Arctic Concerts- Unnur Sara Eldjárn


20:30

Kaupa miða 

Arctic Concerts er ný tónleikaröð í Norræna húsinu

Á fimmtudögum kl 20:30 í allt sumar

Arctic Concerts tónleikaröðin er ætluð áhugasömum ferðamönnum, ekki síður en íslenskum  tónlistarunnendum sem vilja kynnast íslenskri og norrænni  tónlist og flytjendum hennar, í einstakri nánd og vinalegu umhverfi.

 Tónlistarmaður kvöldsins: Unnur Sara Eldjárn

Unnur Sara er ung söngkona og lagahöfundur sem hefur vakið mikla athygli fyrir einstakan flutning  laga sinna og útsetninga á undanförnum árum. Hún stundaði nám við Tónlistarskóla Fíh og hefur unnið með fjölmörgum íslenskum tónlistarmönnum  svo sem listakonunni Sóley og fleirum.

Unnur Sara gaf út sína fyrstu plötu á síðasta ári, frábæra plötu sem ber þessari ungu listakonunni fagurt vitni. Platan er heilsteypt höfundarverk ungs söngvaskálds og hefur hlotið mjög góðar viðtökur.

Hljóðheimur Unnar Söru er popp, rokk og jazz skotinn en rödd hennar er algerlega einstök, björt, tær og hrein. Textar Unnar Söru eru persónulegir og fjalla um hennar nánasta umhverfi af einlægni og hlýju. Unnur leikur á gítarinn og syngur en á Arctic Concerts næsta fimmtudag nýtur hún stuðnings Halldórs Eldjárns á slagverk og Gréta Rún Snorradóttir leikur á selló.

Það verður upplifun að fá að heyra Unni Söru flytja efni sitt í nálægðinni sem salur Norræna hússins skapar, en tónleikar Arctic Concerts eru um klukkutíma langir.

Hér er linkur á Unni Söru  flytja lagið Að gleyma sér, eigið lag og texta  https://www.youtube.com/watch?v=QSF4v6phee8

Einnig lagið Minningin sem hún samdi til minningar um föður sinn Kristján Eldjárn gítarleikara sem var kallaður úr okkar heimi árið 2002, langt fyrir aldur fram.

Aðgangseyrir: 2.500 kr.

 

Undir merki Arctic Concerts falla allir stílar og tónlistarstefnur;  klassík, jazz,  þjóðlög og fjölbreytt dægurtónlist. Vandaður flutningur og framsetning er aðalsmerki verkefnisins enda flytjendur úr fremstu röð einleikara, einsöngvara og hljómsveita.

Tónleikar Arctic Concerts eru um klukkutíma langir og er efnisskrá og framsetning alfarið í höndum flytjenda hverju sinni. Flytjendur verða tilkynntir vikulega,  fylgist með!

Kvöldverður og tónleikar

Aalto Bistro býður upp á sérstakan matseðil fyrir tónleikana.  Aalto Bistro er opið á fimmtudögum til kl. 21.30. bóka borð

Það er von okkar sem stöndum að Arctic Concerts að röðin verði kærkomin viðbót við menningarflóru landsins, gluggi inn í litríkan tónlistarheim norðursins.

Það er Tóney sem stendur að Arctic Concerts röðinni í samstarfi við Norræana húsið en faglegur stjórnandi er Guðni Franzson tónlistarmaður.