HÍ, Norræna húsið og Reykjavíkurborg rækta garðinn sinn

Vefmyndavél

Friðlandið í Vatnsmýrinni er einstakt. Þar getur fólk notið villtrar náttúru og fuglalífs í miðri Reykjavíkurborg. Árið 2009 hófst uppbyggingarstarf í Friðlandinu í Vatnsmýri. Þá höfðu rannsóknir ítrekað leitt í ljós verulega hnignun svæðisins. Ljóst var að eitthvað þurfti að gera til að snúa þróuninni við.

Norræna húsið, Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg standa saman að verkefninu.
Norræna húsið leitaði eftir áliti sérfræðinga með yfirgripsmikla þekkingu á Vatnsmýrinni og sambærilegum vistkerfum með það að markmiði að þeir kæmu með tillögur að úrbótum. Í þessari sérfræðinganefnd sitja: Hlynur Óskarsson, doktor í vatnavistfræði, Hrund Ólöf Andradóttir, doktor í umhverfis- og byggingaverkfræ
ði, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, doktor í plöntuvistfræði, Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, og Ólafur Karl Nielsen, doktor í vistfræði.

  • Endurbæturnar hafa það að markmiði að:
  • Auka tegundasamsetningu varpfugla og treysta afkomu þeirra.
  • Skapa kjörlendi fyrir vatna- og mýrargróður.
  • Draga úr mengun í vatninu.
  • Tryggja vatnsrennsli í síkjum.
  • Rannsóknir á svæðinu verði styrktar og þekkingu miðlað til almennings.

Staðsetning svæðisins gefur góða möguleika til almenningsfræðslu og hefur Norræna húsið lagt áherslu á að friðlandið verði ákjósanlegur staður fyrir fólk til að koma og fræðast um náttúruvernd og votlendi. Í friðlandinu gefst tækifæri til náttúruskoðunar. Gestir geta fylgst með fuglalífinu, fræðst um votlendið og sögusvæðið á skemmtilegan og virkan hátt. Komið hefur verið upp skiltum og innsetningum hringinn í kringum svæðið.

Verkefnið hefur hlotið styrki frá Auðlind Náttúruverndarsjóði og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa.