hefst á samtali Gerðar Kristnýjar og Sophiu Jansson um Tove Jansson og Múmínálfana og að því loknu tekur við upplestur á sögu Jansson sem fram fer á hinum ýmsu tungumálum. Um lesturinn sjá þau Sophia Jansson, Gerður Kristný, Eliza Reid, Erling Kjærbo, Stein Olav Romslo, Halla Nosøe Poulsen og Ann-Sofie Stude og munu þau lesa til skiptis á ensku, íslensku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Viðburðurinn er partur af finnsku herferðinni Read Hour 2021 sem lesa má nánar um hér: ReadHour. Deilið ykkar lestrarupplifun og lestrarábendingum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ReadHour!

Fimmtudagur 9. september

11:00: Að skrifa sig frá sorg og missi

Patrik Svensson og Halla Þórlaug Óskarsdóttir. Stjórnandi: Björn Halldórsson.

Sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Patrik Svensson sló í gegn um heim allan með Álabókinni sem er bæði vísindaleg greining á álnum en líka ljóðræn og falleg minningabók um einstakt samband feðga og hvernig höfundur tekst á við föðurmissi. Halla Þórlaug vakti mikla athygli fyrir bókina Þagnarbindindi, brotakennda sögu sem fjallar á hispurslausan hátt um ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið. Stjórnandi umræðu er Björn Halldórsson, höfundur bókarinnar Stol sem kom út fyrr á þessu ári, en hún fjallar einmitt um sorg og föðurmissi.

12:00: Heima og heiman

Khaled Khalifa og Maó Alheimsdóttir. Stjórnandi: Gauti Kristmannsson.

Hér verður fjallað um merkingu hugtaksins heima. Viðfangsefnið verður sífellt flóknara, enda hafa aldrei í sögunni fleiri verið fjarri sínu heima. Eða hvað? Hver er merking þess að vera heima? Er heima ákveðinn staður? Og hvað gerist þegar staðurinn sem þú kallar heimili þitt breytist, og verður gjörólíkur því sem þú hefur þekkt? Mao Alheimsdóttir er af pólskum uppruna en býr og starfar á Íslandi, hér hefur hún valið sitt heima. Hún hlaut nýræktarstyrk fyrir bók sína Veðurfregnir og jarðarfarir sem væntanleg er til útgáfu. Khaled Khalifa býr og starfar í Sýrlandi. Hann hefur ákveðið að halda í heimili sitt í Damaskus, þrátt fyrir að borgin og landið allt sé langt frá því að vera það heimili sem hann ólst upp á. Gauti Kristmannsson stýrir umræðum.

13:00: Mörk skáldskapar og raunveruleika

Saša Stanišić og Vigdis Hjorth. Stjórnandi: Fríða Ísberg.

Hvar liggja mörkin á milli skáldskapar og raunveruleika? Hver er staða höfundarins gagnvart hinum óljósu mörkum ímyndunar og sannleika, fantasíu og staðreynda? Skáldsagan Arv og miljö er líklega þekktasta verk Vigdisar Hjorth og hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Í henni fjallar Hjorth um konu sem stendur í erfðadeilu við fjölskyldu sína og ofbeldi æskuára aðalpersónunnar. Sterklega er gefið í skyn að bókin sé að hluta til byggð á lífi höfundarins, en látið er liggja á milli hluta hversu langt það nær. Saša Stanišić vakti mikla athygli fyrir ferska nálgun, frumlega notkun tungumálsins og fjörlegan frásagnarhátt. Hann hefur meðal annars skrifað um eigin reynslu í skáldsögum sínum, um upplifun ungs drengs af Bosníustríðinu sem leitar skjóls í sögum og frásögnum. Fríða Ísberg stýrir umræðunum.

15:30: Sögueyjan Ísland í tíu ár: pallborð um íslenskar bókmenntir erlendis

Christopher MacLehose, Jurgen Boos, Regina Kammerer, Halldór Guðmundsson og Tina Flecken. Stjórnandi: Thomas Böhm. Kynnir: Stella Soffía Jóhannesdóttir.

