Arctic Concerts- Arctic Broken Consort


20:30

Kaupa miða 

Arctic Concerts er ný tónleikaröð í Norræna húsinu

Á fimmtudögum kl 20:30 í allt sumar

Arctic Concerts tónleikaröðin er ætluð áhugasömum ferðamönnum, ekki síður en íslenskum  tónlistarunnendum sem vilja kynnast íslenskri og norrænni  tónlist og flytjendum hennar, í einstakri nánd og vinalegu umhverfi.

Arctic Broken Consort er nýr tónlistarhópur, reistur á gömlum merg sem heldur sína fyrstu opinberu tónleika í Arctic Concerts röðinni í Norræna húsinu.

Arctic Broken Consort er hugmynd um blandaðan tónlistarhóp hljóðfæraleikara þar sem hver meðlimur hefur fjölþætt hlutverk.  Tónlistin er margvísleg, frumsamin en líka forn, endurunnin eða endurflutt, sumt gamalt en annað nýtt.  Auk tónsmíða meðlima hópsins heyrast m.a. fáheyrð lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar Ragnarsson og fl. auk þjóðstefja og kvæða.  Allt efnið er ættað af Norðurslóðum og gefur það verkefninu sérstakt yfirbragð.  Hljóðfæraskipan Arctic Broken Consort er bæði nútímaleg og frumstæð.  Þar mætast upprunahljóðfæri fortíðar og frumbyggja í harmóníu við nýjustu rafhljóðfæri og tölvur og magna göróttan seið.

Flytjendur Arctic Broken Consort á þessum fyrstu tónleikum eru;  Guðni Franzson klarínettuleikari en hann var m.a. áberandi með hljómsveitinni Rússíbönum, leiðandi meðlimur Caput hóps og jarlinn af Tóney, Eggert Pálsson hljómborðsleikari, pákuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og meðlimur Voces Thules sönghópsins og Egill Jóhannsson gítarleikari sem síðustu ár hefur verið einn helsti tónmeistari hjá RÚV.  Þeir þrír eiga náið músíkalskt samband frá æsku, léku m.a. sem Keltar, tónlist frá Írlandi, Skotlandi og Hjaltlandseyjum og fitluðu við jazz undir hatti Arnljóts og kameldýranna auk þess að syngja með Oktettinum.

Aðgangseyrir: 2.500 kr.

Undir merki Arctic Concerts falla allir stílar og tónlistarstefnur;  klassík, jazz,  þjóðlög og fjölbreytt dægurtónlist. Vandaður flutningur og framsetning er aðalsmerki verkefnisins enda flytjendur úr fremstu röð einleikara, einsöngvara og hljómsveita.

07.7. KK söngvari/lagasmiður – blönduð tónlist

14.7. Arctic Broken Consort – blönduð tónlist

21.7. Sunna Gunnlaugsdóttir- jazz

28.7. Funi – þjóðlagatónlist

04.8. Hallveig Rúnarsdóttir & Jóhannes Andreasen – sönglög

11.8. Sólveig Samúelsdóttir – sönglög

18.8. Sölvi Kolbeinsson- jazz

25.8. Svafa Þórhallsdóttir- sönglög

Kvöldverður og tónleikar

Aalto Bistro býður upp á sérstakan matseðil fyrir tónleikana.  Aalto Bistro er opið á fimmtudögum til kl. 21.30. bóka borð

Það er von okkar sem stöndum að Arctic Concerts að röðin verði kærkomin viðbót við menningarflóru landsins, gluggi inn í litríkan tónlistarheim norðursins.

Það er Tóney sem stendur að Arctic Concerts röðinni í samstarfi við Norræana húsið en faglegur stjórnandi er Guðni Franzson tónlistarmaður.

Málverk: Georg Guðni, 2001.