15:15 Tónleikasyrpan – Ásjónur hjarðpípuleikaranna


15:15

15:15 Tónleikasyrpan – Ásjónur hjarðpípuleikaranna

Sunnudaginn 4. mars  verða leikin nokkur blásarasóló íslenskra meistara í 15:15 tónleikasyrpunni  í Norræna húsinu undir yfirskriftinni Ásjónur hjarðpípuleikaranna

Þá leika þær Eydís Franzdóttir óbóleikari, Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari og Pamela De Sensi sem leikur á altflautu og kontrabassaflautu verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, Svein Lúðvík Björnsson, Steingrím Þórhallsson og Hafdísi Bjarnadóttur.

Tónleikarnir hefjast á Lux aeterna fyrir altflautu eftir Steingrím Þórhallsson sem hann samdi 2012 fyrir Pamelu De Sensi og hún frumflutti á tónleikum í Feneyjum það sama ár. Þá verða leikin tvö mjög ólík verk eftir Svein Lúðvík Björnsson, það fyrra, Glerskuggar er einlægt og tilfinningaþrungið verk fyrir óbó, samið 1999 fyrir Eydísi Franzdóttur, en það síðara; The Groom of the Stool fyrir fagott er glettið og kraftmikið, nánast frekjulegt, samið fyrir Kristínu Mjöll Jakobsdóttur 2016.

Þá verða flutt þrjú verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Það fyrsta, Tvö tré, fyrir kontrabassaflautu er samið fyrir tónleika Pamelu De Sensi í Feneyjum 2012 líkt og verk Steingríms, annað; Ásjónur kvöldsins fyrir óbó frá 2002, samið með hliðsjón af samnefndu ljóði eftir Óskar Árna Óskarsson fyrir Eydísi og síðast Album fyrir altflautu og lúppu frá 2015, einskonar tónlistar albúm þar sem tónefni verksins er unnið út frá fangamörkum allra í fjölskyldu Elínar.

Að lokum verða flutt tvö verk eftir Hafdísi Bjarnadóttur. Tónverkið Já! fyrir fagott og hljóðupptöku er samið fyrir Kristínu Mjöll 2012 og byggir á sama efnivið og samnefndur geisladiskur Hafdísar sem kom út á haustdögum 2017 og hlaut Kraumsverðlaunin 2017 og hefur nú nýverið verið tilnefndur til tónlistarverðlauna sem besti diskur ársins 2017. Síðast en ekki síst verður frumflutt glænýtt verk Hafdísar; Sveitin fyrir óbó og fjárklippur ásamt öðrum umhverfishljóðum hjarðpípuleikarans.

 

Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd. 

Miðasala er við innganginn. Miðaverð er 2000 kr. en 1000 fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.