Fyrir tíu árum síðan var Ísland heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt, stærstu bókasýningu í heimi. Verkefnið bar heitið Sögueyjan Ísland og vakti mikla athygli, bæði í Þýskalandi og á bókamessunni sjálfri. Við þetta tækifæri verður litið um öxl og rætt hvort, og þá hvernig, verkefnið gagnaðist íslenskum bókmenntum á erlendri grundu. Enn fremur verður rætt um framtíðarsýn Bókasýningarinnar í Frankfurt og gestalandsprógrammsins. Opnunarávarp flytur Christopher MacLehose, útgefandi hjá Mountain Leopard Press. Þátttakendur í umræðum er Juergen Boos forstjóri Bókasýningarinnar í Frankfurt, Regina Kammerer útgefandi hjá btb og Luchterhand í Þýskalandi, Tina Flecken þýðandi íslenskra bóka á þýsku og Halldór Guðmundsson sem stjórnaði heiðursþátttöku Íslands. Thomas Böhm blaðamaður og útgefandi stýrir umræðum. Kynnir er Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

Föstudagur 10. september

11:00: Lokuð samfélög: Barbara Demick fjallar um verk sín. Samtal við Þóru Arnórsdóttur.

Barbara Demick er margverðlaunaður bandarískur blaðamaður og rithöfundur sem er meðal annars þekkt fyrir greinar sínar um mannréttindamál og efnahags- og samfélagslegt umrót í Austur-Evrópu og Asíu. Demick hefur skrifað þrjár skáldsögur sem á einn eða annan hátt fást við hugmyndir um stríð og lokuð samfélög.

Fyrsta skáldsaga Demick, Logavina Street: Life and Death in a Sarajevo Neighborhood, kom út árið 1996 og fjallar um Bosníustríðið og hvernig það sundraði íbúum Logavinagötunnar í Sarajevo þar sem öldum saman höfðu búið í sátt fjölskyldur sem aðhylltust ólík trúarbrögð. Í annarri skáldsögu hennar, Engan þarf að öfunda: Daglegt líf í Norður-Kóreu (2009) fléttast saman sögur af örlögum sex flóttamanna frá Norður-Kóreu sem segja frá daglegu lífi og grimmilegu hlutskipti í þessu einangraðasta ríki veraldar. Sú bók vakti gríðarlega athygli og fór sigurför um heiminn.

Í nýjasta verki sínu, skáldsögunni Að borða Búdda: Líf og dauði í tíbetskum bæ (2020), varpar Barbara Demick ljósi á menningu sem hefur lengi verið rómantíseruð af Vesturlandabúum sem andleg og friðsamleg. Hún sýnir hvað það þýðir raunverulega að vera Tíbetbúi í nútímanum, reyna að varðveita menningu sína, trú og tungumál fyrir óstöðvandi ofurvaldi, gripdeildum þess og viðvarandi kúgun.

12:00: Sagnfræði, sálfræði, Sci-fi

Sigrún Pálsdóttir, Helene Flood og Alexander Dan. Stjórnandi: Árni Matthíasson.

Hvernig kvikna hugmyndirnar? Bindur formið efnið eða öfugt? Í þessu pallborði verða ýmis form skáldskapar og fræðilega skrifa rædd, hvað formin eiga sameiginlegt og hvað skilur þau að. Hvað einkennir þessi skrif höfundanna og hvar liggja mörkin á millis skáldskapar og veruleika?

Sigrún Pálsdóttir hefur skrifað bæði skáldskap og fræðirit og líka bækur sem dansa þarna á mörkunum. Helene Flood sló í gegn um heim allan með skáldsögunni Þerapistanum þar sem reynir á aðferðir sálfræðinnar og Alexander Dan skapar nýja heima og veruleika í bókum sínum. Stjórnandi umræðu er Árni Matthíasson.

16:00 – 17:30: Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum

Smásögur heimsins komu út í fimm bindum á árunum 2016 til 2020 í ritstjórn Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, Jóns Karls Helgasonar og Rúnars Helga Vignissonar. Í bindunum er að finna 94 sögur frá 75 löndum og taka þau yfir sex álfur heimsins, að undanskildu Suðurskautslandi: Evrópu, Afríku, Asíu og Eyjaálfu, Rómönsku Ameríku og Norður-Ameríku. Um er að ræða eitt stærsta þýðingarverkefni seinni ára hér á landi þar sem 45 þýðendur lögðust á eitt og þýddu sögur úr sextán tungumálum.

Innlegg verða frá Einari Fal Ingólfssyni, Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur og fjórum nemendum úr ritlist og almennri bókmenntafræði, þeim Árna Árnasyni, Elínu Eddu Þorsteinsdóttur, Marteini Knaran Ómarssyni og Vilborgu Bjarkadóttur. Viðburður fer fram á íslensku.

Laugardagur 11. september

11:00: Barnadagskrá: Vinnustofa – Lesið og skrifað með múmínálfunum

Ókeypis smiðja fyrir 4-10 ára.
Ungum gestum er boðið í samtal, leiki, lestur og föndur sem tengir saman bókstafi og tilfinningar. Stafrófið er í forgrunni á sýningunni Lesið og skrifað með Múmínálfunum og hver stafur og mynd á sýningunni tengist mismunandi tilfinningu á borð við vonbrigði, sorg og ævintýraþrá . Brot úr sögum um múmínálfana verða lesin til að rannsaka hverja tilfiningu og hvern staf í þaula.
Vinsamlegað skráið ykkur vegna sóttvarna með því að senda póst með nafni, kennitölu og símanúmeri: hrafnhildur@nordichouse.is

12:00: Sögur af jaðrinum

Leila Slimani, Nina Wähä og Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Stjórnandi: York Underwood.

Þær frásagnir sem birtast okkur í hversdeginum eru oft á tíðum fremur einsleitar. Hlutverk bókmennta hlýtur þó að einhverju leyti að hverfast um að opna heiminn frekar, að miðjusetja raddir af jaðrinum og skapa skilning. Ábyrgð hverra er það að skrifa slíkar bækur? Þarf höfundur sjálfur að vera jaðarsettur til þess að fjalla um viðfangið, eða er krafan á jaðarhópa um að útskýra sig í sífellu ósanngjörn? Í þessu pallborði verða sögur af jaðrinum ræddar. Leila Slimani, Nina Wähä og Bergþóra Snæbjörnsdóttir hafa allar á einn eða annan hátt fjallað um fólkið á jaðrinum, hvort sem það er landfræðilega, samfélagslega eða andlega. York Underwood stjórnar pallborðinu.

13:00: Barnadagskrá: Sænsk sögustund í Barnahelli

Sænsk sögustund í Barnahelli – barnabókasafni Norræna hússin, með Sophia Jansson, frænku Tove Jansson.

Hópurinn passar best fyrir börn á aldrinum 2-10 ára en öll börn sem skilja sænsku eru velkomin.

Þetta er ókeypis viðburður fyrir börn sem vilja hitta önnur sænskumælandi börn. Foreldrum er velkomið að taka þátt með börnunum eða kíkja í bókahillurnar á bókasafninu.

13:00: Sjálfsmynd Íslendinga í bókmenntum og annað sjónarhorn

Kristof Magnússon, Eliza Reid, Joachim Schmidt, Egill Bjarnason og Mao Alheimsdóttir. Stjórnandi: Halldór Guðmundsson.

Bókmenntalandið Ísland er tekið til skoðunar og sá ríki þáttur sem bókmenntir eiga, eða áttu, í sjálfsmynd þjóðarinnar. Er þetta fegrun eða sjálfsblekking? Hvernig blasir þetta við höfundum sem koma annars staðar að og sem fást við Ísland og hvernig skynja þeir bókmenntalandslagið hér? Hér taka til máls Kristof Magnússon, Eliza Reid, Joachim Schmidt, Egill Bjarnason og Mao Alheimsdóttir. Halldór Guðmundsson stýrir umræðum

14:00: Barnadagskrá: Finnsk sögustund með Sophia Jansson

Finnsk sögustund í Barnahelli – barnabókasafni Norræna hússins, með Sophia Jansson, frænku Tove Jansson.

Hópurinn passar best fyrir börn á aldrinum 2-10 ára en öll börn sem skilja finnsku eru velkomin.

Þetta er ókeypis viðburður fyrir börn sem vilja hitta önnur finnskumælandi börn. Foreldrum er velkomið að taka þátt með börnunum eða kíkja í bókahillurnar á bókasafninu.

14:00: Orðstírshafar með höfundum

Þýðendadagskrá þar sem handhafar Orðstírs, heiðursverðlauna þýðenda af íslensku á önnur mál, spjalla við höfunda. Salka Guðmundsdóttir stýrir umræðum. Viðburður fer fram á íslensku.

Smelltu hér til að sjá alla hátíðardagskrána þar á meðal alla staði